14.02.1951
Sameinað þing: 42. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 98 í D-deild Alþingistíðinda. (3932)

92. mál, skömmtun á byggingarvörum

Landbrh. (Hermann Jónasson) :

Herra forseti. Hæstv. viðskmrh., sem hér hefði átt að standa fyrir þessu máli, er fjarverandi, og bað hæstv. forsrh. mig að segja hér nokkur orð til skýringar.

Það hefur verið kvartað um, að það stæði á svörum af hálfu ríkisstj. í þessu máli. En út frá upplýsingum, sem fulltrúar verkalýðsfélaganna hafa gefið, þá get ég ekki séð þann baga, sem af því á að stafa. En drátturinn stafar af því, að ekki hafa verið tilbúnar skýrslur fjárhagsráðs, sem nauðsynlegt var að hafa í höndum, og er þeim nú fyrst nýlega lokið. En samkvæmt þeim er sú fjárfesting, sem leyfð hefur verið, ekkert smáræði, eða á sjötta hundrað millj. kr., — nánar til tekið 520 millj. kr., sem leyfðar hafa verið til framkvæmda ríkis, bæja og einstaklinga á fyrra ári. Nákvæmar skýrslur voru fyrst lagðar fyrir ríkisstj. til athugunar fyrir 2 dögum, og í sambandi við þá skýrslu — og með tilliti til fjárfestingaráætlana og stefnunnar viðvíkjandi bátaútveginum og innflutningsverzluninni — verður svo tekin ákvörðun um það, hvort fært þykir að gefa íbúðarhúsabyggingarnar frjálsar. Og á þeirri ákvörðun verður ekki dráttur, þegar þeirri athugun er lokið. En það, sem kom annars í ljós í umræðum við fulltrúa verkalýðsfélaganna, var það, að það hefur ekki fyrst og fremst staðið á leyfum fjárhagsráðs, heldur hafa byggingar stöðvazt vegna hins óvenju óhagstæða tíðarfars um land allt, sem hamlar framkvæmdum. Það hefur ekki staðið almennt á efni, enda þótt í sumum tilfellum hafi verið fundið að því, að það fengist of seint, heldur hefur tíðarfarið lengi verið þannig, að ógerningur er að fást við byggingarframkvæmdir. (EOl: En af hverju veitti fjárhagsráð ekki leyfin í vor?) Það er alltaf takmarkaður fjöldi, sem getur unnið við byggingarvinnu innan húss. En undanfarin ár hefur alltaf verið hægt að vinna meira og minna að byggingarvinnu úti við einnig. Og þetta var eftir upplýsingum, sem gefnar voru af manni úr fulltrúaráði, og ég veit, að hv. 2. þm. Reykv. mun taka fullt mark á. Svona eru nú hlutirnir. Það skortir hvorki efni né innflutningsleyfi, en það er bara ekki hægt að vinna vegna tíðarfarsins, sem hefur verið mjög slæmt í vetur, og um leið og úr rætist með það, mun ekki standa á framkvæmdunum. Og þetta hefur komið fyrir áður á Íslandi, að tíðarfarið hefur verið svo illt, að ekki hefur verið hægt að sjá öllum fyrir vinnu yfir veturinn. Það má máske segja, að það hefði átt að úthluta leyfunum fyrr. Það má alltaf segja slíkt eftir á, og skal ég ekki ræða um það. En hitt er ljóst, að eins og sakir standa er ekki hægt að ásaka fjárhagsráð fyrir það, að það hafi ekki veitt nóg leyfi eða hindrað efnisútvegun. — Viðvíkjandi atvinnuleysinu, sem stafar af stöðvuninni í iðnaðinum, þá er aðalorsök þess ekki sú, að það standi á leyfum fyrir hráefninu, heldur er það hitt, að þau fást bókstaflega ekki erlendis. Það er t. d. svo með eina iðnaðarstofnun hér í Reykjavík, að hún er búin að fá leyfi fyrir lifandi löngu, en það hefur bara staðið á því, að hún fengi efnið úti. Og viðskmrh. hefur haft fulltrúa við þá stofnun í París, sem vinnur að því að skipta hráefninu á milli þjóðanna. Svo að mínu viti er ekki hægt að vinna að þessum málum öllu betur. M. a. er það svo nú, að það stendur í samningum um það, hvort við getum fengið það stál og það járn, sem við þörfnumst, því að við viljum reyna að tryggja okkur það í tíma, auk þess sem við reynum að fá það sem mest óunnið, svo að það skapist atvinna í landinn við að vinna það hér heima. Þannig er atvinnuleysið í iðnaðinum meira af þessum ástæðum en af því, að leyfin vanti.

Viðvíkjandi því, sem heyrzt hefur, að það beri að nota mótvirðissjóð til byggingarframkvæmda, þá getur það ekki verið dulið neinum, að hann er ekki hægt að nota nú til þessa, þar sem á að verja honum til virkjananna við Sogið og Laxá í þessari umferð. Það verður ekki fyrr en þau lán hafa verið borguð inn í sjóðinn aftur, að hann getur komið að notum í þessu skyni. Um það, hvað verður getið frjálst af byggingarvörum, get ég ekki sagt neitt ákveðið á þessu stigi, enda hefur það ekki verið ákveðið af ríkisstj. En till. um þetta atriði munu koma alveg á næstunni, og með tilliti til þess, sem ég sagði áðan, að það er hvorki skortur á efni né leyfum, sem stöðvar framkvæmdirnar nú, þá get ég ekki séð, að töf á þeirri ákvörðun skipti miklu máli.

Viðkomandi þeim umr., sem hér hafa farið fram í sambandi við erlendu lánin, þá er ég satt að segja undrandi yfir því, að maður skuli þurfa að sitja undir umr. að slíku tagi. Við hefjum ekki framkvæmdir fyrir svo að segja falsaða seðla. Við getum hvorki keypt sement né timbur fyrir þá, og ég hélt, að svona umræður ættu sér ekki stað. Það er mjög takmarkað, sem má gefa út af seðlum. M. a. er heimilt að gefa út seðla fyrir 15 millj., sem skulu vera gjaldkræfir í erlendri mynt á 6 mánuðum. Og þá á að vera hægt að kaupa fyrir þá hvað sem er! Það er dæmalaust, að það skuli þurfa að ræða hluti sem þessa. Það er því miður svo, að það er ekki nóg að gefa út pappír, og þegar ekkert er á bak við seðlana, eru þeir ekkert nema pappír. Nú eru íslenzkir seðlar ekki seljanlegir erlendis á „pari“, en það voru þeir fyrir nokkru síðan, eða á fyrstu árunum eftir stríðið, af því að þeir voru þá heilbrigðir íslenzkir peningar og ávísun á það, sem þeir vísuðu til. Það er því afar undarlegt, er hv. 2. þm. Reykv. heldur því fram, að það sé bara nóg, að seðladeild Landsbankans gefi út seðla, og síðan megi kaupa fyrir þá sement og timbur og hvað sem er. Ég hef engan heyrt halda slíkri fjármálapólitík fram í alvöru fyrr, utan einn frægan málara hér á landi. Hv. 2. þm. Reykv. segir enn fremur, að ekki megi taka erlent lán, nema kaupa fyrir það framleiðslutæki. Hvað er verið að gera annað með þetta lán, sem hér um ræðir? Eiga að gilda einhverjar aðrar reglur fyrir t. d. togarana en önnur framleiðslutæki? En það má ómögulega taka erlent lán til byggingar á peningshúsum og heygeymslum, þótt vitað sé, að sú eina vara, sem selst áreiðanlega erlendis í svipinn, er sauðfjárafurðir, og það fyrir hærra verð en fæst fyrir hana á innlendum markaði að viðbættri uppbót. Nei, það má ekki kaupa efni og láta síðan íslenzkar hendur vinna úr þeim, en það má kaupa fullsmíðaða togara. Það er annars undarlegur hugsunarháttur hjá mörgum hér gagnvart landbúnaðinum, og undarlegir spádómar um það, að ríkisstj. vinni þjóðinni tjón með dekri sínu við hann. Ég held, að menn vinni þjóðinni einmitt tjón með því að tala þannig um íslenzka landbúnaðinn, sem er sá atvinnuvegur, sem brauðfæðir þjóðina, og afkoma hennar mun alltaf standa í beinu hlutfalli við gengi hans. Á honum hefur þjóðin lifað til þessa dags. Og ég get ekki fundið annað en það sé tap fyrir þjóðina að vera sífellt að bera saman þessa tvo aðalatvinnuvegi okkar, sjávarútveginn og landbúnaðinn, og gera upp á milli þeirra. Þessi hugsunarháttur gægist hér alltaf fram, þegar rætt er um að kaupa vörur fyrir landbúnaðinn. Ég get ekki séð, að ríkisstj. eða viðskmrh. hafi vanrækt neitt í þessu efni. Og mér er óhætt að fullyrða, að nú sé verið að undirbúa fullkomna skýrslu um fyrirhugaða fjárfestingu, og stuðzt þar við þau leyfi, sem veitt hafa verið, auk þess fjárlög og fjárhagsáætlun Reykjavíkur, og síðan verði í samræmi við þá skýrslu tekin ákvörðun um það, að hve miklu leyti hægt verður að gefa verzlunina frjálsa án þess að hætta stafi af. Og það mun vera hægt, ef við höfum erlendan gjaldeyri, að veita verzlunarfrelsi, sem er meira en nafnið tómt. Því að menn verða að gæta að því, að það kemur engum að gagni að veita frelsi, sem ekki er annað en nafnið tómt. Það er gagnslaust að gefa mönnum frelsi til byggingar íbúðarhúsa, ef svo þeir, sem meira mega sín, hrifsa til sín allar þær byggingarvörur, sem til eru í landinu. Þetta þarf að haldast í hendur, frelsið og möguleikar manna til að njóta þess. Það þarf að standa eitthvað á bak við það.

Ég skal svo ekki orðlengja meir um þetta. Sá ráðh., sem með þessi mál fer, hefði sjálfsagt getað gefið nánari upplýsingar um þessi mál, ef hann hefði getað verið hér viðstaddur. En það, sem ég hef nú dregið fram, eru höfuðatriði málsins.