10.01.1951
Sameinað þing: 30. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 54 í D-deild Alþingistíðinda. (3874)

112. mál, jöfnunarverð á olíu og benzíni

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Í þessari till. er lagt til, að útsöluverð á olíu verði það sama um allt land, þar sem olíuflutningaskip, sem annast flutning á milli hafna, geta losað olíu á birgðageyma olíufélaganna, og er tilgangur flm. sá, að þeir, sem búa við óhagstætt verð, fái það lagfært. En nú er auðsætt, að verðlagið er hæst þar, sem olíufélögin geta ekki flutt olíuna á skipum og sett hana beint á geymana, heldur verða þau að flytja hana í tunnum. Ég tel því, að till. nái of skammt, og hefði helzt viljað, að tekið hefði verið tillit til þessa og till. þá orðuð í samræmi við það, en mun þó fylgja henni eins og hún er.

Hæstv. viðskmrh. sagði, að álagningin á olíu væri 5%, — ef ég hef tekið rétt eftir. Það virðist þá sem þessi 5% álagning gefi góðan hagnað, sem hægt er að gefa eftir nokkurn hluta af, ef mikil viðskipti eru, og mætti þá veita hinum nauðstadda bátaútvegi nokkra hjálp með því að þrengja álagninguna.

Hæstv. ráðh. segir, að þetta verðlag falli ekki undir sitt ráðuneyti, heldur fjárhagsráð. En er hæstv. ráðh. kunnugt um það, að verðlagsyfirvöldin hafa gert till. um að lækka álagninguna úr 38% í 19% og 60% í 30% á smurolíu, en ekki fengið áheyrn fjárhagsráðs? Og mér finnst hæstv. viðskmrh. sem æðsta yfirvald í þessum málum ætti að láta til sín taka til leiðréttingar á þessu.

Ég hef góða heimild fyrir því, að á tíu síðustu mánuðum ársins 1950 hafi ágóði olíufélaganna þriggja verið um 3 millj. kr. Mig langar til að spyrja ráðh., hvort honum sé ekki kunnugt um, að olíufélögin mega reikna sér 3% af smurningsolíunni sem leka, en hún er þó flutt á litlum dunkum, sem leka lítið eða ekkert, og mætti því leggja þetta við hin 38%. Þangað til ráðh. ber brigður á þetta, hef ég það fyrir satt. — Einnig hef ég frétt, að álagning á frostlegi sé 51%, en hann er rifinn út, og menn bíða í biðröðum um leið og fréttist af honum. Það eitt er ekki nægilegt, að menn huggi sig við það, að þessi álagning hafi gilt í nokkur undanfarin ár, og er ástandið þeim mun verra, sem við höfum átt við þetta að búa nokkra hríð, og það er ekki síður ástæða fyrir röggsaman viðskmrh. að láta þetta til sín taka nú, bæði vegna hins slæma ástands bátaútvegsins og hins, að þetta hefur gengið svo til í mörg ár.

Hæstv. ráðh. sagði, að það heyrði undir sitt ráðuneyti að grípa inn í, ef grunur kæmi upp um það, að ekki væri allt með felldu. Mér finnst nú nægilegt tilefni til, að hann geri það nú eftir þær umr., sem hér hafa farið fram í dag, og eftir að hafa heyrt þrjá þm. láta til sín heyra um þennan óhóflega gróða. Og ég tel sjálfsagt að nota þennan hagnað til þess að endurgreiða þeim landshlutum, sem greiða hærra verð fyrir olíuna en aðrir landshlutar. En jafnrétt er að knýja fram verðlækkun á olíu með því að þrengja álagningarrétt olíufélaganna, þar sem upplýst er, að gróði þeirra er svo óhóflegur og fjárfestingin svo afskapleg, að hinum hörðustu samkeppnismönnum ofbýður brjálæðið í þessar samkeppni.