26.10.1950
Sameinað þing: 9. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 121 í D-deild Alþingistíðinda. (3954)

40. mál, vélræn upptaka á þingræðum

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Þegar till. til þál., að mestu leyti eins og þessi till., sem hér liggur fyrir á þskj. 61, var borin fram á síðasta þingi, þá flutti ég lítils háttar brtt. við hana, sem snerti þó eingöngu tæknilega hlið málsins, þ. e. a. s. aðferðina við upptökuna á umr. hér á þingi. Með þessu móti tók ég þá undir með hv. alþm. þeim, sem voru flm. þeirrar till., að ástæða væri til að hverfa inn á nýjar leiðir í þessu máli. Og ég stend nú upp til þess aðeins að undirstrika þessa sömu afstöðu mína nú eins og þá. En hv. flm. þessarar till. hafa að efni til fellt inn í þáltill. þá brtt., sem ég flutti á síðasta þingi við till. um þetta efni.

Ég vildi leggja áherzlu á, að sú n., sem fær þetta mál til meðferðar, taki það til skjótrar afgreiðslu, einnig vegna þess, að ég hygg, að það sé miklu ofar í hugum hv. þm. nú en nokkurn tíma áður, að þetta mál verði til alvarlegrar afgreiðslu, og þá ekki aðeins í þingnefnd, heldur einnig, þegar það heldur lengra, til meðferðar forseta þingsins og ríkisstjórnar. En þetta segi ég þann veg sem ég geri vegna þess, að það hafa verið gerðar lítils háttar tilraunir um upptöku á þingræðum, sem mér virðist vera hálfgert kák og þannig fitlað við það, að mér virðist við það hafa minnkað trú sumra manna á, að þessi aðferð við upptökuna sé framkvæmanleg. En ég hef sannfæringu fyrir því, að það sé hægt á þann veg að koma á mjög fullkominni upptöku á þingræðum og þá einnig þannig, að það sé ekki kostnaðarmeira en með því fyrirkomulagi, sem við nú höfum.

Brtt. hv. 8. landsk. þm. er mjög athyglisverð. En hún er því aðeins athyglisverð, að það sé farið inn á nýjar leiðir um upptöku þingræðna hér á Alþ., og tek ég þar í sama streng eins og hæstv. viðskmrh., að að svo miklu leyti sem ástæða er til að leggja áherzlu á, að Alþt. komi reglulega og fljótt út, eftir að umr. hafa farið fram, þá er náttúrlega einnig ástæða til að leggja áherzlu á það, að upptakan sé með þeim hætti, að hún sé sómasamleg. En eins og nú háttar til um upptöku þingræðnanna, er þinginu ekki gerður neinn greiði með skjótari útgáfu Alþt. heldur en verið hefur, því að ræður hv. þm. eru mjög afbakaðar og í langflestum tilfellum þannig, að þingmenn leggja ekki á sig að leiðrétta þær, enda er það oft miklu meira verk en þó að menn undirbúi sig til þess að flytja ræður hér á þingi. Ég tala þar af nokkurri reynslu sjálfs mín, og ég hygg, að flestir hv. þm. geti tekið undir það sama.

Ég undirstrika og legg áherzlu á, að nauðsynlegt er, að þetta mál komist nú í þann farveg, að það fái afgreiðslu og komist til skjótra framkvæmda.