09.02.1951
Sameinað þing: 40. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í D-deild Alþingistíðinda. (3926)

92. mál, skömmtun á byggingarvörum

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Það mun vera tilgangur með flutningi þessarar þáltill., sem hér liggur fyrir, að gera þeim mönnum auðveldara um framkvæmdir, sem þurfa að byggja íbúðarhús til eigin afnota, íbúðarhús, sem ekki fara yfir ákveðna stærð, og sömuleiðis þeim, er þurfa að koma upp útihúsum í sveitum og verbúðum. Flm. till. vilja gera þeim auðveldara um vik með því að veita þeim frelsi til þess að koma upp þessum byggingum án þess að leita til þess leyfis hjá fjárhagsráði. Þessi virðist mér ótvírætt vera tilgangurinn með flutningi þessarar þáltill. Og eins og áður hefur verið bent á af hv. frsm. og formanni allshn., þá var upphaflega gert ráð fyrir því, þegar l. um fjárhagsráð voru sett, að slíkar minni háttar framkvæmdir væru leyfðar án þess að leyfi fjárhagsráðs þyrfti að koma til. Má því segja, að þetta sé í raun og veru í ósamræmi við tilgang löggjafans í öndverðu, þegar l. voru sett, þó að framkvæmdin hafi orðið nokkuð önnur.

Ég hef flutt hér brtt. á þskj. 648 um nýja málsgr. til viðbótar þeirri, sem er í upphaflegu till. á þskj. 157, og er till. mín um það, að auðvelda enn frekar þeim mönnum framkvæmdir með því að fela hæstv. ríkisstj. að láta framkvæma þannig veitingu gjaldeyris- og innflutningsleyfa fyrir byggingarvörum, meðan innflutningur á þeim er háður leyfisveitingum, að þeir, sem byggja hús, er um getur í 1. málsgr., hafi forgangsrétt að gjaldeyris- og innflutningsleyfum fyrir timbri, sementi, steypustyrktarjárni, þakefni og rúðugleri, sem til bygginganna þarf. Það liggur hér að vísu fyrir till. á öðru þskj. frá hv. 2. þm. Reykv. um það, að nú þegar skuli gefinn frjáls innflutningur á byggingarvörum. En hv. allshn. hefur ekki séð sér fært að fallast á þá till. En ég tel, að með minni till. sé um skref í áttina þar á milli að ræða, sem gæti komið mönnum að notum, meðan ekki þykir fært að sleppa öllum þeim hömlum, sem nú eru á innflutningi á byggingarvörum. Þess er að vænta, áður en langt um líður, að afskipti þess opinbera af þeim innflutningi og öðrum verði lokið. En það þykir tæpast fært að slá því föstu nú í augnablikinu, að þessi innflutningur verði gefinn frjáls, heldur mun það mál þurfa nánari athugunar við. Það er alveg rétt, sem haldið er fram í grg. þessarar till. og einnig kom fram hjá frsm. n. og hins vegar flm. þáltill., að það hefur valdið mönnum erfiðleikum að þurfa að sækja um leyfi til fjárhagsráðs fyrir öllum slíkum framkvæmdum, þótt litlar væru. En mín reynsla af þessum málum og margra annarra, sem ég hef talað við um þetta, er sú, að jafnvel þó að leyfi fjárhagsráðs fáist til framkvæmdanna, þá sé ekki sopið kálið, því það hefur oft verið miklum erfiðleikum bundið að fá nauðsynlegt efni til framkvæmdanna. Og á þetta sérstaklega við um menn í öðrum landshlutum. Ég býst við, að það séu miklu minni erfiðleikar í þessum efnum fyrir þá, sem eru að byggja í Reykjavík eða næsta nágrenni, vegna þess, að mikill meiri hl. af því byggingarefni, sem til landsins kemur, fer í gegnum verzlanir hér í höfuðborginni, og þar af leiðandi er það betri aðstaða fyrir þá, sem þar eru búsettir, ef þeir hafa sín leyfi í höndunum, heldur en fyrir marga þá, sem fjær búa. Ég þekki dæmi til þess, að menn hafa verið með slíkar smáframkvæmdir, eins og t. d. að byggja íbúðarhús eða útihús, t. d. á Norðurlandi, og þeir hafa orðið að vera með þessar byggingar hálfgerðar tímunum saman vegna þess, að þeim hefur ekki tekizt að fá þakefni eða gler, svo fátt eitt sé nefnt af því, sem nauðsynlegt er til þess að koma húsi á það stig, sem fokhelt kallast. En verði mín till. samþ., sem ég geri mér vonir um, vegna þess að form. allshn. tók vel í hana, þá verður betur séð fyrir því, að menn, sem ráðizt hafa í byggingarframkvæmdir, fái efni til þeirra. Og það er vitað mál, að menn, sem. hafa slík leyfi í höndum, fá út á þau byggingarvörur eins og leyfin segja til um, á kostnaðarminni og auðveldari hátt.

Í þessum umr. hefur verið minnzt á frv. það, sem gengið hefur gegnum Nd. og er nú í Ed. og er um breyt. á lögum um fjárhagsráð að því er snertir byggingarframkvæmdir. Einkum er það, hv. 2. þm. Reykv., sem gert hefur frv. þetta að umtalsefni.

Ég gerði tilraun, er málið var rætt hér í Nd., til þess að fá á frv. breyt. í þá átt að takmarka leyfisveitingar við þær byggingar, þar sem menn byggja íbúðir til eigin nota og annaðhvort eiga ekki hús eða búa í óviðunandi húsnæði, þannig að þessir aðilar hafi forgangsrétt að byggingarefninu; en sú till. var felld í Nd.

Ég óttaðist, að ef frv. yrði afgr. eins og það lá hér fyrir, mundu þessir menn verða útundan, er að því kæmi að skipta því efni, sem til landsins yrði flutt, og einnig mundi það verða mögulegt fyrir einstaka aðila, sem ráða yfir fé til framkvæmda á byggingum, að taka svo mikið af því efni, sem inn er flutt, að þeir gætu byggt hús til þess að hagnast á þeim með því að selja þau eða leigja. Ég álít hins vegar, að þeir eigi að sitja fyrir um byggingarefni, sem brjótast í það að koma sér upp íbúðum til eigin afnota, og mér finnst stefnt að þessu í þessari till. og get ég því betur fellt mig við hana en frumvarpið.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þessa brtt. mína, því að í henni er ekkert það svo torskilið, að það þarfnist frekari skýringa, en ég vænti þess, að henni verði vel tekið.