10.01.1951
Sameinað þing: 30. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 53 í D-deild Alþingistíðinda. (3873)

112. mál, jöfnunarverð á olíu og benzíni

Viðskmrh. (Björn Ólafason) :

Herra forseti. Mér virðist sem hv. þm. Vestm. sé búinn að gleyma því, hvernig þessi mál ganga til í stjórnarráðinu, enda þótt aðeins séu fáir mánuðir síðan hann sat þar sjálfur. Mér skilst, að hann hafi hér ráðizt á mig og telji einhvers konar uppgjöf þau orð, sem ég viðhafði, en það voru þau alls ekki og áttu ekki að skiljast svo, og eins og hv. þm. Vestm. er kunnugt, þá hefur viðskmrh. ekkert með verðlagningu að gera. Það er öll ríkisstj., ef í það fer, en ekki viðskmrh., þótt verðlagsmálin heyri undir hann að forminu til, en hæstiréttur í verðlagsmálunum er fjárhagsráð. Það er því ekki um dagleg afskipti mín að ræða af verðlagi á vörum. Ég veit ekki til þess, að verðlagseftirlitið hafi gefizt upp við neina auðhringa í landinu. Auðvitað er það, að því stærri og margbrotnari sem verzlunarfyrirtækin eru, þeim mun erfiðara verður fyrir verðlagseftirlitið að komast niður í kjölinn, en ég vil benda hv. þm. á, að við verðlagningu á olíu eru tveir fulltrúar sjávarútvegsins, annar frá Fiskifélagi Íslands og hinn frá L. Í. Ú. Þeir eru settir þarna að óskum þessara aðila til þess að gæta hagsmuna útvegsins. Ef olíuverðið er of hátt, en um það skal ég ekki fullyrða, og ef fulltrúar útvegsins sjá það, þá ber þeim skylda til að benda sínum umbjóðendum á það og verðlagseftirlitinu, svo að það geti tekið í taumana. Ég hef ekki orðið var við kvartanir af þeirra hálfu um of hátt olíuverð. Það kemur svo nokkuð úr hörðustu átt, þegar fulltrúi fyrir sjávarútveginn ræðst á mig fyrir að hafa ekki gætt hagsmuna útvegsmanna. Hvað má þá segja um þeirra eigin fulltrúa? En hitt er svo sjálfsagt hlutverk þeirra, sem með verðlagsmálin fara, að taka til sinna ráða, ef grunur kemur upp um það, að eitthvað sé bogið við álagninguna. En mér finnst ekki sanngjarnt, að ráðh. eigi að ganga eftir verðlaginu á olíu í hverjum einstökum atriðum og grúska eftir því, hvort það sé rétt.

Ég sá, að hv. þm. gerði mikið úr því, að eitt olíufélaganna hefði gefið afslátt á olíusölunni til Innkaupastofnunar ríkisins. En mér finnst ekkert grunsamlegt við það, að olíufélag, sem veltir milljónum árlega, geti gefið afslátt af sölu sinni. Þetta er engin ný bóla. Þingmenn vita, að nýsköpunartogararnir hafa fengið stórkostlegan afslátt af sinni olíu eða hér um bil fyrir innkaupsverð. Ætti þetta að benda til þess, að álagning olíufélaganna á aðrar olíur væri óheilbrigð, af því að þau selja þessa olíu fyrir litla þóknun! Ég stend hér hvorki sem verjandi né ákærandi olíufélaganna. Að því leyti sem þetta heyrir undir mig, mun ég taka ákvörðun um það, eins og tíðkazt hefur í embættisfærslunni, en ég viðurkenni ekki, að það sé fyrir tómlæti af hálfu ráðuneytisins, að hátt verðlag sé á olíu, og enginn getur sagt með vissu um það, hvort álagningin sé of mikil eða ekki, en ég álit, að það ætti að ganga úr skugga um það til þess að ásaka olíufélögin ekki að ósekju, og ef þau eiga það skilið, kemur það fram við rannsóknina.