09.02.1951
Sameinað þing: 40. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 60 í D-deild Alþingistíðinda. (3900)

168. mál, landhelgisgæzla og aðstoð til fiskibáta

Flm. (Sigurður Ágústsson) :

Herra forseti. Till. til þál., sem ég flyt hér á þskj. 583 um landhelgisgæzlu og björgunarstörf á Breiðafirði og sunnan við Snæfellsnes, er borin fram vegna knýjandi þarfa fyrir umbætur á þessu sviði, ef línuskipaútgerð við Breiðafjörð á ekki að leggjast niður með öllu. Eins og fram er tekið í grg., sem fylgir þáltill., er hér um svo alvarlegt mál að ræða fyrir báta, sem stunda línuveiðar á vetrarvertíðinni, að ekki er annað séð en að útvegsmenn hljóti að hætta að gera báta sína út á línu, nema trygging fáist fyrir því, að fullkominni landhelgisgæzlu verði haldið uppi við Snæfellsnes. Mér er það þó ljóst, að landhelgisgæzla ein er ekki nægileg til þess að bæta línubátum upp það stórkostlega tjón, sem botnvörpuskipin valda þeim. Lokatakmarkið í þessu efni er alger friðun Breiðafjarðar fyrir botnvörpuveiðum. Er mér það hryggðarefni, hvað seint gengur með friðun landgrunnsins og víkkun landhelginnar, en það eru spor, ef stigin verða, sem ábyggilega mundu orsaka stórum betri aflamöguleika hjá vélskipaflotanum yfirleitt.

Það er sorgleg staðreynd, að aflabrögð vélbátaflotans við Breiðafjörð hafa undanfarnar 3 til 4 vetrarvertíðir verið allt að því 50% lakari en á styrjaldarárunum. Hin nýbyrjaða vertíð lofar engu góðu um betri aflabrögð nú en á undanförnum vetrarvertíðum, nema síður sé. Þó er það staðreynd, að með hverju ári sem líður bætast betri og fullkomnari fiskiskip í kauptúnin, sem hafa útgerð með höndum við fjörðinn.

Í byrjun heimsstyrjaldarinnar voru aðeins tvö hraðfrystihús við Breiðafjörð og annað þeirra þá nýbyggt. Vegna aukinna aflabragða á styrjaldarárunum risu fleiri hraðfrystihús upp við fjörðinn, þannig að þau eru nú orðin 6. Má fullyrða, að 5 þeirra séu mjög vönduð og geti haft mikil afköst, ef hráefni er fyrir hendi. Nú virðast horfurnar, því miður, vera þær, að þessi hraðfrystihús komi ekki til að hafa neina verulega framleiðslu með höndum, ef þau eiga aðeins að búa við það hráefni, sem línubátarnir láta þeim í té, þar sem, eins og áður er fram tekið, aflabrögð þeirra hafa farið stöðugt minnkandi á undanförnum árum, svo að til vandræða horfir. Frystihúseigendur eru því orðnir kvíðafullir um afkomu fyrirtækja sinna og ræða um m. a. að semja við eigendur botnvörpuskipa að leggja upp afla þeirra í frystihús við Breiðafjörð, svo að hægt verði að auka þar með vinnu við hraðfrystihúsin.

Ég nefni þetta viðhorf til þess að sýna hæstv. ríkisstj. og hv. alþm. fram á þau vandræði, sem útgerðarstaðir við Breiðafjörð eiga við að stríða vegna minnkandi aflabragða línuveiðaskipanna. Það er vetrarvertíð línuskipanna, sem hefur aðallega borið uppi atvinnulíf kauptúnanna við Breiðafjörð s. l. áratug. Hér er því um snögg umskipti að ræða, ef þessi tegund útgerðarinnar getur ekki ár eftir ár staðið undir eðlilegum rekstrarkostnaði vegna aflatregðu. Gefur það auga leið, að slíkur taprekstur hlýtur að hafa í för með sér samdrátt útgerðarinnar, ef útvegsmenn verða þá ekki knúðir til þess að hætta henni með öllu. Þau atvinnutæki, sem byggð hafa verið, svo sem hraðfrystihúsin og fiskþurrkunarhús, verða því að miklu leyti að byggja tilveru sína á næstu árum á afla frá botnvörpuskipum eða útilegubátum.

Þessar bollaleggingar eru tímabærar, þar sem það er staðreynd, að eðlileg fiskgengd í Breiðafjörð s. l. 4 ár hefur ekki átt sér stað, sökum þess að botnvörpuskipin, sem eru að veiðum bæði innan og utan landhelginnar, stöðva bókstaflega fiskgöngurnar. Það er vitað að oft eru á annað hundrað botnvörpuskip að veiðum á þessum slóðum, svo að það er ekki að undra, þó að saxist á fiskgöngurnar er allur þessi skipafjöldi dregur vörpur sínar dag eftir dag á sömu miðum eða í námunda við þau mið, sem línubátarnir eru vanir að sækja afla sinn á. Undanfarna daga hafa útvegsmenn og formenn átt tal við mig um það, að aldrei hafi ágengni botnvörpuskipa verið meiri en nú. Þau liggja bókstaflega yfir línuskipunum og bíða þess, að þau dragi sína línu, og strax þegar línuskipin hafa lokið því, þá byrja botnvörpuskipin að skrapa botninn. Það segir sig sjálft, að það er ekki að vænta mikils línuafla á þeim miðum, sem botnvörpuskipin draga vörpu sína um dag eftir dag.

Sama reynsla í þessum efnum er á Vestfjörðum. Þar hefur afli farið minnkandi ár frá ári, og má fullyrða, að mest sé um að kenna hinum óeðlilega ágangi innlendra og erlendra togara á fiskimiðum línubátanna. — Landhelgisgæzlan við Snæfellsnes hefur á undanförnum árum verið lítil sem engin, enda hafa línubátarnir eða útvegsmenn þeirra margsinnis kvartað undan ágangi botnvörpuskipanna og óskað verndar hæstv. ríkisstj. gegn þessum yfirgangi. Það er ekki ofmælt, að útvegsmenn og sjómenn við Breiðafjörð bera ugg og kvíða í brjósti um framtíð sína, ef ekki verða gerðar raunhæfar aðgerðir af því opinbera til þess að bægja voðanum frá dyrum þeirra. — Það eru því vinsamleg tilmæli mín til hæstv. ríkisstj. og hv. alþm., að þeir sjái nauðsyn þess, að till. mín til þál. á þskj. 583 verði samþ., svo að bætt verði úr vandkvæðum í sambandi við landhelgisgæzluna við Snæfellsnes.