26.10.1950
Sameinað þing: 9. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 117 í D-deild Alþingistíðinda. (3952)

40. mál, vélræn upptaka á þingræðum

Stefán Jóh. Stefánsson:

Herra forseti. Um leið og ég fyrir mitt leyti vil mæla með till. þeirri, sem fram er komin á þskj. 61, vildi ég með örfáum orðum gera grein fyrir þeirri brtt., sem ég flyt við þessa till. og flutti einnig á síðasta þingi, án þess að brtt. þá gæti komið til umr. — Ég tel það til mikilla bóta að athuga, hvort unnt væri að taka upp á vélrænan hátt, eins og það er orðað af hv. flm. í till. á þskj. 61, umræður á Alþingi. Hv. fyrri flm. þessarar till. lét svo um mælt í framsöguræðu sinni, að svo væri nú um Alþt., að þau væru sama sem ekkert lesin, og þegar þau kæmu seint og síðar meir út, þá grotnuðu þau niður hjá einstökum mönnum, sem sjaldnast hefðu áhuga eða tækifæri til að líta í þessar umr. Þetta kann að mörgu leyti að vera of satt, sem hv. frsm. hefur sagt um þetta atriði. En einmitt þess vegna teldi ég ástæðu til að reyna að uppörva almenning og fólkið í landinu yfirleitt til þess að fylgjast með störfum Alþ. og láta það eiga þess kost að kynna sér ræður, sem fluttar eru á Alþ,, skömmu eftir að þær eru fluttar. Þess vegna hef ég leyft mér að bera fram brtt. á þskj. 74. Nú er það að vísu svo, að hv. flm. aðaltill. hafa látið svo um mælt í grg., að þeir hafi ekki viljað taka upp þessa brtt., að mér skilst aðallega vegna þess, að þannig mundi verða feikidýrt að prenta allan umræðupartinn og óframkvæmanlegt vegna anna í prentsmiðjunum, eins og það er orðað í grg. Nú er ég í nokkrum vafa um það, hvort það mundi verða verulega dýrara að prenta umræðupartinn á þann hátt, sem lagt er til í till. minni, að semja svo við eina eða fleiri prentsmiðjur, að þær prentuðu umræðupartinn strax eftir að umræðurnar hafa átt sér stað á Alþ. Og ég fyrir mitt leyti gæti ímyndað mér, að það yrði alls ekki dýrara heldur en sú prentun, sem framkvæmd er á umræðupartinum og þingtíðindunum yfirleitt. Það er a. m. k. órannsakað mál. Hitt er aðalatriðið, sem ég minntist á áðan, að ef unnt væri að koma því þannig fyrir, að umræður væru prentaðar ekki sjaldnar en vikulega, þá hygg ég, að nokkru meiri möguleikar mundu verða til þess, að almenningur í landinu fylgdist með störfum þingsins heldur en nú er. Og það tel ég hafa mjög mikla þýðingu.

Margir menn vita það, að á þingum Engilsaxa, bæði í Bretlandi og Bandaríkjunum, er útbýtt til þeirra, sem vilja fylgjast með, umræðukaflanum frá deginum áður. Svo hafa sagt mér fulltrúar erlendra ríkja í þessum löndum, hversu ómetanlegt það væri að lesa á skrifborði sínu daginn eftir að umr. hafa farið fram í þessum þingum ræður þeirra manna, sem tekið hafa til máls á þingunum. Og þannig hafa þeir möguleika til þess að fylgjast nákvæmlega með öllu því, sem fram fer þar á þingunum. — Það er nú svo um Alþ. Íslendinga, að svo virðist sem hver sá maður, sem skýtur að því styggðaryrði, hann sé talinn sá maður, sem segi fólkinu þá réttu hluti. Ég hlustaði um daginn á þáttinn um daginn og veginn í útvarpinu, þar sem vikið var að störfum Alþ. — ekki á þann hátt, að það væri sérstaklega lofsamlegt. Ég átti daginn eftir tal við nokkra menn, sem létu í ljós þá skoðun, hvort hér væri nú einmitt ekki skýrt rétt frá um þá niðurlægingu, sem Alþingi Íslendinga væri nú komið í á seinustu tímum. Hvað sem er um virðingu Alþ. og hvað sem má segja um störf þess, þá er það áreiðanlega eitt af þýðingarmestu atriðunum í sambandi við Alþ., að fólkið í landinu, kjósendurnir, hafi tök á því að fylgjast svo nákvæmlega með því sem auðið er, hvað skeður á Alþ. Til þess að auðvelda þetta álit ég, að heppilegast væri að athuga, hvort ekki yrði framkvæmanleg sú breyt., sem ég flyt till. um sem brtt. við þessa þáltill., sem fyrir liggur. Eins og ég sagði í upphafi máls míns, teldi ég það heppilegt að gera tilraun með það að taka upp á vélrænan hátt, eins og það er orðað í till., umræður á Alþ. Og ef hnigið væri að því ráði, þá ætti að vera þess kostur að hafa umræðupartinn eða þingræðurnar tilbúnar mjög stuttu á eftir að þær eru fluttar á Alþ. Það er skilyrði fyrir því, að unnt sé að prenta þessar umr. fljótt. — Nú er það svo á allra síðustu árum, og æði mörgum, að ég ætla, að fáir eru þeir alþm., sem lesa yfir þær ræður, sem þeir flytja á Alþ. Þegar þeir seint og síðar meir kunna að glugga í þessum ræðum, þá verða þeir þess kannske varir, eins og komið hefur fyrir, að umræðupartur hefur týnzt og hvergi komið fram í Alþt. Það, sem gæti breytt því, er í fyrsta lagi að taka upp ræðurnar á vélrænan hátt, eins og gert er ráð fyrir í aðaltill. hv. flm. Í annan stað mætti vekja athygli almennings á störfum þingsins þannig, að fólkið ætti þess kost að fylgjast með, með því að umr. komi fljótt út, eftir að ræðurnar eru haldnar á þinginu. Í þessu sambandi væri mjög þýðingarmikið að prenta umræðupartinn fljótt eftir að umr. hafa átt sér stað á Alþ. — Nú vitum við, sem svolítið þekkjum til íslenzkra stjórnmála, sem, því miður, eru ekki á of háu menningarstigi, að það lítið, sem blöð flytja fréttir um umræður á Alþ., þá eru þær fréttir alloft litaðar. Flokksblað þessa þm. eða hins leggur sérstaka áherzlu á að skýra frá framsögu og öðrum ræðum þess flokksmanns eða annarra samflokksmanna í blaðinu, en minna verður þar jafnan úr því, að sagt verði frá andmælum andstæðinganna. Þeir, sem lesa eitt blað eða jafnvel tvö blöð, eiga þess lítinn kost að fá ábyggilegar upplýsingar um það, hvernig umr. hafi farið fram á Alþ. um tiltekin mál, sem þó er verið að skýra frá í blöðunum. Ef það væri svo, að umr. væru teknar upp á vélrænan hátt, svo nákvæmlega sem unnt er eftir því sem þm. hafa talað, og almenningur ætti þess kost að lesa skömmu á eftir þessar umr., þá væri girt fyrir það, að ætti sér stað — ég vil ekki segja þær blekkingar — heldur sú þögli, sem í flokksblöðunum er yfirleitt — og er ég ekki að ásaka sérstök blöð eða undanskilja blað Alþfl. hvað þetta snertir, því að flest blöðin eru undir þessa sök seld, — og þá ætti almenningur kost þess að losna við þá þögli, sem einkennir blöðin í frásögnum þeirra frá Alþ. Þeir mundu þá, sem áhuga hefðu fyrir því, hafa möguleika til þess að kynna sér sókn og vörn á Alþ. um þau mál, sem þar eru rædd. Og það teldi ég mjög mikils virði. Lýðræðið og þingræðið eru frá mínu sjónarmiði þeir dýrmætustu kostir, sem nú umfram aðrar þjóðir einkenna Vestur-Evrópu og Bandaríkin. Kostur þess, að fólkið, sem býr í löndunum, eigi möguleika á að vita, hvað sagt er á þjóðþingunum, samtímis og ræðurnar eru haldnar af fulltrúum á þessum þingum, sem kosnir hafa verið á lýðræðislegan hátt og eftir þeim skoðunum, sem hverju sinni eru ríkjandi meðal þjóðanna, og hvernig þessir menn flytja mál sitt, bæði til sóknar og varnar, — einmitt þetta er það allra þýðingarmesta fyrir lýðræðið og þingræðið í þeim of fáu löndum, þar sem það er í heiðri haft. Ég teldi því fyrir mitt leyti, að það væri bein uppörvun, bein vörn fyrir þingræðið og lýðræðið í landinu, að fólkið ætti þess kost að sjá, hvað er sagt á Alþ. Íslendinga. Íslenzkur almúgi, íslenzkt fólk, ekki hvað sízt í dreifbýlinu, þar sem fátt verður til þess að glepja, það vill gjarnan vita, hvað fram fer á Alþ., það vill gjarnan hafa möguleika til þess að leggja á vogarskálarnar afstöðu manna til þjóðmálanna og gera sér grein fyrir því, hver hafi bezt, röksamlegast og drengilegast flutt sitt mál. Þetta fólk alþýðan á Íslandi, á fyrst og fremst að eiga þess kost að geta dæmt um það, hvað fram fer á Alþingi Íslendinga, að svo miklu leyti sem það er háð fyrir opnum tjöldum. Einn þáttur í því er einmitt það, að fólkið eigi þess kost að lesa umræðurnar fljótlega eftir að þær eru um garð gengnar. Og þannig á það eftir umr. á Alþ. að sjá, á hvern hátt það á að taka afstöðu til málanna.

Ég teldi því fyrir mitt leyti, að framkvæmd þess að prenta umræðupart Alþt. ekki sjaldnar en vikulega gæti orðið hvort tveggja í senn til þess að vekja áhuga fólksins í landinu fyrir Alþ. og störfum þess og í annan stað til þess, að fólkið í landinu ætti þess meiri kost að vega og meta málflutning fulltrúa sinna hér á Alþ. Ég vildi þess vegna vænta þess, að það yrði athugað ýtarlega, hvort þess væri kostur, án mjög mikils kostnaðarauka, að prenta umræðupartinn á þann hátt, sem ég hef nú lagt til. Ég hygg fyrir mitt leyti, að það væri unnt. Hér í Reykjavík eru gefin út fjögur dagblöð; eitt, sem er stærst, er venjulega 12 til 16 síður, hin eru 8 síður. Ég hygg, að þess væri kostur að semja við prentsmiðjur, ríkisprentsmiðjuna eða prentsmiðjur aðrar, um að prenta svo umræðupart Alþt., að hann gæti komið út ekki sjaldnar en vikulega. Þær prentsmiðjur, sem þekkja til prentunar dagblaða, vita vel, að þess er mjög góður kostur að hafa með höndum slíka prentun eins og mundi verða á umræðupartinum frá Alþ. Ég er því fyrir mitt leyti í miklum vafa um það, að það sé rétt, sem segir í grg. hv. flm. fyrir þáltill., að það mundi verða feikidýrt að prenta umræðupartinn á þann hátt sem ég lagði til.

Það er áreiðanlegt mál a. m. k., — og mætti það gjarnan koma í ljós við rannsókn af hálfu forseta þingsins og ríkisstjórnar, hversu feikidýrt það væri —, að ef það væri ekki feikidýrt og ef það kannske væri ekki dýrara en núverandi prentun umræðupartsins, þá teldi ég stóra og mikla framför að því, ef unnt væri að koma á þessari breyt. Ég vildi því leyfa mér að skjóta því til hv. allshn., sem þetta mál fær til athugunar, að líta á till. mína og þau rök, sem ég hef nú með henni flutt. Og ég vildi sérstaklega vænta þess vegna góðra undirtekta þessarar hv. n. á síðasta Alþ., að hún muni líta á þetta mál þann veg, að það væri a. m. k. þess vert, að það færi fram á þessu athugun, ekki síður en á hinni vélrænu upptöku á þingræðunum. En það er að mínu viti eiginlega undirstaðan til þess, að hægt sé að framkvæma það, sem ég hef lagt til í till. minni. Ég vildi þess vegna mega vænta þess, að hv. n., sem fær málið til athugunar, og þeir aðilar, sem e. t. v. á eftir kynnu að fá það hlutverk að rannsaka málið og e. t. v. framkvæma, þeir hefðu það í huga, sem ég hef nú nefnt í þessum orðum mínum.