10.01.1951
Sameinað þing: 30. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 45 í D-deild Alþingistíðinda. (3867)

112. mál, jöfnunarverð á olíu og benzíni

Flm. (Finnur Jónsson):

Herra forseti. Ég fór með vilja ekki út í að ræða þetta mál almennt, því að ég vildi leggja áherzlu á, að þetta kæmist sem fyrst til nefndar, m. a. með tilliti til þess, að útgerð hefjist fljótlega, svo að menn viti, við hvað þeir eiga að búa. Nú er það ekki nýtt, að vara sé seld með sama verði á öllu landinu. Ég hygg, að brennivín sé selt með sama verði alls staðar á landinu og það sé ekki reiknaður flutningskostnaður á það. Ef það er nauðsynlegt og sjálfsagt, að allir fái brennivín með sama verði, er þá ekki enn þá nauðsynlegra, að menn fái almennar rekstrarvörur með sama verði alls staðar á landinu? Ég hygg líka, að á síðasta Alþ. hafi komið fram eitthvað svipað um tóbaksverðið, svo að þeir, sem heima eiga út á landi, njóti sömu kjara með brennivín og tóbak og þeir, sem hér búa.

Út af olíuverðinu almennt og þeim upplýsingum, sem hv. þm. Vestm. talaði um, að komið hefðu fram hjá mér á Alþ. um olíuverð, þá hef ég ekki gefið neinar upplýsingar um þetta hér á Alþ. En ég hef, eftir beiðni fjvn., gefið upplýsingar um þá samninga, sem ég gerði um heildarsölu á olíu til ríkisins frá 14. apríl 1950 til jafnlengdar 1951. Nú er ríkið vitanlega ákaflega stór viðskiptaaðili, og sennilega sá stærsti, þar sem koma til allar ríkisstofnanir, skipaútgerðin o. fl., svo að það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt, þó að ríkið fái nokkuð sérstök kjör í sínum viðskiptum. Mér var kunnugt um, þegar innkaupastofnun ríkisins tók til starfa, að skipaútgerð ríkisins hafði haft nokkurn afslátt í sínum viðskiptum og fleiri hinna stærri stofnana. Ég tók því það ráð að leita tilboða um olíuviðskipti til ríkisstofnana við olíufélögin. Ég taldi, að það mundi spara ríkinu 300–400 þús. kr. Á árinu í fyrra var þetta ekki gert með opinberu útboði, heldur var leitað eftir hjá félögunum, hvert þeirra vildi gera hagkvæmasta samninga. Þegar svo kom til að ákveða olíuviðskipti þessa árs, þótti réttara að bjóða viðskiptin út. Og ég fékk tilboð frá þremur stærstu olíufélögunum í olíuviðskipti ríkisins. Ég kallaði til yfirendurskoðanda stjórnarráðsins til að athuga tilboðin, og niðurstaðan varð sú, að tilboð eins olíufélagsins væri hagkvæmast. Þar er gert ráð fyrir allmiklum afslætti, miðað við álagningarreglur þær, sem verið hafa. Ég tel, að ríkið spari á þessum samningum milli 300 og 400 þús. kr. eða jafnvel meira með núverandi olíuverði. Og í sjálfu sér er ekki óeðlilegt, þó að ríkið fái nokkru betri kjör í þessu efni en menn fá almennt, sem hafa minni viðskipti. En því aðeins var hægt að ná þessum árangri í samningunum um olíuverzlunina ríkinu til handa, að sameinuð væru öll ríkisviðskiptin í þessu efni. — Ég er ekki með þessu að segja, að álagningin almennt á olíuna sé réttmæt. Ég hef þvert á móti ástæðu til að halda, að á a. m. k. sumum vörutegundum í þessu efni sé álagningin óþarflega há. En það er atriði, sem sjálfsagt mundi vera hægt að taka til athugunar af væntanlegri nefnd, sem fær þetta mál til athugunar.

Það er vitað, að olían er flutt inn í mjög stórum förmum beint til dreifingarstöðvanna. Og sjálfsagt mætti taka eitthvað til athugunar, hvort ekki væru möguleikar á því að lækka nokkuð flutningsgjaldið fyrir olíuna út um landið, jafnframt því sem gert væri ráð fyrir, að jöfnunarverð væri sett á olíuna. Á flestöllum útgerðarstöðum á landinu, sem mundu koma til greina um það að fá jöfnunarverð á olíum, er nú búið að setja upp olíugeyma, þó að mismunandi stórir séu, og olíuskip flytja olíuna þangað í geyma að mestöllu leyti. Ég held, með þeirri aðstöðu, sem nú er að öðru leyti um útgerð á landinu, þar sem flestir útgerðarstaðir, fyrir utan þá, sem eru við Faxaflóa og Vestmannaeyjar, hafa miklu minna aflamagn en þeir útgerðarstaðir, sem ég nefndi, og þar sem auk þess margt annað en olíur, sem þó er nauðsynlegt fyrir útgerðina, er dýrara á þessum stöðum úti um landið, — ég held, þegar þetta er tekið til greina allt, þá sé nauðsynlegt, að Alþ. taki þetta mál til athugunar og afgreiðslu á þann hátt, sem til er tekið í till. þeirri, sem hér liggur fyrir.

Það er að sjálfsögðu rétt hjá hv. þm. Vestm., að það er ekki hægt að gera þessa ráðstöfun á annan hátt en þann, að þetta eldsneyti hækki þá í verði nokkuð hjá þeim, sem búa hér við beztu aðstöðu í þessum efnum. En ég hygg, að olíunotkun úti um land, samanborið við það, sem hér er við Faxaflóa, sé ekki meiri en svo, að slíkt jöfnunarverð sem hér um ræðir yrði ekki tilfinnanlegt. A. m. k. má segja það, að ef þeir, sem búa hér við beztu aðstöðuna til útgerðar og atvinnurekstrar í því sambandi, geta ekki tekið á sig örlitla hækkun á olíuverðinu, til þess að létta undir með öðrum, hversu örðugt mun olíuverðið þá verða fyrir þá, sem búa í dreifbýlinu og búa við það verð á þessum vörum, sem nú er þar?