22.02.1951
Sameinað þing: 45. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 132 í D-deild Alþingistíðinda. (3971)

40. mál, vélræn upptaka á þingræðum

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Ég sé, að hv. þm. Ísaf. (FJ), frsm. allshn., er ekki staddur á fundi, og þess vegna vil ég segja örfá orð um þetta mál. — N. hafði leitazt við að afla sér upplýsinga um það, hvort ráðlegt væri að taka upp þingræður á vélrænan hátt, en tókst ekki að fá nægilega glöggar upplýsingar um, hvernig það mundi gerast, og þar sem liðið var að þinglokum, vildi n. ekki slá því á frest að afgr. málið frá sér. Varð n. ásátt um að leggja til við Alþ., að það samþ. rökst. dagskrána á þskj. 639, sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þar eð Alþ. hafa enn eigi borizt fullnægjandi upplýsingar, er leitað hefur verið eftir um vélræna upptöku þingræðna, og eigi er víst, að þær liggi fyrir áður en þingi lýkur, en hins vegar mikil nauðsyn, að breytt verði til bóta um þingskriftir, samþykkir Alþingi, í trausti þess, að forsetar Alþingis athugi málið milli þinga, að taka fyrir næsta mál á dagskrá.“

Forsetar Alþ. eru hinir réttu aðilar í þessu máli, og þar sem n. lánaðist ekki að fá það glöggar upplýsingar, að hún gæti tekið ákvörðun í málinu af sinni hálfu og lagt í ákveðnu formi fyrir Alþ., hvað gera skyldi, þá hygg ég, eins og ástatt er um málið, að það verði bezt afgr. á þennan hátt.