10.01.1951
Sameinað þing: 30. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í D-deild Alþingistíðinda. (3872)

112. mál, jöfnunarverð á olíu og benzíni

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Hæstv. viðskmrh. er mjög hvikull í salnum, en þetta er einmitt mál, sem hann þarf að hlusta á, og vildi ég mælast til þess við hæstv. forseta, að hann sæi til, að hæstv. ráðh. væri í þingsalnum, því annars þýðir lítið að vera að ræða þetta mál, en áður en ég ræði við hæstv. ráðh., þá vil ég biðja hv. þm. Ísaf. afsökunar á því, að ég hafði fyrir satt, sem ekki reyndist rétt, að hann hefði gefið upplýsingar um þennan geipilega afslátt annars staðar en hér í sölum þingsins. Hann mun hafa gefið þessar upplýsingar fyrir hv. fjvn. En það skiptir ekki mestu máli, hvar þær hafa verið gefnar, heldur að þær hafa verið gefnar og enginn hefur leyft sér að vefengja þær. Álít ég því mjög réttmætt, sem fram hefur komið, að slíkir fyrirburðir séu þess eðlis, að það sé skylt, að hæstv. viðskmrh., sem hefur yfirumsjón verðlagsmálanna, dragi hér af sínar ályktanir og láti athuga, hversu þetta má ske, og það ekki sízt á tímum eins og nú, þegar allir eru í vandræðum og líka hæstv. ríkisstj. með það, hvað hægt sé að gera til að létta undir með bátaútveginum, svo að hann geti komizt úr höfn. Þeir eru hæfilega þögulir núna, sem í tíð fyrrv. ríkisstj. töluðu sýknt og heilagt um það, hvað þáv. ríkisstj. ætlaði að gera fyrir bátaútveginn, og tíunduðu þá vandlega, hvað tapaðist daglega, meðan bátaflotinn kæmist ekki úr höfn. Nú er steinhljóð í því horni. En um olíuna og annað slíkt er alveg bráðnauðsynlegt að gera allt, sem hægt er, til að létta undir með bátaútveginum. Ég segi ekki, að með því einvörðungu væri allsherjarlausn fengin á vandamálum útvegsins, en það gæti hjálpað mikið til. Ég hef aldrei orðið var við eins miklar áhyggjur um afkomu útvegsins meðal minna umbjóðenda vegna erfiðleika þeirra og nú. Og mér þykir undarlegt, ef þær raddir finna ekki bergmál hjá yfirmönnum verðlagsmálanna, einmitt þegar þeir, sem aðeins hafa leyfi til 5% álagningar, geta gefið stórfelldan afslátt á olíuverðinu, svo stórfelldan, að sá, sem forsorgar ríkið með olíu, hikar ekki við að taka tilboði þeirra vegna hins gífurlega afsláttar, og ekki batnar það við það, þegar hv. þm. Snæf. upplýsir, að enn sé leyfilegt að leggja 60% á smurolíur, og get ég í þessu sambandi sagt það, að álagningin yfir höfuð er nú svo smátt skorin, að flestar verzlanir, sem vilja vera heiðarlegar og fara að landslögum, eru knúðar til að hætta starfsemi sinni vegna þess, hve heildarálagningin er lág. Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að það væri ekki hægt að slá því föstu, að jöfnun á olíuverðinu í Reykjavík og nágrenni annars vegar og öðrum landshlutum hins vegar þyrfti að verða á kostnað okkar, sem búum við lægst olíuverð. Vildi hann, að sú verðjöfnun yrði gerð á kostnað olíufélaganna, og er það sjónarmið út af fyrir sig. En hann verður að fyrirgefa mér, þótt mér yrði það á að gera ráð fyrir, að sá afsláttur, sem þeir fengju, sem fjærst búa, kæmi á hrygg okkar, sem nær erum, því að ég hélt, að verðlagseftirlitið væri í svo föstum skorðum, að erfitt væri hjá því að komast, og skal ég benda á það, að það sagði mér maður, sem verzlaði með jólatrésútbúnað núna fyrir hátíðina, að 6 manna nefnd hefði klukkutímum saman setið á fundum og þingað um það, hvort álagning á jólatrésgreinar skyldi vera nokkrum aurum meiri eða minni. Þegar svona er um hin smærri atriðin, þá er varla slegið slöku við hin stærri. Það er eðlilegt, að stórkaupandi eins og t. d. ríkið með „Ríkisskip“ og allan sinn rekstur hafi betri aðstöðu til að knýja fram betri prísa en t. d. ég með minn mótorbát, en þó mun það vera innan þeirra takmarka, að olíufélögin ekki tapi, því að varla verzla þeir eftir sömu reglu og danski kaupmaðurinn, sem seldi allt undir réttu verði, því að „det er jo Mængden som gör det“, enda fara aðrar sögur af því, sem þeir bera úr býtum, sem þar eru hluthafar, en að þeir bíði tap eða tjón. — Ég lagði tvær spurningar fyrir hæstv. viðskmrh. áðan. Annarri svaraði hann að nokkru leyti, en hinni ekki, og þakka ég honum fyrir það svar, sem kom. Ég spurði hann að því, hvort hann fyndi ekki hvöt hjá sér til að láta athuga það, þegar olíufélögin, þrátt fyrir aðeins 5% leyfða álagningu, geta gefið stórfelldan afslátt. Sagði þá hæstv. ráðh., að álagningin væri að vísu ekki nema 5%, en allt, sem í kringum þetta væri, væri mjög erfitt við að eiga, og fannst mér í orðum hans viss uppgjöf gagnvart því, hvað væri hægt að konstatera og hvað væri ekki hægt að konstatera. Nú hafa þeir hv. þm. Borgf. og hv. þm. Ísaf. skorað á þá n., sem þetta mál fær til meðferðar, að ganga úr skugga um það, hvort þetta er allt eins og það á að vera. Með öðrum orðum: Hv. þm. vilja láta verðlagseftirlitið hverfa til þingnefndar. (PO: Við viljum láta það ganga undir próf hjá þingn.) Ég held, að það sé illa framkvæmanlegt, séð í ljósi þeirrar yfirlýsingar, sem hæstv. ráðh. hefur gefið, sem mér finnst fara í áttina við það, sem lögregluþjónninn enski sagði við borgarann í byrjun fyrra stríðsins, þegar England var að hervæðast og borgarinn kvartaði undan allri þeirri frelsisskerðingu, sem hann yrði fyrir vegna hervæðingarinnar, en þá sagði lögregluþjónninn: „Well, it is the Ministry of War, we cannot deal with them, — það er hermálaráðuneytið. Við getum ekki ráðið við það.“ Á að skilja orð hæstv. ráðh. þannig, að hér séu að rísa upp svo geysiöflug verzlunarfélög og auðhringar, að verðlagseftirlitið treysti sér ekki til við þau? Ef svo er, samtímis því, að verðlagseftirlitið stundar nánasarlega lúsaleit gagnvart almennu kaupsýslufólki, þá er ástæða til að athuga, hvort við séum ekki á meira en litlum villubrautum í þessum efnum, því að ég fullyrði, að nú er svo komið, að verðlagseftirlitið er að hrekja alla ærlega kaupmenn frá starfi og knýja þá út í svartamarkaðsbrask og annað því um líkt. Og ef svo við hlið þessa á að skapa nýtt ástand varðandi hinar sterkari stofnanir, sem hæstv. ráðh. segir, að sé svo erfitt við að eiga, og hv. þm. vilja láta þingn. glíma við, þá er ástæða til að endurskoða afstöðu sína til slíkra framkvæmda. Ég hefði haldið, að opinberlega séu verðlagsákvæðin svo í öllum greinum og lasta það ekki, að það sé ekki hægt að ætlast til þess, að afsláttur á vöruverði sé gefinn, en hér er upplýst, að varðandi eina hina stórfelldustu vörutegund, þrátt fyrir mjög lága prósentuálagningu, er hægt að knýja fram stórfelldan afslátt, og er ég hv. þm. Ísaf. þakklátur fyrir þá rögg, sem hann, ekki mjög reyndur kaupsýslumaður, hefur sýnt með því að ná þessum afslætti, og geri ég ekki ráð fyrir, að seljandinn hafi hér skipt sér til skaða. Það er sem sagt konstaterað, að þrátt fyrir lága álagningu er hægt að ná þessum mikla afslætti. Hv. þm. hefur að vísu ekki nefnt tölur, en hann hefur ekki heldur mótmælt þeim tölum, sem nefndar hafa verið, og þegar hæstv. ráðh. er spurður, hvort ekki sé ástæða til að gera eitthvað í þessu, þá telur hann á því öll vandkvæði, og þetta er einmitt á þeim tímum, þegar hver 5-eyringur á kg, sem hægt er að spara fyrir útgerðina, er mikils virði. Þvert á móti er olían hækkuð í verði nú nýlega. Ég held, að það hafi verið hv. þm. Snæf., sem gat um það, að ýmsum væri ósárt um það, þótt útgerðin byggi við dýrari kost en aðrir, og satt er það, að það hefur oft verið stjúpmóðurleg meðferð á ýmsu varðandi sjávarútveginn, en um olíuna er það að segja, að það eru fleiri en útgerðarmenn, sem eiga þar mikið undir. Einn heimilisfaðir hér í bænum sagði mér nýlega, hvaða þýðingu olíuverðið hefði fyrir sig við að hita upp íbúð sína, og það eru hundruð heimila, þar sem olían er stór faktor í daglegum lífsbjargarkostnaði. Ég ætla ekki að fullyrða neitt um það, hvað þingn. kann að komast langt í að athuga svona mál, — og hvað getur hún gert meira en verðlagseftirlitið og viðskiptamálaráðuneytið? Og ég dreg í efa, að þau störf komi að verulegu haldi, ef það er skoðun verðlagsyfirvaldanna, að málið sé svo flókið, að varla sé hægt að hafa eftirlit með því, eins og virtist mega ráða af orðum hæstv. ráðh.