21.02.1951
Sameinað þing: 43. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 148 í D-deild Alþingistíðinda. (3992)

73. mál, loftskeytastengurnar á Melunum í Reykjavík

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Ég gekk af fundi áðan vegna þess, að ég þurfti að fara á áríðandi ríkisstjórnarfund, en fyrir beiðni hv. þm. Vestm. kom ég hingað til að hlusta á mál hans. — Hann hefur borið upp nokkrar fyrirspurnir til mín í sambandi við þetta mál, og skal ég leitast við að svara þeim með fáum orðum.

Fyrsta fsp. hans var um það, hvort mér væri kunnugt um það, að festingar skorti á flugvöllum hingað og þangað úti á landi. Ég vil segja, að mér er ókunnugt um þetta og hef ekki heyrt um það fyrr en nú; það kemur kannske til rn., en ég verð að taka undir það með hv. þm., að slíkar öryggisráðstafanir eru á þann veg, að flugráð eða stjórn flugvallanna ætti að geta komið slíku í kring án of mikilla fjárútláta með þeim efnum, sem þeir hafa í höndum.

Önnur spurningin var um það, hvort það væri eftir mínum ráðum, að sá maður væri enn í flugturninum, sem er undir sakamálsákæru. Þetta hefur ekki komið til minna kasta á neinn hátt. Hins vegar hefur það nú fyrir tveimur dögum komizt til tals, hvort rétt væri að hafa þennan mann í turninum meðan á sakamálarannsókninni stæði eða áður en dómur væri kveðinn upp, og er þetta mál nú til athugunar á réttum stað, að því er ég tel, þ. e. hjá flugráði.

Þriðja spurningin var um það, hvað ég hefði gert í málinu síðan ég gaf, eins og hann komst að orði, loforðin í nóvember, þegar þessi till. var til fyrri umr. Það fyrirheit var á þá lund að leita samkomulags um það milli þessara tveggja aðila, að landssíminn tæki að sér flutning stanganna, vegna þess að það var þá eini möguleikinn til þess, að fé væri fyrir hendi til að greiða þann kostnað, sem af því leiddi. Hv. þm. benti á, að þingið hefði tekið þessu máli vinsamlega, þegar það á sínum tíma samþ. á heimildagr., að það mætti verja fé til að flytja stengurnar. Það má kannske segja, að þessu hafi verið tekið vinsamlega, en þó ekki nógu vinsamlega til þess, að hægt væri að gera þetta, því að þá hefði átt að taka það fé, sem til þess þurfti, upp í fjárl. En svo þegar til þess kom að ræða um að flytja stengurnar, taldi hæstv. fjmrh. sér ekki fært að nota þessa heimild. Ég sem sagt gaf það vilyrði við fyrri umr., að þessar samkomulagstilraunir skyldu strax verða teknar upp, og þær voru líka strax teknar upp og liggja nú fyrir á þann veg, að ágreiningur er um meiri háttar atriði. Samningaumleitanir hafa verið á döfinni þennan tíma. Það má kannske segja sem svo, að þær hafi tekið of langan tíma, en ég vil benda á það, að jafnvel þótt ákveðið hefði verið í nóvember, að flutningur stanganna skyldi ganga fram, var ekki þar með sagt, að flutningurinn gæti hafizt þá þegar, eins og hv. þm. virðist hafa gengið út frá. Þegar ég um það leyti talaði við verkfræðing landssímans, taldi hann öll tormerki á, að hægt væri að byrja á niðurrifi stanganna fyrr en færi að vora, þannig að ég held, að jafnvel þótt þessi dráttur hefði ekki orðið á málinu vegna samningaumleitana og, að því er hv. þm. heldur fram, vegna seinagangs hjá fjvn. að athuga málið, þá væri ekki hægt að segja með réttu, að þá þegar hefði verið hafizt handa um að taka stengurnar niður, því að ég er þeirrar skoðunar af viðtölum við þá menn, sem koma til með að hafa með niðurrifið að gera, að ekki mundi verða farið í það fyrr en með vorinu.

Ég tel svo ekki ástæðu fyrir mig að fara frekari orðum um málið að svo stöddu. Ég hef gefið í því upplýsingar, eftir því sem tök eru á, og vænti þess, að það geti náð þeim framgangi, að stengurnar verði teknar niður á þessu ári. En því miður get ég ekki verið við framhald umr. um málið, því að ég þarf að vera á öðrum fundi.