12.02.1951
Sameinað þing: 41. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 41 í D-deild Alþingistíðinda. (3855)

84. mál, niðurgreiðsla á mjólk

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að upplýsa, að þetta mál hefur nokkrum sinnum verið til umr. í fjvn. og hún hefur sent það til umsagnar ríkisstj. og fengið þaðan m. a. þær upplýsingar, að ef ætti að greiða niður fullu verði, 42 aura á lítra, á þeim stöðum, sem talað er um í þáltill., þá mundi það kosta 7–8 hundruð þúsund krónur fyrir ríkissjóð. Fjvn. hefur enn fremur leitað upplýsinga hjá öðrum aðilum í sambandi við þetta mál, m. a. hvaða áhrif það hefði að fella niður alla niðurgreiðslu á þessari vöru, og munu þær nú vera komnar. Ég skal lofa hv. flm., að málið verði tekið fyrir á næsta fundi fjvn., í fyrramálið. Það er ekki af þeirri ástæðu, að n. hafi viljað svæfa málið, að það hefur ekki komið fram, heldur vegna þess, að n. hefur viljað leita sem gleggstra upplýsinga um það, áður en hún skilaði nál., m. a. vegna þess, að hér er um nokkuð stóra fjárupphæð að ræða, sem ekki hafði verið gert ráð fyrir við afgreiðslu fjárl.