09.02.1951
Sameinað þing: 40. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í D-deild Alþingistíðinda. (3925)

92. mál, skömmtun á byggingarvörum

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Í sambandi við þessa afgreiðslu till. verður ekki hjá því komizt að athuga, hvernig ætlunin er að ganga frá þessu máli. Þessi þáltill. er 92. mál og kom fram fyrir jól. Eins og hv. þm. Vestm. tók fram, kom um líkt leyti fram frv. í Nd., þar sem festa átti í lög að mestu leyti það sama og segir í þáltill. Ég þykist skilja, meðal annars af ræðu hv. þm. Vestm. og af afgreiðslu meiri hl. allshn. á þáltill., að ekki sé von um, að frv. verði nú afgr. á Alþingi. Mér skilst, að það sé vilji fyrir hendi hjá meiri hl. allshn., sem verður að finna útrás með því að láta sér nægja að samþykkja þessa till. Það er augljóst, að allir fylgja þessari till. Allir hefðu kosið að ákveða þetta með lögum, og álít ég það æskilegt.

En mér virðist svo, eftir þeim upplýsingum, sem ég hef fengið, að það séu ákveðin öfl utan þingsins, sem sporna við þessari afgreiðslu. Frv. þm þetta efni var flutt af meiri hl. fjhn. Nd. og afgr. til Ed. með öllum greiddum atkv. gegn einu. Var það afgr. til fjhn. Ed. 17. jan. Nú er upplýst, að þetta frv. standi fast samkv. ósk ríkisstj. Það virðist, að hinn ótvíræði þingvilji til að gefa byggingu frjálsa, fái ekki notið sín. Frv., sem hefur þingvilja, stendur fast vegna óskar ríkisstj., án þess að gefið sé í skyn, að öll ríkisstj. standi á bak við. Það verður að kryfja málið til mergjar. Það sýnist sem það sé utanaðkomandi loppa að teygja sig inn í þingið til þess að skerða þær vonir, sem landsmenn hafa haft. — Ætla ég að leyfa mér að lesa upp kafla úr bréfi, sem fjárhagsráð sendi allshn. Sþ., svo að það komi í ljós, hvers vegna ekki fæst afgreitt frumvarp, sem þingvilji er fyrir. Í þessu bréfi, sem hv. þm. Vestm. vitnaði í, dags. 13. janúar, segir, með leyfi hæstvirts forseta:

„Fjárhagsráði hefur skilizt, að vegna tilrauna til þess að fá að nota fé úr mótvirðissjóði verði að takmarka fjárfestingu við ákveðið hámark, og að það sé fullkomlega skilyrði fyrir því, að leyfi fáist til þess að nota mótvirðissjóð. Ef farið væri eftir tillögu þessari, mundi það gera ómögulegt að sýna forráðamönnum mótvirðissjóðs fram á, hver fjárfestingin væri, þar sem takmarkanirnar næðu aðeins til hluta hennar.“

Ég vil biðja hv. þm. að athuga, að þegar fjárhagsráð tekur svo ákveðið til orða viðvíkjandi þessari till., leiðir af sjálfu sér, að sömu mótbárum er beitt af hálfu fjárhagsráðs viðvíkjandi frv. í Ed., sem mundi skera úr um þetta mál, og vafalaust er þeim beitt í enn ríkari mæli á bak við tjöldin. Nú vil ég biðja hv. þm. að taka eftir, hvað fjárhagsráð segir í raun og veru í þessum setningum, sem ég las. Það segir og upplýsir þingheim um, að gerðar hafi verið tilraunir til þess að fá að nota fé úr mótvirðissjóðnum. Þær tilraunir hafa ekki verið gerðar hér á Alþingi, sem er sá aðili, sem samkv. lögum á að ráða yfir sjóðnum. Þessar tilraunir hafa verið gerðar annars staðar, menn þurfa ekki að fara í grafgötur um það. Tilraunir hafa verið gerðar til þess að fá samþykki frá Washington, eða deild Marshallaðstoðarinnar í Washington viðvíkjandi notkun á fénu. Með öðrum orðum eru gefnar upplýsingar um, að áður en málið var lagt fyrir Alþingi, eru gerðar tilraunir til þess að semja við yfirboðara Alþingis um það, hvernig Alþingi megi nota mótvirðissjóðinn.

Þessir háu herrar hafa einnig upplýst, að skilyrðið sé, að árleg fjárfesting sé takmörkuð við ákveðið hámark. Eða m. ö. o. innan takmarka, sem þessir aðilar setja sem skilyrði fyrir því, að mótvirðissjóður sé notaður. Þannig liggja þau skilyrði fyrir gagnvart Alþingi og ríkisstj., að þau beygi sig undir ákveðið hámark, ef leyfi á að fást til þess að nota fé, sem er í íslenzkum banka. Það er auðséð, hvað veldur því, að fjárhagsráð reynir að draga úr fjárfestingunni og segir, að ef farið sé eftir þáltill., mundi það gera ómögulegt að sýna forráðamönnum fram á, hver fjárfestingin væri. — Hverjir eru forráðamenn mótvirðissjóðs? Þeir eru samkv. íslenzkum lögum Alþingi, þingmennirnir. Aftur á móti eru það aðrir forráðamenn mótvirðissjóðs, sem fjárhagsráð talar um. Eftir íslenzkum lögum eru forráðamennirnir þingmenn, en eftir skilningi fjárhagsráðs er það viss nefnd manna í Washington. Fjárhagsráð virðist líta á erlenda menn sem forráðamenn sjóðs, sem Íslendingar hafa lagt fram og er í íslenzkum banka og ekki má nota nema með samþykki Alþingis. Þannig er komið áliti þessarar stofnunar. Ég býst við, að því fjárhagsráði, sem þykist hafa svo stórt vald á bak við sig, virðist sem það geti talað alldjarft. „Ef farið væri eftir tillögu þessari, mundi það gera ómögulegt að sýna forráðamönnum mótvirðissjóðs fram á, hver fjárfestingin væri, þar sem takmarkanirnar næðu aðeins til hluta hennar.“ M. ö. o. segir fjárhagsráð við Alþingi, að fjárhagsráð geti ekki tekið að sér að sýna þeim fram á, að staðið hafi verið við ákveðin skilyrði, það geti ekki haft umsjón með þessum málum fyrir hönd erlendra aðila í Washington. Ef einhverju er sleppt undan valdi fjárhagsráðs, þá þýðir það, að það geti ekki ábyrgzt, að staðið sé við þau skilyrði, sem forráðamenn mótvirðissjóðs í Washington hafa sett. Við vitum vel, að fjárhagsráð hyggst hafa sterka aðstöðu. Ef Alþingi ætlar að samþykkja lög eða þál., hótar fjárhagsráð með því, að það geti þá ekki sannfært forráðamennina í Washington um, að haldin séu sett skilyrði. (HV: Stendur heimilisfangið Washington?) Nei, en það er greinilegt, við hverja er átt. Er það alvarlegt mál, sem er á ferð. Við verðum að gera upp við okkur, hvort við viljum, að Alþingi hafi rétt til að setja lög og stjórna landinu, eða aðrir menn, utan landsteinanna. Mér sýnist, ef fjárhagsráð þykist svo sterkt, að það geti talað svona við Alþingi, og þykist geta sett því stólinn fyrir dyrnar, að hægur vandi sé að setja ríkisstj. stólinn fyrir dyrnar. Það eru til lög varðandi það, að íslenzka ríkisstj. hlýði Alþingi. Ég vil vekja athygli hv. þm. á því, að Alþingi er löggjafarþing og hefur vald til að setja lög og fyrirskipa ríkisstj., hvað hún eigi að gera. Eða er Alþingi að beygja sig fyrir utanaðkomandi áhrifum, fyrir áhrifum fjárhagsráðs? Hvað þýðir það? Að þingmenn séu að beygja sig þannig, að þeir megi ekki setja lög, sem þeim þykir réttast og fólkið óskar helzt — að Alþingi sökkvi niður í það að verða ráðgefandi þing, en ekki löggjafarþing. Við skulum athuga það, að við stöndum ekki í sporum forfeðra okkar, sem urðu að láta sér nægja að skrifa frómar bænarskrár til Danmerkur og áttu meira að segja erfitt með að koma þeim, vegna þess að þeir gátu ekki treyst embættismönnunum. Við alþingismenn stöndum í þeirri stöðu að geta sett lög, höfum vald til þess. Ég held þess vegna, að það sé óhjákvæmilegt við meðferð þessarar till., að við gerum okkur ljóst, hvort við eigum að sætta okkur við það hlutskipti, sem fjárhagsráð og forráðamenn þess skammta okkur.

Nú vil ég athuga út frá lögum um fjárhagsráð, hve mikla heimild það ráð hefur að lögum til þessara afskipta. Það eru til lög um fjárhagsráð, því það heyrir enn þá undir íslenzk lög, þótt það álíti sig hafa erlenda yfirboðara, og eru þau lög mjög ákveðin. Allt það vald, sem fjárhagsráði er fengið, byggist á þeim lögum. Í 2. gr. laga um hlutverk fjárhagsráðs segir:

„Fjárhagsráð miði störf sín við eftirfarandi: 1. að öll framleiðslugeta sé hagnýtt til fulls og öllum verkfærum mönnum tryggð næg og örugg atvinna.“ Þetta er fyrsta skilyrðið, sem fjárhagsráð á að miða störf sín við. Og í 8. lið 2. gr. segir: „að húsnæðisskorti og heilsuspillandi íbúðum, hvar sem er á landinu, verði útrýmt með byggingu hagkvæmra íbúða“. M. ö. o., þá er vald fjárhagsráðs bundið við það, að það tryggi öllum verkfærum mönnum næga og örugga vinnu og vinni að útrýmingu heilsuspillandi íbúða á Íslandi. Ef fjárhagsráð notar þetta vald sitt til þess að takmarka innflutning byggingarefna og neita um byggingarleyfi og miðar við annað sjónarmið en felst í 2. gr., er það brot á lögum. Ég leyfi mér að spyrja, hvort þm. finnist, að atvinnuleysið, sem nú þjáir reykvíska verka- og iðnaðarmenn, ekki sízt byggingariðnaðarmenn, sé í samræmi við þau ströngu lagafyrirmæli, sem Alþingi hefur gefið fjárhagsráði, og hvort húsnæðisleysið, sem fer sívaxandi, og húsabyggingar, sem fer fækkandi vegna aðgerða fjárhagsráðs, sé í samræmi við 8. lið 2. gr., sem fjárhagsráði var skylt að miða störf sín við. Fjárhagsráð upplýsir sjálft í þessu bréfi, sem ég las, að það miði öll störf og leyfisveitingar við annað. Það upplýsir, að það miði þau við að fullnægja skilyrðum, sem erlendur aðili setur um, hve mikil fjárfesting skuli vera á Íslandi. Það miðar ekki störf sín við að tryggja öllum atvinnu og fyrirbyggja húsnæðisleysi, heldur miðar þau við, að það geti gert erlendum mönnum grein fyrir, hvernig það takmarki fjárfestinguna og gæti þess, að hún fari ekki yfir ákveðið hámark. Það hámark er miðað víð, að atvinnuleysi og húsnæðisskortur aukist. Það vita allir, hvaða hámark þetta er, — þetta hámark fjárfestingar miðast við að tryggja svo og svo mikið atvinnuleysi og svo og svo mikið húsnæðisleysi í landinu. Það er það skilyrði, sem þessir amerísku yfirboðarar setja, og það jafnvægi, sem fjárhagsráð talar um og notar í viðtölum við fulltrúa frá bæjarstjórn Rvíkur og miðast við að viðhalda svo og svo miklu atvinnuleysi í landinu.

Fjárhagsráð hefur með bréfi því, sem það hefur nú sent allshn., viðurkennt, hvernig það brýtur lagafyrirmæli, sem Alþingi hefur gefið, og hagar sínum störfum eftir fyrirskipun manna erlendis frá til að fullnægja skilyrðum, sem þeir setja um, hvernig Íslendingar megi ráðstafa íslenzkum sjóðum.

Okkur er það öllum ljóst, ekki sízt öllum þeim; sem muna þá tíma, er atvinnuleysi var á Íslandi, og sjá með hryllingi fram á, að þeir tímar eru að koma aftur, — er það ljóst, hvað það þýðir að skipuleggja atvinnuleysi. Það þýðir að skipuleggja neyð, skipuleggja eymd, skipuleggja hungur, og það hefur verið gert með þeim árangri, að þegar er farið að sverfa að fjölda alþýðufólks í landinu. Þegar Alþ. Íslendinga er svo ótvírætt búið að láta sinn vilja í ljós, í fyrsta lagi til að semja lög, og í öðru lagi til að samþ. þáltill., þá fáum við þessar kveðjur frá stofnun, sem telur sig þess umkomna að setja sig yfir sjálft Alþ. og fara í fjölda af sínum ráðstöfunum þvert ofan í vilja þess. Ég held, að það sé sannarlega tími til kominn að stinga hér við fótum. Alþingi Íslendinga var að afnema húsaleigulög í fyrra. Ég býst við, að þeir menn, sem hæst töluðu um að fá þau afnumin, hafi sjálfir haldið, að ekki liðu nema nokkrar vikur frá því að þau væru afnumin til þess, að byggingarstarfsemi yrði gefin frjáls á Íslandi, og ég vil vekja eftirtekt hv. þm. á því, að það er algert brot á öllum mannréttindum, ef hægt er fyrst að fleygja manni út úr húsi og banna honum svo að byggja yfir sig, en þetta er ástandið, sem nú ríkir á Íslandi. Þetta er það sama og að meina manni að lifa, en þetta er það, sem gert er, svo framarlega sem ekki verða gerðar þær breytingar, sem farið er fram á í frv., sem er í Ed., og það, sem ég óttast í sambandi við þessa þáltill., er, að hún verði aðeins fróm ósk Alþingis, sem ekkert verður gert með.

Ég veit ekki og ætla mér ekki heldur að fara út í, hvað þeim mönnum gengur til, sem stjórna þeim ráðstöfunum, sem fjárhagsráð nú vill að gerðar séu með sinni afstöðu, bæði gagnvart þessari þáltill. og lagafrumvarpinu, sem nú er í Ed. Ég skal ekkert um það segja, hvort það er aðeins svona takmarkalaust skilningsleysi á líðan fólksins hjá þeim hálaunuðu embættismönnum hér í Reykjavík, sem hafa ekki hugmynd um, hvernig alþýðu manna liður, og geta ekki sett sig inn í, hvað það er að svelta, eða hvort þeir gera sér ekki ljóst, að verið er að níðast á smælingjum með því að meina þeim um tvennt í senn, að vinna fyrir sér og byggja yfir sig. En þegar svo er komið, eins og nú er í einu þorpi á Íslandi, að í jan. s. l. hafði fjölskyldufaðir þar að meðaltali 68 kr. til að framfleyta hverjum einstakling fjölskyldu sinnar, eins og kom í ljós við síðustu rannsókn á Bíldudal, þá geta menn séð, hvernig ástandið er í okkar landi. Þegar meiri hl. Alþ. vill skapa hér frelsi, — og það gat enginn efazt um, sem heyrði ræðu hv. frsm. allshn. áðan, hver vilji Alþingis er, — þá er hart, að við skulum ekki geta gefið þeim vilja það form, sem við getum verið öruggir um, að gildi með þjóðinni.

Hv. þm. Vestm. minntist á þá brtt., sem ég flyt við þessa þáltill. um, að í stað orðanna:

„afnema nú þegar skömmtun á byggingarvörum“ komi: að gefa nú þegar frjálsan innflutning á byggingarvörum. — Hv. allshn. hefur ekki þótt rétt að ganga inn á þá till. að svo stöddu, vegna þess að vonir stæðu til, að hæstv. ríkisstj. gefi allmargar vörur frjálsar nú á næstunni, og hv. þm. Vestm. sagði, að hann gengi út frá því, að byggingarefni yrði eitt hið fyrsta, sem gefið yrði frjálst, og ég þykist vita, að hann mæli þar ekki aðeins fyrir sína hönd, heldur fyrir meiri hl. n., enda hefur sú skoðun komið skýrt í ljós við meðferð þingsins á þessu máli. En þó að það sé enginn efi, að það er þingvilji, að ríkisstj. gefi innflutning byggingarefnis frjálsan hið fyrsta, þá leikur mér grunur á, að vilji ríkisstj. sé allur annar. Það er rétt, að það hefur sézt hilla undir, að eitthvað yrði gefið frjálst, en það gengur mjög hægt. Hvað hugsar hæstv. ríkisstj. nú? Eftir þeim upplýsingum, sem hún hefur gefið á fundum útgerðarmanna, hugsar hún sér alls ekki að gefa byggingarefni frjálst; byggingarefni á að vera eitt af því, sem eftir sem áður heyrir undir fjárhagsráð. Fjárhagsráð á eftir sem áður að geta hindrað menn í að byggja og minnka atvinnu þeirra, sem við byggingar vinna. Ég held, að engin fróm ósk eða samþykkt þáltill. frá okkar hálfu fái ráðið við þann vilja hæstv. ríkisstj. og fjárhagsráðs. Ég er hræddur um, að ekkert nema lagaboð geti hjálpað þarna til.

Nú stendur til, að hæstv. ríkisstj. gefi þm. upplýsingar um, hvernig hún hugsar sér að haga þessum málum í sambandi við útgerðina, hvaða vörur hún ætlar að gefa útvegsmönnum, hvaða vörur hún ætlar að gefa frjálsar og hvað á eftir sem áður að heyra undir fjárhagsráð. Við fáum sennilega slíka skýrslu í næstu viku, og ég held, að við ættum að bíða með að afgreiða þessa þáltill. þangað til sú skýrsla kemur. Ef svo færi, að ríkisstj. tekur ekki byggingarefni með þeim vörum, sem hún ætlar að gefa frjálsar, þá held ég, að ekki væri vanþörf á, að Alþ. samþ. brtt. við þessa þáltill.

Svo er eitt atriði í sambandi við þessa till., ef hún skyldi verða samþ. eins og hún er orðuð. Ég lýsti því strax yfir við fyrri umr. þessa máls, að ég væri hræddur við afnám skömmtunar á byggingarvörum, ef innflutningur byggingarefnis yrði ekki gefinn algerlega frjáls, því að það mundi þýða, að þeir aðilar, sem fjárhagsráð veitti innflutningsleyfi fyrir byggingarefni, yrðu þar með skömmtunaryfirvöld. M. ö. o., ef t. d. 2 félögum er sagt að skipta á milli sín öllum byggingarvöruinnflutningi til landsins, þá gæti farið svo, að það færi bara í skrifstofur þessara félaga og yrði að sækja um það þangað. Og við, sem þekkjum, hvernig áður var að eiga við þessi firmu, mundum ekki kjósa frekar einokun þeirra, hvort sem þau hétu Samband íslenzkra samvinnufélaga, Völundur eða eitthvað annað, en núverandi einokun fjárhagsráðs. Ég held þess vegna, að við viljum fá nánari upplýsingar frá hæstv. ríkisstj. og fjárhagsráði um, hvernig á að ráðstafa innflutningnum á þessum vörum til landsins. Ég held, að þeim hv. þm., sem með þessari till. vilja hjálpa fólki úti um land, mundi bregða í brún, ef allur innflutningur á þessum vörum ætti allt í einu að ganga gegnum heildsöluskrifstofur í Reykjavík. Ef marka má blaðafyrirsagnir um fyrirhugaðar ráðstafanir hæstv. ríkisstj., megum við búast við flestu í sambandi við innflutninginn. Ég gæti t. d. búizt við, að allur byggingarefnisinnflutningur yrði veittur Coca-Cola-verksmiðjunni. Það væri alls ekki fjær lagi en að láta allar bækur, sem Íslendingar ætla að kaupa erlendis frá, verða einkaréttindi útgerðarmanna, eins og fyrirhugað er af ríkisstj. þessarar frægustu bókaþjóðar heimsins. Nú á að banna öllum öðrum en útgerðarmönnum að flytja inn bækur! Það væri í samræmi við slíkar ráðstafanir að fela Coca-cola allan innflutning á byggingarefni. Mér finnst a. m. k., að meðan við eigum slíkar ráðstafanir yfir höfði okkar af hálfu hæstv. ríkisstj., þá sé betra að fá upplýst, hvað í raun og veru á að gera.

Ég vil svo að síðustu segja, að ef frv. það, sem liggur fyrir Ed., fæst ekki samþ. og þessi þáltill. verður samþ. óbreytt, þá sé ég ekki annað en að við Íslendingar verðum að fara að þeim ráðum, sem hæstv. dómsmrh. benti á nýlega. Forfeður vorir höfðu það svo, þegar einokun Dana var sem verst, að þeir verzluðu í banni þeirra við þær duggur Flandrara eða annarra, sem voru á veiðum fyrir utan. Hæstv. dómsmrh. benti á, að ef við brytum reglugerðir nógu oft og nógu lengi, þá væri allt í lagi. Ég sé ekki betur, ef þessi lög eiga að gilda og það á að banna mönnum að byggja yfir sig og það á að banna þeim að vinna, en þá sé ekkert fyrir Íslendinga að gera annað en brjóta þessi lög og bönn fjárhagsráðs, brjóta þau nógu oft, nógu lengi og nógu víða til þess að það öðlist þá hefð, að á það verði litið sem sjálfsagðan hlut, eins og hæstv. dómsmrh. lýsti yfir í sambandi við umræður um vínveitingaleyfi nú nýlega. Enda verður að telja, að þeir menn, sem slíkt gerðu, væru að breyta í samræmi við anda laganna um fjárhagsráð, laganna, sem fyrirskipa, að hver einasti Íslendingur hafi næga og örugga atvinnu, og áttu að koma í veg fyrir húsnæðisskort. Þetta stendur í lögunum um fjárhagsráð enn þann dag í dag. Þau voru sett á þeim tíma, er sjálfsagt þótti að nota allt vinnuafl þjóðarinnar til að byggja upp landið, en ekki þótti sjálfsagt að banna Íslendingum að vinna og byggja upp sitt land eftir fyrirskipunum erlendra yfirboðara. Ég held einnig, að slíkt lagabrot mundi mæta almennum skilningi, einnig þeirra manna, sem skarpast gagnrýndu hæstv. dómsmrh. núna nýlega.

Ég hef tekið eftir því, að hv. þm. V-Húnv. hefur skrifað a. m. k. 1 eða 2 greinar í Tímann til að hæla byggingarframkvæmdum í Vestmannaeyjum, sem ég býst við, að eigi rót sína að rekja til þess, að Vestmannaeyjar hafi ekki sýnt banni fjárhagsráðs um að mega bjarga sér nema hæfilega virðingu og byggt, hvað sem rentukammerið í Reykjavík sagði, brotið lög og reglugerðir, án þess að fjárhagsráð hafi þorað að mæla þar á móti, því hafi þótt vafasamt að höfða mál út af slíku. Mér sýnist þess vegna, ef þingviljinn á ekki að fá að gilda og við eigum ekki að fá að semja og samþykkja þau lög, sem þingvilji er fyrir, um að gefa löndum okkar frelsi til að byggja yfir sig, ef við eigum að láta okkur nægja fróma ósk, sem svo verður fótum troðin af hæstv. ríkisstj. og fjárhagsráði, þá sýnist mér, að verið sé beinlínis að benda mönnum á að brjóta lög til þess að fara eftir anda laganna (!), þ. e. að byggja upp, útrýma húsnæðisskortinum og tryggja öllum atvinnu.

Ég vildi aðeins segja þetta við meðferð þessa máls, því að ég man varla eftir, að það hafi verið eins almennt samkomulag á Alþingi og um þetta mál, eins eindregnum vilja og samúð og fram kom í ræðu hv. þm. Vestm. Mér finnst því mjög hart, ef við eigum ekki, fyrir ofríki annars staðar frá, að fá að samþ. þau lagafyrirmæli, sem við kjósum helzt, ef við eigum að láta okkur nægja bænarskrá, sem við vitum fyrir fram, að verður fótum troðin.

Ég vil því mælast til þess, án þess að ég vilji á nokkurn hátt stofna samþykkt þessarar þáltill. í hættu, að þess yrði freistað að sjá, hvort frv. í Ed. verður stöðvað, og beðið verði eftir skýrslu hæstv. ríkisstj. um, hvort byggingarefni verður gefið frjálst eða ekki.