14.02.1951
Sameinað þing: 42. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 105 í D-deild Alþingistíðinda. (3936)

92. mál, skömmtun á byggingarvörum

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Þegar þetta mál var til umr. síðast fyrir nokkrum dögum, þá vakti ég athygli á því, að það væri tvennt í sambandi við þessar umr., sem mér kæmi undarlega fyrir sjónir. Hið fyrra var, að um svo mikilvægt mál eins og hér er óneitanlega um að ræða virtust vera skiptar skoðanir milli stuðningsmanna stjórnarinnar í allshn. annars vegar og fjárhagsráðs hins vegar. Fjárhagsráð og meiri hl. allshn. sameinaðs þings virðast hafa gerólíkar skoðanir á því, hvort afnema eigi skömmtun á byggingarvörum og gefa frjálsa byggingu á vissum tegundum af íbúðarhúsum. Það er undarlegt, að djúptækur ágreiningur skuli vera milli þessara aðila í jafnmikilvægu máli, og enn undarlegra með hliðsjón af því, að ríkisstj. lét sig málið engu skipta og var ekki einu sinni viðstödd klukkustundalangar umr. um það, svo að enginn vissi, hvort hún fylgir stuðningsmönnum sínum í þinginu eða fjárhagsráði. Ég vakti athygli á, að í þessum umr. hefði aldrei verið drepið á það, sem hlyti að teljast kjarni þessa máls, þ. e. hvaða fyrirætlanir eru á döfinni um innflutning á byggingarefni til landsins á því ári, sem nú er að byrja. Hvorki ráðh. né aðrir ræðumenn hafa að þessu víkið í þeim 4–5 ræðum, sem fluttar hafa verið síðan málið var síðast á dagskrá. En það ætti ekki að þurfa að skýra, að hvort skynsamlegt er að afnema skömmtun á byggingarefni hlýtur að vera komið undir því, hvort skilyrði eru fyrir hendi til að auka innflutninginn. Ef það er ekki ætlunin, ef innflutningur á byggingarefni á að vera sami á þessu ári og undanfarin ár og opinber skömmtun er afnumin, þá getur hvert mannsbarn skilið, að skömmtunin flyzt úr hendi hins opinbera yfir á hendur byggingarvöruinnflytjendanna. Þess vegna finnst mér nauðsynlegt, að það sé upplýst, hvaða fyrirætlanir hér eru á döfinni, og þess vegna hef einnig ég borið fram spurningar um þetta, án þess þó að fá þeim svarað af hæstv. ríkisstj. eða hv. frsm. allshn. — Ég gat þess í ræðu minni um daginn, að mér hefði borizt til eyrna, að í drögum að innflutningsáætlun fjárhagsráðs væri ekki gert ráð fyrir meiri innflutningi á byggingarefni á þessu ári heldur en í fyrra. Þessum upplýsingum mínum hefur ekki verið andmælt, og tek ég það svo, að þær séu réttar, en þá getur hver maður skilið, hvað hér er á ferðinni. Eftir sem áður verður framboð á byggingarvörum minna en eftirspurnin og eftir sem áður mætir einhver afgangi, og verður að takmarka eftirspurnina með skömmtun. Ef þessi till. verður samþ., þá verður það byggingarvörukaupmaðurinn, sem skammtar, í stað fjárhagsráðs. Það er nauðsynlegt að gera sér ljóst, hvað hér er um að ræða. Ég verð að segja, að mér finnst mjög undarlegt, að ræðumenn skuli hver um annan þveran leyfa sér að leiða þetta meginatriði málsins algerlega hjá sér. Það getur ekki verið, að jafngreindir menn og hér er um að ræða hafi ekki áttað sig á því, að hér er mergurinn málsins. Það var hæstv. landbrh. einn, sem vék nokkuð að þessu. Hann upplýsti, að fyrirhugaðar framkvæmdir ríkis, bæjarfélaga og leyfisveitingar fjárhagsráðs næmu 520 milljónum króna. Mér er til efs, að sá byggingarvöruinnflutningur, sem gert er ráð fyrir í innflutningsáætluninni, muni duga til þess að standa undir þessum 520 millj. króna framkvæmdum. Eftir þeim upplýsingum, sem fyrir liggja, virðist þurfa að takmarka þessar framkvæmdir mjög. Hvað á þá að þýða að ætlast til þess, að tekið sé alvarlega hér á Alþ., þegar talað er um að gefa verulegan hluta af byggingarframkvæmdum í landinu frjálsan og óháðan opinberum afskiptum?

Hv. þm. Vestm. beindi til mín þeirri fyrirspurn, hvort ég teldi byggingarnar á Melunum til orðnar fyrir brask. Mér er ekki ljóst, í hvaða sambandi þetta er við það, sem ég áður sagði, en spurningunni get ég svarað neitandi. — En varðandi umr. hans almennt um fjárhagsráð vil ég segja, að ég tel tvímælalaust, að fjárhagsráð hafi á sínum tíma, þegar það var stofnað, gert ómetanlegt gagn. Hér var á þeim tíma hin mesta ringulreið í fjárfestingarmálum, og óhugsandi var önnur leið til að koma þar einhverju viti í en opinber afskipti. Þetta hélt ég að allir, sem einhverja þekkingu hafa á ástandi þessara mála á þeim tíma, gerðu sér ljóst. Jafnvægisleysið, sem var í þjóðarbúskapnum á þeim tíma, gerði opinber afskipti af fjárfestingarmálum nauðsynleg. Það játa jafnt þeir hagfræðingar, sem annars eru andvígir öllum höftum, eins og hinir, sem telja opinber afskipti geta orðið til gagns. Mér vitanlega er þeirra á meðal enginn ágreiningur um, að á þeim tíma hafi fjárhagsráð haft mikilvægu hlutverki að gegna og gert hið mesta gagn. En hitt er annað mál, eins og ég vék að áður, að í framkvæmdum fjárhagsráðs hafa verið gallar og margir telja, að það hafi verið of smámunasamt í leyfisveitingum og einkum of seinvirkt.

En svo að ég víki að síðustu aftur að meginatriði málsins, þá er það, að eigi að afnema hömlur, sem verið hafa undanfarið á byggingum, þá verður að skapa skilyrði fyrir því, að afnám haftanna valdi ekki ringulreið. Hömlurnar hafa ekki verið settar út í bláinn, heldur vegna þess að vissar hagrænar ástæður hafa verið fyrir hendi. Skilyrðin, sem auðvitað þurfa að vera fyrir hendi til að vit sé í að afnema hömlur á byggingum, eru tvenns konar: að nægilegur erlendur gjaldeyrir sé fyrir hendi til að fullnægja frjálsri eftirspurn eftir byggingarefni, og hins vegar nægilegt laust vinnuafl innanlands til þess að fullnægja frjálsri eftirspurn eftir því. Ef þessi skilyrði eru ekki fyrir hendi, þá er þýðingarlaust að afnema hömlurnar, vegna þess að þá skapast ringulreið, og þá er ýtt undir brask og bellibrögð í viðskiptum. Ég geri ráð fyrir því, að á innlendu vinnuafli þyrfti ekki að standa til þess að hægt væri að koma á einhverri rýmkun, en eftir þeim upplýsingum, sem fyrir liggja frá ríkisstj., þá er ótvírætt, að hún telur ekki erlendan gjaldeyri vera fyrir hendi til þess að hægt sé að fullnægja frjálsri eftirspurn eftir byggingarvörum. Menn verða að gera sér ljóst, að ein takmörkun leiðir aðra takmörkun af sér. Ef skortur er á gjaldeyri til kaupa á byggingarvörum, verður innflutningur þeirra að vera háður leyfisveitingum, og ef eftirspurn eftir byggingarvörum er miklu meiri en framboðið, verður að skammta þær og takmarka framkvæmdir. Ella verður afleiðingin brask og ringulreið.