28.02.1951
Sameinað þing: 48. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1475 í B-deild Alþingistíðinda. (39)

Almennar stjórnmálaumræður (eldhúsdagsumræður)

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Það var auðheyrt á ræðu utanrrh., að hann var eitthvað smeykur við, að Marshallhjálpin svo kallaða fari að verða allóvinsæl hjá þjóðinni. Þess vegna þuldi hann nú hér sinn venjulega óhróður um sósíalista, kryddaðan hinum venjulegu fölsku tilvitnunum og beinum ósannindum í viðbót. En hæstv. ráðh. var ekki að skýra þjóðinni frá því, að hann stæði nú sjálfur í samningum um að koma upp opinberri hernaðarstöð fyrir flugher Bandaríkjanna. Segir norska blaðið „Dagbladet“ frá því 17. febr., að Ísland, Portúgal og Ítalía séu að gera slíka samninga, en kommúnistaæsingar og þvættingur ráðh. hér áðan eiga vafalaust að undirbúa jarðveginn fyrir hann til þess að svíkja föðurland vort undir Bandaríkin.

Eysteinn Jónsson sagði í fyrrakvöld, að meinið, sem nú þjáði þjóðina, væri, að „það væri meira peningamagn í gangi en vörur til að kaupa fyrir“ — og úr þessu „meini“ ætli ríkisstj. að bæta. Það má vel vera, að ríkisstj. þekki bezt til þeirra höfðingja í Reykjavík, sem hafa svo mikla peninga, að þeir vita ekki, hvað þeir eiga fyrir þá að kaupa, og hugsi mest um að sinna þeirra kröfum og verða við þeirra þörfum, en þetta er ekki þjóðfélagsmeinið, sem þjáir þjóð vora nú undir eymdarstjórn hans. Ég skal segja Eysteini, hvað meinið er. Meinið, sem nú þjáir alþýðuheimili Íslands, er, að það er minna peningamagn í buddu húsmóðurinnar en þarf til þess að kaupa brýnustu nauðþurftir handa börnunum. Það er úr þessari neyð alþýðuheimilanna um allt land, sem fyrst og fremst verður að bæta, bæta með því að tryggja alþýðuheimilunum meiri peninga til þess að kaupa fyrir, en það þýðir: tryggja þeim meiri og stöðugri atvinnu og betra kaupgjald. Barátta alþýðunnar fyrir þessu er barátta fyrir lifi hennar og velferð. Eftir afstöðu og framkomu manna í þeirri lífsbaráttu mun alþýðan dæma þá.

Meðan við sósíalistar og aðrir einingarmenn höfðu forustuna í Alþýðusambandi Íslands 1942–1948, meðan áhrifa Sósfl. naut við á ríkisstjórn, bjó alþýða Íslands við næga atvinnu og batnandi kaup. Það er eina tímabilið í hinni löngu ævi hennar, sem hún hefur mestöll haft nóg að bíta og brenna, eina tímabilið, sem skorturinn hefur ekki verið vágestur íslenzkra alþýðuheimila. Nú hefur, fyrir 4 ára samræmdar hernaðaraðgerðir íslenzka afturhaldsins og amerískra yfirboðara þess gegn alþýðunni, tekizt að koma skortinum aftur inn á íslenzk alþýðuheimili.

Við skulum nú athuga, hverjir það eru, sem standa á bak við hið skipulagða atvinnuleysi og hinar skipulögðu kauplækkanir, svo að alþýða manna geti gert sér ljóst, við hverja er að berjast. Við skulum fyrst athuga annan aðalþátt atvinnunnar, fjárfestinguna. Framleiðslumálin ræði ég ekki að þessu sinni. Fjárfesting merkir allar þær framkvæmdir, sem snerta aukningu atvinnulífsins, öflun nýrra tækja, bygging nýrra mannvirkja og allar íbúðarhúsabyggingar. Það er öllum ljóst, hver lífsnauðsyn það er þjóðinni að auka bæði atvinnutæki og húsakost sinn svo sem frekast er unnt, og aðeins með því, að hver einasta hönd fái verk að vinna, er hægt að bæta úr þessari brýnu nauðsyn þjóðarinnar. En hver er afstaða stj. og amerísku valdhafanna í fjárfestingarmálinu, þessu máli, sem sker úr um það, hvort íslenzkur verkalýður hefur nóga vinnu eða gengur að miklu leyti atvinnulaus? Afstaða stj. er að draga úr fjárfestingunni, þ. e. öllum atvinnuframkvæmdum, eins og hún frekast þorir fyrir þjóðinni. Og það kom í ljós nýlega, hver það er, sem stjórnar þeirri innreið atvinnuleysis á Íslandi, sem þar af hlýzt. Það var ameríska Marshallstofnunin. Ég skal þó, áður en ég rek þá sögu, minna á, að Íslendingum var áður kunnugt um fjandskap amerískra yfirvalda við nýsköpun Íslendinga. Þegar stjórn Stefáns Jóhanns fór fram á það að fá að kaupa þá 10 togara, sem nú eru að koma til landsins, fyrir Marshallfé, sögðu Ameríkanar blátt nei við. Það varð því að leita til Englands til þess að fá dýrara fé lánað til þess að kaupa þá. En það, sem gerðist í vetur hér á Alþ. og leiddi í ljós, hvernig amerísk yfirvöld hugsa sér, með tangarhaldi því, sem þau nú hafa á efnahagslífi voru, að banna Alþingi Íslendinga að stjórna fjármálum í samræmi við þing- og þjóðarvilja, er eftirfarandi:

Meiri hl. fjhn. Nd. hafði í byrjun nóvember flutt frv. um að leyfa byggingu smáíbúða, án þess að sækja þyrfti um fjárfestingarleyfi til fjárhagsráðs. Frv. var samþ. við 3. umr. í Nd. og afgr. til Ed. 5. des. með öllum greiddum atkv. gegn einu. Í Ed. var frv. afgreitt til fjhn., og skilaði hún áliti um það 18. jan. og lagði til, að það yrði samþ. Meiri hl. vildi, að það yrði samþ. óbreytt, en minni hl., að það væri samþ. með nokkrum smábreytingum. Síðan hefur málið verið til 2. umr. öðru hvoru í 1½ mánuð, en ekki verið hleypt lengra vegna aðgerða ríkisstj. Kröfur almennings og vilji þingsins í þessu efni er ótvíræður. Fólkið heimtar frelsi til að mega byggja smáíbúðir. Stöðvun málsins er orðin þjóðarhneyksli. Meira að segja Morgunblaðið kemst ekki hjá því að taka undir kröfur fólksins um, að málið nái fram að ganga. Morgunblaðið segir í ritstjórnargrein 15. febr., undir fyrirsögninni „Hvað dvelur smáíbúðafrumvarpið?“, eftirfarandi, með leyfi hæstv. forseta:

„En umræður um málið hafa stöðvazt, enda þótt nefnd hafi skilað um það áliti og mælt með samþykkt þess. Hvernig stendur á þessu? Á að heykjast á þessari smávægilegu rýmkun og tilslökun á haftafarganinu? . . . . Sú krafa hlýtur því að verða borin fram, að fyrr greint frv., sem er sjálfsagt og sanngjarnt, verði hið fyrsta afgreitt og hljóti lagagildi.“

Þetta voru orð Morgunblaðsins 15. febr. Bæjarstjórn Reykjavíkur samþykkti einróma 15. febr. áskorun til þm. Reykjavíkur um að fylgja málinu fast eftir. Borgarstjóri lýsti því yfir 15. febr., að málinu væri frestað eftir beiðni eins Framsóknarráðherrans. Síðan sendi hann þm. Reykvíkinga áskorunina. Bjarni Benediktsson, 1. þm. Reykv., hæstv. utanrrh., svaraði þessari eindregnu áskorun Reykvíkinga um að beita sér fyrir framgangi málsins með því að heimta málinu enn frestað á næsta fundi Ed. — og því er frestað enn. Það mun nú sýna sig, hvaða rödd það var, sem Bjarni mat meira en rödd Reykvíkinga. Hvað hafði gerzt? Hvaða Heiðnabergsrödd hafði nú sagt: „Hættu að vígja, Gvendur“? Fjárhagsráð leysti gátuna. Ráðið hafði lagzt harkalega gegn málinu og í bréfi til allshn. Sþ. út af skyldu máli beitt þeim rökum, er það áleit sterkust til að stöðva málið og brjóta á bak aftur vilja þings og þjóðar. Fjárhagsráð sagði í bréfi þessu, dags. 13. jan., eftirfarandi:

„Fjárhagsráði hefur skilizt, að vegna tilrauna til þess að fá að nota fé úr mótvirðissjóði verði að takmarka árlega fjárfestingu við ákveðið hámark, og að það sé fullkomlega skilyrði fyrir því, að leyfi fáist til þess að nota mótvirðissjóð. Ef farið væri eftir tillögu þessari, mundi það gera ómögulegt að sýna forráðamönnum mótvirðissjóðs fram á, hver fjárfestingin væri, þar sem takmarkanirnar næðu aðeins til hluta hennar.“

Hvað segir þetta bréf okkur? Það segir okkur í fyrsta lagi, að fjárhagsráð og ríkisstj. lita á þá háu herra í Washington sem hina raunverulegu forráðamenn mótvirðissjóðs, en ekki á Alþingi, sem að íslenzkum lögum ræður þeim sjóði. Það segir okkur í öðru lagi, að þeir háu herrar í Washington setja sín hörðu skilyrði, sem fjárhagsráð og ríkisstjórn ætla að beygja Alþ. undir. Og þeirra skilyrði eru: Þeir heimta að ráða hámarki fjárfestingar á Íslandi, ráða því fullkomlega, hve miklar atvinnuframkvæmdir Íslendingar ráðast í fyrir sitt eigið fé. Þeir segja okkur þm., að vísu með kurteisara orðalagi, en að innihaldi hið sama og við heyrðum forðum: Ætla búkarlar á Alþingi að gera sig svo digra að skipa lögum í landi, þeim, senn auðkóngar í Ameríku eiga einir að ráða. — Þeir treysta á það, Marshallmennirnir, að hafa nú svínbeygt þá menn, er endurreistu lýðveldið að Lögbergi fyrir 7 árum á afmælisdegi mannsins, sem gaf oss kjörorðið „Eigi víkja“. Á það mun nú reyna, hvort það orð sé gleymt.

Þeir hv. 1. landsk., Brynjólfur Bjarnason, og hv. þm. Vestm., Jóhann Jósefsson, hafa nú krafizt þess, að þingviljinn fái að njóta sín í þessu máli og frv. nái fram að ganga. Við vitum það þm., að það voru mistök, að fjárhagsráð skyldi láta þetta bréf svona frá sér fara, og ráðið hefur fengið bágt fyrir hjá þeim háu í Washington. Það var ekki meiningin, að loðin auðvaldsloppa Ameríku teygði sig opinberlega inn á Alþingi Íslendinga og legði hramminn á borðið. Það var meiningin, að það ætti að klæða þennan hnefa mammonsríkis Ameríku, eins og Matthías Jochumsson kallaði Bandaríkin, í silkiglófa fjárhagsráðs og það síðan tilkynnti með bros á vör og beygingum, að því miður væri ómögulegt af fjárhagslegum ástæðum að verða við þessari frómu ósk Alþingis. Það er hlutverk fjárhagsráðs og ríkisstj. að dylja fyrir Íslendingum efnahagslega yfirdrottnun ameríska auðvaldsins yfir Íslandi, til þess að særa ekki of snemma tilfinningar litillar en stoltrar þjóðar, sem man sína nýlendusögu.

Ég segi frá þessum hlutum hér, til þess að allir góðir Íslendingar geri sér ljóst, hvar við erum á vegi staddir um efnahagslegt sjálfstæði vort. Ég segi enn fremur frá þessu máli hér til þess, að allir þeir, sem nú fá að kenna á ráðstöfunum stjórnarflokkanna í húsnæðismálunum, og allir þeir byggingarverkamenn, sem nú eru atvinnulausir, geri sér grein fyrir því, hvaða aðilum það er að kenna, að orku landsmanna fæst ekki einbeitt til þess að bæta úr húsnæðisleysi og atvinnuleysi. Allri þjóðinni þarf að verða ljóst, að hagsmunabaráttan fyrir atvinnu og húsnæði er orðin órjúfanlega tengd efnahagslegri frelsisbaráttu þjóðarinnar gegn þeim viðjum, sem amerískt auðvald og íslenzk einokun hefur keyrt oss í. Og nú mun margur maðurinn spyrja: Hvers vegna vilja amerísku auðmennirnir og íslenzku einokunarhöfðingjarnir halda atvinnuframkvæmdum og atvinnuaukningu svo takmarkaðri, að stórkostlegt atvinnuleysi hljótist af? Það er gert í tvenns konar tilgangi:

Í fyrsta lagi til þess að skapa og viðhalda sáru atvinnuleysi á Íslandi, svo að afturhaldið hafi í krafti þess atvinnuleysis meiri möguleika á að halda kaupkúguninni við, en verkalýðurinn eigi erfiðara um vik í réttlátri kjarabaráttu sinni. Í öðru lagi til þess að veikja viðnámsþrótt íslenzku þjóðarinnar, svo að hún verði ameríska auðvaldinu því auðunnari bráð. Ég skal skýra þetta síðasta ofurlítið nánar. Ef við Íslendingar fáum að nota það fé, sem við komumst yfir, fyrst og fremst til að afla nýrra atvinnutækja, þá verður þjóð vor efnahagslega sjálfstæð og sterk. Það er þetta, sem ameríska auðvaldið vill ekki að við gerum. Þess vegna var það á móti fjölgun togaranna, þess vegna amast það enn við áburðarverksmiðjunni, þó að það sé búið að skera hana niður í 6000 tonna framleiðslu, þess vegna er það á móti sementsverksmiðjunni. En ameríska auðvaldið býður okkur 100–200 millj. kr. að láni og gjöf, ef við bara viljum éta það allt út, kaupa fyrir það allt neyzluvörur. Og ef við gerum það, í stað þess að nota þessa peninga til að afla nýrra framleiðslutækja, en vinna okkur sjálfir fyrir neyzluvörum með framleiðslu vorri, þá stöndum við efnahagslega á glötunarbarmi eftir örfá ár, og það er það, sem ameríska auðvaldið ætlast til. Þá er kominn tími til að taka fjárforræðið og sjálfsforræðið af þjóðinni, sem það nú er að gera að styrkþega móti vilja hennar.

Ég læt nú útrætt um ráðstafanir afturhaldsins til þess að leiða atvinnuleysið yfir almenning og viðhalda því og kem nú að kaupgjaldinu. Árásir afturhaldsins á kaupgjald verkalýðsins hafa verið gífurlegar síðustu árin, og skiptir þar um árið 1948, þegar íhald og aðstoðaríhald taka völdin í Alþýðusambandinu. Síðan 1948 hefur kaupmáttur tímakaupsins lækkað um meira en 20%, þó að miðað sé við hina opinberu vísitölu óniðurgreidda. En hörmulegust er þó sú kauplækkun, sem kemur fram í því, þegar verkamaðurinn fær aðeins vinnu einn til tvo daga í víku og víða um land ekkert handtak í marga mánuði. Það þarf ekki að lýsa þessum árásum né sanna, að þær hafi átt sér stað; það veit hver einasta alþýðufjölskylda á öllu Íslandi. En það er hins vegar rétt að rifja örstutt upp, hvernig tvær síðustu árásirnar, gengislækkunin og vísitölubindingin nú, eru tilkomnar og undirbúnar.

Gengislækkunin, þessi ægilega árás á íslenzka alþýðu, sem Alþfl. fær ekki nógsamlega fordæmt, er framin samkvæmt samningi, gerðum af stjórn Stefáns Jóhanns við Bandaríkjastjórn 5. júlí 1948, Marshallsamningnum svo nefnda, þar sem stjórn Íslands skuldbindur sig til þess í 2. grein, c-lið, að „koma á ... réttu gengi“ á íslenzku krónunni, og auðvitað er ameríska auðvaldinu gefið valdið til þess að ákveða, hvaða gengi sé rétt á íslenzkri krónu, og ef Íslendingar mögla, já, þá eru Marshallgjafirnar í hættu. Þannig kaupir ameríska auðvaldið sér hlýðni, enda var gengislækkunin ákveðin og útreiknuð í Washington og fulltrúi amerísks banka sendur með skilaboðin hingað. Íslenzku ráðherrarnir létu í ljós undrun sína, hvað lækkunin væri mikil, heyrðu og hlýddu. Íslenzk alþýða borgar, líka þeir, sem glæptust á að kjósa íhald og Framsókn 1949. Vísitölubindingin nú eftir nýár, sem á að tryggja, að kaupgjaldið raunverulega lækki með hverjum mánuði sem líður vegna hinna stórfelldu verðhækkana, sem fram undan eru, er, eins og Hannibal Valdimarsson, hv. 6. landsk., minnti hér á í fyrrakvöld, eitt skilyrði Ameríkana fyrir gjöfunum, sem nú eru ríkisstj. gefnar. Með öðrum orðum: fátækasti hluti íslenzku þjóðarinnar á að borga fyrir það í sílækkandi kaupi, að efnuðustu menn þjóðarinnar geti fengið að kaupa hvaða vörur sem hugur þeirra girnist fyrir lánsfé, sem þjóðin á seinna að borga.

Ég hef lýst öllu þessu svo ýtarlega vegna þess, að það er nauðsynlegt að þjóðin horfist kalt og raunsætt í augu við það, sem nú er að gerast í þjóðlífi voru. Íslenzk alþýða verður að þekkja orsakir þessa ófremdarástands, til þess að geta barizt gegn þeim. Það eru afleiðingar Marshallstefnunnar í atvinnumálum, sem nú bitna á öllum almenningi. Það eru afleiðingarnar af vægðarlausri eiginhagsmunapólitík voldugrar einokunarklíku hér í Reykjavík, sem hugsar um það eitt að þjarma að alþýðu, til þess að gróði auðvaldsins megi verða sem mestur, og stendur í bandalagi við ameríska auðvaldið um þær ráðstafanir, sem gerðar eru í efnahagsmálum landsins og allar hafa beinzt að því að rýra kjör alþýðu og eyðileggja sjálfstætt efnahagslíf Íslendinga. Það er auðséð, að íslenzka og ameríska auðmannastéttin einbeita öllum kröftum sínum að því að brjóta verkalýðssamtökin á bak aftur í þeim átökum, sem fram undan eru. Það á, samkvæmt yfirlýsingum Ólafs Thors í fyrrakvöld, ekki aðeins að beita öllum mætti ríkisvaldsins gegn verkalýðnum, heldur er og öllum þeim atvinnurekendum hótað hörðu, sem vildu vera það sanngjarnir að greiða verkamönnum sínum réttlátt kaup. Slíkir skulu sviptir lánstrausti bankanna, tilkynnti ríkisstj., og séu þeir útflytjendur, þarf svo sem ekki að fara í grafgötur um, að þeir yrðu sviptir leyfi til að flytja út vörur sínar, þegar þeir geta selt þær á betra verði en ríkisstj. og því greitt verkalýðnum betra kaup. Helgreipar einokunarvaldsins yfir bönkunum og útflutningnum eiga að tryggja ríkisstj. algert kúgunarvald gagnvart verkalýðnum og öllum sanngjörnum atvinnurekendum. Það liggur því í augum uppi, að til þess að sigra í sinni réttlátu baráttu verður íslenzk alþýða að sameina alla krafta sína, jafnt á sviði kaupgjaldsmála sem stjórnmála; verkamenn og verkalýðssinnar verða að taka saman höndum, án tillits til pólitískra skoðana, og undirbúa af alvöru þess, sem ber ábyrgðina á lifi og velferð íslenzkra alþýðuheimila, þá hörðu baráttu, sem nú bíður vor. Barátta alþýðunnar stendur um atvinnuna og kaupgjaldið, og hún verður ekki háð sigursælt, nema barizt sé fyrir þessu hvoru tveggja í senn: rétti alþýðunnar og allra Íslendinga til að vinna og framleiða og flytja út, án þess að einokunarhöfðingjarnir geti hindrað það, og rétti alþýðunnar til lífssæmandi vinnulauna. Og af því að hverjum þeim, sem nú vill leggja út í þessa baráttu, hlýtur að vera ljós nauðsynin á einingu alls verkalýðs í þeirri baráttu, þá blöskraði mér yfirlýsing Gylfa Þ. Gíslasonar í fyrrakvöld um, að ekkert samstarf kæmi til mála milli sósíalista og Alþýðuflokksmanna í þessum stórmálum, sem líf og afkoma alþýðunnar veltur á. Og ég vil enn spyrja þm. Alþfl.: Ætla þeir enn, eftir hótanir auðvaldsins í fyrrakvöld, að halda fast við þessa sjálfsmorðspólitík sundrungarinnar? Alþfl. veit, að í harðvítugri baráttu um kaupgjaldið á verkalýðurinn eitt einasta sterkt vopn, verkalýðssamtökin, félögin, sem eru fjöregg alþýðunnar í lífsbaráttu hennar. Það eru þessi samtök, sem verða að heyja baráttuna, ef út í hana er lagt, og verkfallsbarátta er ekki og hefur aldrei verið neinn gamanleikur. Hún er neyðarúrræði kúgaðs fólks, sem á enga aðra möguleika til að rétta sinn hlut, og verkalýðurinn veit, að hann á á hættu sult og hvers konar þrengingar, eins og auðmenn landsins og ráðherrar þeirra hótuðu honum í fyrrakvöld, þegar hann leggur út í slíka baráttu til þess að bjarga lífsafkomu alþýðuheimilanna. Ekkert er þó mikilvægara fyrir alla alþýðu, þegar hún leggur til slíkrar baráttu, en einmitt að samtök hennar séu einhuga og undir markvissri, heiðarlegri forustu, sem gerir sér ljósa ábyrgð sína gagnvart verkalýðnum, sem baráttuna heyir, og óháð atvinnurekendum og ríkisstjórn, óháð því íhaldi, sem Gylfi Þ. Gíslason átti engin nógu sterk orð til þess að fordæma, því íhaldi, sem hann skoraði á þjóðina að berjast gegn undir kjörorðinu „Allt er betra en íhaldið“. En hvað gerir Alþfl. og Gylfi Þ. Gíslason til þess að undirbúa verkalýðsfélögin til þessara örlagaríku átaka við íhald og auðvald þjóðfélagsins? Alþfl. hefur undanfarið gengið sem grenjandi ljón í verkalýðsfélögunum til þess að reyna að koma forustu ýmissa helztu verkalýðsfélaga Reykjavíkur í hendurnar á íhaldinu! Í Dagsbrún hefur Alþfl. fylkt sér um flokksbundinn íhaldsmann, útnefndan af flokksskrifstofu íhaldsins, og reynt að koma honum að sem formanni Dagsbrúnar, auðvitað með þeim hrapallegu úrslitum, að þessum þríflokkum tókst að fá um 500 atkv. í Dagsbrún, þegar Sigurður Guðnason, hv. 6. þm. Reykv., var kosinn í tíunda sinn formaður með yfir 1200 atkv. Svo náin var samvinnan milli Alþfl. og íhaldsins, að við þessar kosningar var auglýst, að það væri alveg sama, hvort menn hringdu í síma Heimdallar eða Alþfl., það væri sami húsbóndinn, sama stefnan á báðum stöðunum, þ. e. að koma íhaldinu til valda og forustu yfir félögum verkalýðsins. Og þessi „barátta“ Alþfl. hefur haldið áfram við hverjar einustu kosningar í verkalýðsfélagi í Reykjavík, nú síðast í Iðju, þar sem verið var að koma íhaldsmanni, sem íhaldsskrifstofan tilnefndi, að sem formanni í stað þess manns, sem unnið hefur Iðju upp sem verkalýðsfélag, Björns Bjarnasonar, og stjórnað henni nú um árabil. Það mistókst fyrir Alþfl. að afhenda það félag íhaldinu, en svo reiðir verða þeir yfir því að geta ekki gefið íhaldinu félagið, að þeir kæra kosninguna. Og svo kemur Gylfi Þ. Gíslason í útvarpið og hrópar út um allt land: Allt er betra en íhaldið! Verkalýðsfélög, til baráttu gegn íhaldinu! En með verkum sínum segir Alþfl.: Afhendum þó íhaldinu verkalýðsfélögin fyrst! Hvílík óskammfeilni! Hvílík takmarkalaus hræsni lýsir sér ekki í þessum aðförum! Það er ekki að undra, þótt svona menn tali digurbarkalega um íhaldsloppuna, sem sé að skera á lífsþráð fátækra verkamanna — um leið og þeir sjálfir reyna af fremsta megni að afhenda íhaldsloppunni fjöregg alþýðunnar, verkalýðssamtökin, og gerast sjálfir aðstoðaríhald í verkalýðsfélögunum.

Það, sem verkalýðurinn þarf nú, til þess að sigra íhald og afturhald, er ekki sundrung, eins og Gylfi boðar, ekki íhaldsþjónusta, eins og Alþfl. framkvæmir, heldur sameining allra verkamanna í baráttunni fyrir atvinnu og lífssæmandi kaupgjaldi.