10.01.1951
Sameinað þing: 30. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 42 í D-deild Alþingistíðinda. (3865)

112. mál, jöfnunarverð á olíu og benzíni

Flm. (Finnur Jónsson) :

Herra forseti. Þessi þáltill., sem hér er flutt af okkur 4 þm., miðar að því að reyna að koma nokkrum jöfnuði á olíuverðið í landinu. Till. sama efnis, en nokkru víðtækari, var flutt á síðasta þingi, en náði þá ekki afgreiðslu.

Við, sem flytjum þessa till., teljum nauðsynlegt, að það verði framkvæmt, sem farið er fram á, vegna þess að aðstaða öll til útgerðar er miklu erfiðari úti á landi heldur en hér í Reykjavík og öðrum verstöðvum hér við Faxaflóa, svo miklu erfiðari, að við slíkt verður ekki unað. Útgerðin dregst meir og meir saman úti um landið og flyzt hingað. Það er kunnugt, að flest, sem útgerðin þarfnast, er ódýrara hér í Reykjavík en víðast hvar annars staðar á landinu. Salt er t. d. ódýrara hér en annars staðar, veiðarfærin, sem framleidd eru hér í Rvík, eru ódýrari, við þau leggst flutningskostnaður á aðra staði landsins. Um olíuna er það að segja, að á hana leggst 7–9 kr. flutningskostnaður á hvert tonn, sem leggst við verð hennar úti um land. Það hlýtur að vera ákaflega mikið íhugunarefni fyrir hæstv. Alþingi, ekki sízt á þessum tímum, að fólkið skuli flytjast meir og meir utan af landinu og hingað að Faxaflóa, þar sem skilyrði eru að vísu lífvænleg, en þó gæti orðið hætt, ef árás yrði gerð á landið.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða meir um þessa till., ég held, að hún sé borin fram af fullri sanngirni. Það væri m. a. s. athugandi, hvort ekki ætti að hafa sama verð á benzíni á öllum hafnarstöðum eða sem víðast á landinu. Um þetta gegnir sama máli. Benzínverðið úti um land er miklu hærra en hér við Faxaflóa, og það veldur svo því — eða hjálpar a. m. k. til þess —, að fólksflutningarnir, sem þegar eru byrjaðir í stórum stíl, verða enn alvarlegri og geta valdið landinn miklum erfiðleikum, ef ekki er tekið fyrir þá í tíma. Ég vildi óska þess, að umr. um þetta mál yrði frestað, þegar þeir eru búnir að tala, sem nú vilja taka til máls, og legg ég einnig til, að málinu verði vísað til allshn.