26.10.1950
Sameinað þing: 9. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 128 í D-deild Alþingistíðinda. (3960)

40. mál, vélræn upptaka á þingræðum

Rannveig Þorsteinsdóttir:

Herra forseti. Hér er til umræðu að breyta kerfi því, sem tíðkazt hefur um upptöku á þingræðum, og taka upp annað í þess stað. Ég álít því alveg nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því, hvernig bæði kerfin vinna, það sem við höfum nú og hitt, sem gert er ráð fyrir, að upp verði tekið.

Við höfum hér nokkra þingritara ráðna. Um eitt skeið var það siður, að þeir gengju undir próf, svo að vitneskja fengist um hæfni þeirra til starfsins. Nú á síðari árum hafa þessi próf verið lög niður, og eftir hverju sem þingritarar hafa nú annars verið ráðnir, þá hefur ekki verið athugað, hvort þeir væru hæfir til starfsins eða ekki. Þetta hefur svo orðið til þess, að ágætir starfsmenn og raunar allur hópurinn og kerfið í heild hafa legið undir gagnrýni vegna fárra einstaklinga.

Það er ætlazt til þess af þingriturum, að þeir taki ræðurnar orðréttar, svo að ekki þurfi að breyta þar stafkrók, hreinriti þær innan ákveðins tíma og skili til skrifstofunnar, sem flokkar þær niður. Með kerfi því, sem nú er gert ráð fyrir að taka upp, á að taka ræðurnar orðréttar á stálþráð. En þar á eftir kemur líka til kasta fólks, sem hlýtur að hafa misjafna hæfni í starfi; vélritunarstúlkur geta líka verið misjafnar; og það verður að ráða fólk, sem hefur til að bera öryggi og leikni í þessu starfi ekki síður en við skriftirnar. Og með hliðsjón af fenginni reynslu vil ég þá leyfa mér að bera brigður á það, að hér verði breytt um til batnaðar. En ég vil beina því til n., sem fær þetta mál til meðferðar, að þarna þurfa að koma til margir starfsmenn líka, sem greiða þarf laun — og sennilega misjafnlega mörgum eftir annríki á þinginu —, og þetta veldur því, að ég tel vafasamt, hvað ofan á verður um sparnaðinn af þessum ráðstöfunum. Enn fremur tel ég óvíst, að allir þingmenn vildu fremur kannast við sumar ræður sínar orði til orðs ritaðar heldur en handrit, sem þingritarar hafa lagt alúð við. Ræðumenn eru misjafnir, ekki síður en ritarar. Og sögð er sú saga af einum þingmanni, að hann hafi leiðrétt eftir sig ræðukafla, en þingritarinn tók svo hinn leiðrétta kafla og vélritaði eins og þm. hafði þá gengið frá honum; en þegar þingmaðurinn sá vélritið, tók hann það aftur og leiðrétti sem ólesið. Þetta segir sína sögu, og vitaskuld er margt að athuga, bæði af hálfu ræðumanna og ritara, og alveg eins þótt þetta nýja kerfi verði upp tekið. Ef horfið verður að því að gefa þingtíðindi út vikulega, þá hlýtur meiningin að vera sú, að ræðurnar séu prentaðar eins og þær koma fyrir, vélritaðar eftir stálþræðinum; en þá veltur ekki lítið á þeim, sem vélrita eftir hinu nýja kerfi, og engu trúlegra að það verði ekki vanrækt af forráðamönnum að ráða til þess hina hæfustu menn; en það er staðreynd, að þetta hefur verið látið undir höfuð leggjast og góðir skrifarar hafa oft ekki verið teknir, heldur miður hæfir menn, og þeirra vegna hefur kerfið svo verið dæmt óhæft.

Það er nú upplýst af hæstv. forseta, að útgáfa þingtíðinda hafi ekki dregizt af völdum skrifara. Ég vil nú leyfa mér að efast um, að þetta færi betur, þó að þingræður væru vélritaðar af stálþræði. Úr því útgáfan hefur hingað til dregizt annarra orsaka vegna, gæti svo farið enn þá. — Þetta vildi ég biðja menn að athuga og leggja betur niður fyrir sér málið frá byrjun til enda, áður en ráðizt er í breytingar á því kerfi, sem tíðkazt hefur til þessa.