21.02.1951
Sameinað þing: 43. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 141 í D-deild Alþingistíðinda. (3987)

73. mál, loftskeytastengurnar á Melunum í Reykjavík

Frsm. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Í fjárl. 1950 mun hafa verið gefin heimild til að flytja stengurnar burt, en sú heimild hefur ekki verið notuð. Hv. þm. Vestm. skoraði á stjórnina að nota þessa heimild. Þegar till. var flutt, var orðið áliðið þings og var hún ekki afgr. í n. fyrr en eftir áramót, þegar heimildin var fallin. Fjvn. var öll á einu máli um það, að nauðsynlegt væri að flytja stengurnar burt. Afgreiðsla n. miðast við, að stengurnar verði fluttar á þessu ári. En nú er ekki heimild í fjárl. né fé til að standast þennan kostnað, sem áætlaður er 800 þús. kr. Það hefur staðið þref milli flugráðs og landssímans um þetta. Flugráð hefur sótt þetta fast og viljað, að landssíminn léti flytja þær, en leggja þó nokkuð af mörkum, svo að kostnaðurinn komi á báða. Eins og hv. þm. er kunnugt, stendur stöð á Rjúpnahæð, sem er undir umsjá flugráðs. Sú stöð á ½ millj. kr. í sjóði, og tekjur af henni eru 200 þús. kr. Flugráð býðst til að afhenda þessa stöð gegn því að fá beina símaþjónustu í millilandaflugi. Það mun vera svo erlendis og þykir nauðsynlegt að þurfa ekki að sækja samband gegnum 3 aðila, einkum þegar flugvélar eru orðnar svona hraðskreiðar. Innanlandsflugið hefur beint samband við flugstöðina á flugvellinum. Það virðist nauðsynlegt, að flugstöðin fái sama rétt og erlendar flugstöðvar. Ef flugráð fær fyrirheit um að fá þennan rétt, afhendir það stöðina og sjóðinn, og er fjármálunum þá borgið. Svo er 200 þús. kr. hagnaður af henni, og vantar þá ekki nema 100 þús. kr., sem einhvers staðar hlýtur að vera hægt að fá. — Till. fjvn. er breytt frá því, sem hún var í upphafi, en ætlazt er til, að hún nái sama tilgangi. Hér með eru prentuð tvö fylgiskjöl, annað frá póst- og símamálastjórninni, en hitt frá flugráði. Nú vill svo vel til, að sami maður er flugmrh. og símamrh., og er því hægara fyrir hann að hafa áhrif á þetta en ef þeir væru tveir. Ég hef átt tal við hæstv. ráðh. um þetta, og vill hann láta flytja stengurnar. Ég býst við því, að hann lýsi því yfir, að hann beiti sínu valdi til þess, að samkomulag náist, og er þá tilgangi fjvn. náð. Ég vænti þess, að þm. viti, að úr því að það láðist að afla heimildar á fjárl., hafði fjvn. ekki önnur úrræði en þessi. Nefndin valdi þessa leið til úrlausnar og vissi, að ráðh. er tilbúinn að skerast í leikinn og gera það sem þarf til að samkomulag náist. Við getum vænzt þess, að stengurnar verði fluttar, ef ekki í vetur, þá í vor. Ég vænti þess, að hæstv. ráðh. láti vilja sinn í ljós í þessu máli.