26.10.1950
Sameinað þing: 9. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 127 í D-deild Alþingistíðinda. (3959)

40. mál, vélræn upptaka á þingræðum

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þetta mál, en vegna þess að till. er beint til forsetanna, að þeir taki þessi mál til athugunar, þá finnst mér ekki skaða að geta þess, að forsetarnir hafa haft þessi mál til athugunar, og mundi svo hafa verið, þó að þessi till. hefði ekki komið fram, þó að ég sé engan veginn að átelja, að hún skuli hafa komið fram. Hér hefur margt verið sagt um þetta mál og deilt á núverandi fyrirkomulag og ekki hvað sízt það, hve umræðupartur þingtíðindanna kæmi seint. Þá er að játa það, að á stríðsárunum fór prentun þingtíðinda að verða á eftir tímanum, og ágerðist það eftir því, sem tímar liðu, og var orsökin sú, að prentsmiðjan annaði ekki prentuninni. Orsakirnar til þess kunna að vera ýmsar, svo sem að annað efni hafi þurft að prenta í prentsmiðjunni. En meginástæðuna til þess tel ég þá, að á þessum árum fóru þingin að verða svo löng, og svo hefur verið á hverju ári síðan 1942. Og held ég, að þetta hafi sitt að segja um það, að prentun er orðin svo mjög á eftir tímanum. En nú get ég upplýst, að þetta atriði er að lagast. Búið er að prenta umræðupartinn frá þinginu 1946–47, eitthvað töluvert af umr. næsta þings á eftir og farið er að prenta umr. 1948–49. Ef svo heldur áfram eins og verið hefur nú um sinn, má búast við, að útgáfa þingtíðinda komist brátt í sitt gamla horf, að umræðuparturinn komi út fljótlega eftir hvert þing.

Það eru sjálfsagt einhver rök fyrir ádeilum þeim, sem þingskrifarar hafa orðið hér fyrir um slæman frágang á þingræðum og eins fyrir það, að þeir skiluðu seint, en þeir hv. þm., sem lesa ekki yfir ræður sínar, geta að sjálfsögðu lítið um þetta sagt, að því er mér skilst. Út af tilfelli því, sem hv. 1. þm. N-M. minntist á, þá get ég upplýst það, að sá skrifari, sem þar átti hlut að máli, starfar nú ekki hér. Þegar ég var ungur, man ég það, að umræðupartur þingtíðindanna þótti skemmtilestur, a. m. k. meðal greindari manna, og ég tel engan vafa á því, að menn mynduðu sér þá sjálfstæðari skoðanir um þjóðmál en nú er gert, og gæti ég haldið, að það ætti þátt í því, að lestur þingtíðinda var þá almennari en nú; en þar kemur líka til greina, að mál voru þá fábrotnari en nú er orðið.

Ef lýðræði á að gilda í landinu og menn eiga að geta myndað sér skoðun um það, hvernig menn eigi að nota kosningarrétt sinn, þá sé ég ekki betur en það sé nauðsynlegt, að þjóðin fái glögg skil á því, hvað fram fer á Alþingi. Á þessu hefur orðið misbrestur á síðari árum. Það er ekki einasta, að dráttur hafi orðið á prentun Alþt., heldur er það nú af lagt, sem tíðkaðist áður, að blöðin flyttu ýtarlegar frásagnir af gangi mála á Alþingi. Það rétt aðeins kemur fyrir — eins og t. d. nú um friðun rjúpunnar. En þó að stórmál ýmis séu til meðferðar, þá er e. t. v. ekki á þau minnzt einu orði.

Eitt er athugavert í þessu sambandi, og virðist mér það muni sífellt fara í vöxt, að það er eins og almenningur geri engan greinarmun á afstöðu þingmanna og þingflokka til mála; hann skammar þannig allt þingið fyrir afgreiðslu óvinsælla mála og eins þá, sem barizt hafa á móti þeim. Þetta kemur m. a. til af því, að menn eiga þess nú ekki kost að fylgjast eins vel með gangi þingmála og áður var. Það er líka sagt, að Alþingi njóti ekki sömu virðingar lengur meðal þjóðarinnar sem það hafði áður. Þetta mun vera rétt, þrátt fyrir það, að Alþingi er að mínu áliti alveg eins virðuleg stofnun og áður var. En það skyldi nú ekki vera, að orsökin sé fyrst og fremst sú, að menn viti nú minna um störf Alþingis en áður?

Ég sem sagt held því fram og er sammála því, að það sé nauðsynlegt að gefa fólki kost á því að fylgjast með málum á Alþingi nógu tímanlega, svo að áhugi manna sé ekki löngu kulnaður, er þeir fá þau gögn í hendur, sem til þarf. — Hvort þetta er hægt með vélrænni upptöku á þingræðum og með því að koma ræðunum með einhverjum hætti mjög bráðlega út, eða með einhverju öðru móti, skal ég ekki segja að svo stöddu; en ég get lofað því fyrir hönd forseta Alþingis, að þetta mál verði af þeirra hálfu tekið til rækilegrar athugunar. Eins og ég sagði í upphafi, er þetta í athugun, og gerð hefur verið tilraun með vélræna upptöku á stálþráð í efri deild í hitteðfyrra. Eftir því sem ég gat um dæmt við hlustun síðar, þá tókst sú tilraun vel. En töluverðan útbúnað þurfti að hafa til þess að þetta væri hægt.

Ég hef svo ekki á þessu stigi meira um þetta mál að segja, en vildi aðeins láta þetta koma fram.