26.10.1950
Sameinað þing: 9. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 120 í D-deild Alþingistíðinda. (3953)

40. mál, vélræn upptaka á þingræðum

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Ég er alveg sammála hv. flm. þáltill. á þskj. 61 um það, að það er mikil nauðsyn á að fá einhverja breyt. á um upptöku þingræðna frá því, sem nú er. Ég er ekki í vafa um það, að öllum hv. þm. mundi þykja það alveg óviðunandi, ef engin upptaka ræðnanna ætti sér stað. En það er óviðunandi, að upptaka ræðnanna á sér stað, sem er svo ófullkomin, að hv. þm. leggja það ekki á sig að lesa ræður sínar og leiðrétta þær. Ég álit því, að það sé tvímælalaust rétt leið að fara inn á þá braut að taka umræðurnar upp á þann hátt, sem hér er stefnt að. Og þetta hlýtur, þegar til lengdar lætur, að vera miklu ódýrara heldur en það að hafa fullkomna þingskrifara, en annað væri ekki viðunandi, ef þingskrifarar eru hafðir.

Hitt er svo önnur hlið á þessu máli, sem ég tel alveg óviðunandi, og hún er sú, að umræðupartur Alþt. kemur ekki út prentaður fyrr en mörgum árum eftir að umræðurnar fara fram. Í Bretlandi eru umræður þingsins prentaðar og koma út daginn eftir. Ég álít, að það sé vel hægt hér að koma þessu í kring. Og það er ekkert viðunandi í þessu efni, nema það sé gert, þannig að umræðuparturinn komi út prentaður, eins og hv. síðasti ræðumaður tiltók, vikulega eða hálfsmánaðarlega. Ég er fullviss um það, að þessi aðferð muni hafa minnkaðan kostnað í för með sér við upptöku á þingræðum. Og ég er þess vegna ekki sérlega hræddur við þann mikla kostnað, sem hv. flm. álita, að muni leiða af slíkri útgáfu. En ég vil benda á annað, og það er það, að það er alls ekki víst, að þingið þurfi sjálft að gefa út umræðurnar. Ég hef látið mér detta í hug, að bókaútgefendur hér á landi mundu tilleiðanlegir til þess að gefa umræðupartinn út á sinn eigin kostnað, að sjálfsögðu með því að þeir fengju einkarétt á að gefa hann út. En það eru ekki útlát fyrir þingið að veita slíkan einkarétt, ef sá, sem fær hann, gefur á móti þá skuldbindingu að gefa umræðurnar út á þennan hátt. Og það væri þá fullnægt því, að umræðuparturinn er gefinn út, sem er aðalatriðið, og ríkinu sparað stórfé, sem til útgáfunnar fer eins og nú er. En ef umræðupartur þingtíð er gefinn út vikulega eða hálfsmánaðarlega, þá hafa menn allt annan áhuga fyrir umr. á Alþ. heldur en nú er, þegar þeir fá þær í hendur tveimur, þremur eða fjórum árum eftir að umr. fara fram. Ég álít því, að það eigi að athuga þessa hlið málsins líka. Og það er ekkert meiri minnkun fyrir Alþ. Íslendinga að láta gefa ræðurnar út á þennan hátt heldur en þing Breta, en ég hygg, að ég fari rétt með það, að þar sé það þannig, að þingræðurnar séu gefnar út af einkafyrirtæki, sem að vísu hefur gert það — ja, ég skal ekki segja, hve lengi — kannske í 100 ár. — Og ég vil gjarnan beina því til hv. n., sem fjallar um þetta mál, að hún taki þessa leið til athugunar.