09.02.1951
Sameinað þing: 40. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 88 í D-deild Alþingistíðinda. (3929)

92. mál, skömmtun á byggingarvörum

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Það er ekkert að undra, þó að verzlunarmálin séu rædd hér, og ég tel það vel, að þau séu rædd frá ýmsum hliðum.

Hv. 3. landsk. sagði, að sér kæmi það spánskt fyrir sjónir, að ein voldugasta stofnun landsins, fjárhagsráð, væri á annarri skoðun en stuðningsmenn hæstv. ríkisstj. Hefur þessi þm. ekki setið á þingi undanfarin ár, meðan þáverandi viðskmrh., þm. Hafnf., lýsti því yfir, að hann bókstaflega réði ekkert við þessa stofnun? Hann klagaði stofnunina hvað eftir annað. Og ég man ekki betur en að 3 af þáv. ráðherrum lýstu því yfir, að þeir réðu ekkert við stofnunina. Þeir þar í fjárhagsráði gætu ráðið því, sem þeim sýndist, og ég minnist þess, að hv. þm. Hafnf. lýsti þessu yfir hvað eftir annað. Og þá er ekki nema von, að hv. 3. landsk. sé hissa á því núna, að þessi stofnun sé á annarri skoðun en stuðningsmenn ríkisstj. Ég hélt ekki, að þessi ágæti hagfræðingur áliti, að munurinn á þessu ráði væri orðinn svona mikill.

Hins vegar hefur ekki verið að því fundið, þó að þessi till. sé fram komin, og sé litið í grg., sem fylgir henni, þá sést, hver meginástæðan er fyrir því, að hún er fram komin, og hana viðurkenndi hv. 3. landsk. Þessu ráði var þegar í upphafi gefið mjög mikið vald í þessum efnum, og þetta vald hefur það notað svo til skefjalaust. Og nú er svo komið, að þjóðin vill ekki lengur sætta sig við þetta, að þetta ráð beiti valdi sínu svo ótakmarkað. Þetta er engin ásökun á fjárhagsráð í sjálfu sér, þetta er bara sönn mynd af ástandinu. Ég man nefnilega ekki betur en það væri fyrsta spor fjárhagsráðs að stöðva allar byggingar í þessum bæ og skammta efni, svo að það þóttu beztu tekjur fyrir iðnaðarmenn að sitja tvo, þrjá daga á tröppum þess til að herja út leyfi fyrir sementspoka eða plankabút til að geta haldið áfram. Svona var það um það atriði, sem fjárhagsráð átti þó sem minnst að skipta sér af. Ég held, að þetta fyrsta skref fjárhagsráðs hafi verið tekið, áður en athugað væri, hvort nauðsyn væri að byrja á þessu. Og ég veit ekki betur en einn af æðstu prestum nýbyggingarráðs, Sigurðar Þórðarson, hafi átt sinn þátt í fyrstu göngu þessarar voldugu stofnunar.

Hv. þm. Ísaf. sagði, að fjárhagsráð hefði bjargað mörgum frá því að verða gjaldþrota. Þetta getur verið, og skal ég ekki reyna að reikna það út, hvað mörgum það hefur bjargað. En ég vil aðeins segja það, að á móti voru lagðar þungar byrðar á ýmsa aðra. Og ég vil minna hv. þm. Ísaf. á, að það var ekki fjárhagsráði að þakka, að þeir menn urðu ekki gjaldþrota. Á þessum tíma var smámunaskapurinn svo mikill, að víða, þar sem búið var að slá upp steypumótum og allt var til reiðu, nema það vantaði sement fyrir 4–5 þús. kr., neitaði fjárhagsráð um þetta sement, svo að eigendur bygginganna máttu láta mótin standa allan næsta vetur og stórskemmast. Þar töpuðust fleiri tugir þúsunda, margfalt á við það, sem sementið hefði kostað. Já, þau voru sannarlega nokkuð dýr þessi bjargráð fjárhagsráðs. Og þetta er sannarlega ekki eina dæmið í þessum málum.

Sannleikurinn er sá, að fjárhagsráð fór þegar í upphafi inn á þau svið, sem því var aldrei ætlað að fara inn á, og miklu lengra en ákvæði laganna ákváðu. Þetta ráð átti að hafa stærra sjónarsvið, því var aldrei ætlað að sjá til, hvort Pétur eða Páll mættu fá sementspoka eða plankabút. Og það var mest fyrir þann þátt, sem fjárhagsráð varð óvinsælt. Einnig er mér vel kunnugt um það, að margir hafa gert það að atvinnu sinni að herja út fjárfestingarleyfi til að byggja og selt þau síðan öðrum. Er æskilegt að halda því fyrirkomulagi í landinu? Og einmitt skömmtunin, það að menn fá miklu minna en þeir biðja um, er ástæðan til, þess, hvað margar og stórar pantanir berast. Telja menn æskilegt að halda því kerfi í landinu? Það er þetta, sem gert hefur þessi mál óeðlileg, og þess vegna reyna menn að komast fram hjá lögunum. Það er ekki þannig, að þjóðin þoli ekki að flytja inn byggingarefni til uppbyggingar, heldur er það svo, að menn panta miklu meira en þeir hafa nokkra von um að geta notað, af því að þeir fá aldrei alla pöntun sína vegna skömmtunarinnar.

Það þarf enginn að kenna ríkisstjórninni sérstaklega um þetta kerfi, það eru sterkir aðilar í landinu, sem eiga hagsmuna að gæta að halda því. Það eru sterk öfl, S. Í. S. annars vegar og heildsalarnir hins vegar, sem vilja allt til vinna að halda þessu kerfi, af því að þau óttast hvort annað, þess vegna hefur þessi stofnun lifað svo lengi, og þess vegna verður erfitt að fá þetta kerfi afnumið. Og það er engin árás á fjárhagsráð, þó að þess sé krafizt, að þetta kerfi sé afnumið. Þess vegna er nauðsynlegt, að þessi till. verði samþ., þó ekki væri til annars en klippa á einn þann hlekk, sem haldið hefur verzlun landsmanna í járngreipum undanfarið.

Hv. 3. landsk. þm. sagði, að með þessu væri verið að flytja skömmtunina yfir á aðra aðila. Hefur þessi hv. þm. alveg gleymt því, að það var lifað í þessu landi og flutt inn löngu áður en fjárhagsráð varð til? Hvað heldur hann þá, að yrði, ef fjárhagsráð nú allt í einu dæi? Heldur hann, að það gæti orðið öllu meira ósamræmi og öngþveiti en verið hefur undanfarin ár? Ég fyrir mitt leyti efast mjög um það. Ég held, að S. Í. S. og heildsalarnir mundu reyna að flytja inn vörur með sem hagkvæmustu verði, og ég efast ekki um, að kaupfélögin úti um land mundu halda áfram að panta þessar vörur eftir þörfum viðskiptavina sinna, og ég býst við, að þeim sé alveg eins treystandi til að fara nærri um þarfir þeirra og einhverjum ráðsmönnum hér í Reykjavík.

Hv. þm. sagði, að fjárhagsráð hefði verið of svifaseint. Það er ekki fjárhagsráð eitt, sem er of svifaseint. Kerfið allt er svo svifaseint, að menn tapa tugum þúsunda á því einu að bíða, það má segja, að aldrei sé hægt að vita með vissu, hvað sé já og hvað sé nei. Undir slíku kerfi er ekki hægt að halda uppi neinni þróun í landinu. Þetta er ásökun á kerfið, en ekki þá menn, sem eftir því starfa. — Hv. 3. landsk. sagði, að með þessu væri verið að hlaða undir glæframennsku. Má ég spyrja, — er það verra en sú glæframennska, sem nú ríkir við útvegun leyfa hjá fjárhagsráði? Ætli það geti orðið öllu verra?

Hv. þm. sagði, að menn væru stöðugt að kalla á frjálsa verzlun, og hann taldi það mestu ógæfu. Já, mikil er trú þín, kona, eftir alla þá reynslu, sem fengin er af höftum bæði hjá okkur sjálfum og hjá öðrum þjóðum. Sannleikurinn er sá, að ábyrgðin er sett á ábyrgðarlausa menn, sem svo eiga að úthluta leyfum. — Aðalatriðið er að hafa nóga þolinmæði til að sitja á tröppunum hjá fjárhagsráði, og það er orðið aðalstarf íslenzkrar verzlunarstéttar að sitja og bíða eftir leyfum fyrir þeim vörum, sem líklegastar eru til að gefa mestan gróða.

Ég gæti rætt þetta mál miklu lengur, en vil ekki þreyta hæstv. forseta með því. Hins vegar vil ég benda á, að ef þetta kerfi hefði ekki verið hér undanfarin ár, væri landið miklu betur birgt af vörum en það er í dag, og sá háski væri ekki fyrir dyrum, sem nú er af þessum sökum, eins og hv. þm. Ísaf. hefur lýst og þeir menn bera ábyrgðina á, sem hafa haldið þessu kerfi í landinu.