21.02.1951
Sameinað þing: 43. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 153 í D-deild Alþingistíðinda. (3996)

73. mál, loftskeytastengurnar á Melunum í Reykjavík

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Mér þykir það leiðinlegt, ef nú á að fara að spila þannig á þetta mál að gera það að einhverju metnaðarmáli fjvn. Ég held sannast að segja, að hún ætti að velja eitthvert annað mál til þeirra hluta. Hv. form. fjvn. vék að því, sem ég sagði um þetta, og taldi mig hafa farið hér með misskilning. Ég held ég hafi ekki misskilið neitt. Ég skýrði frá því, að mín fyrsta umsókn til fjvn., þegar ég var flugmálaráðherra, var vitaskuld í þá átt, að nefndin tæki málið til fyrirgreiðslu. Ég skal játa það, að hún kann að hafa verið ekki eins formleg og skyldi. En viljinn á bak við var auðsær, ef menn hefðu viljað leggja velviljaðan skilning þar í. Ég sagði ekki annað um afgreiðslu n. en það, að hún hefði bægt málinu frá sér. Og hv. formaður hefur sagt það sjálfur. Ég notaði ekki stærri orð. Hann sagði, að þeir hefðu ekki viljað vera dómari. Næsta sporið var það, að ég skrifaði n. og bað hana að taka upp fjárveitingu í þessu skyni og deila á 3–4 ár, 200 þús. kr. á ári. Hv. fjvn. svaraði þessu á þann veg að virða að vettugi þessi tilmæli mín. Formaður sagði, að viðkomandi hefði þá verið fjmrh. Ég held það sé ekki rétt. Það var tekið fyrir í ráðuneyti Ólafs Thors. Og hvort sem ég var fjmrh. eða ekki, kaus ég þá leið að fara bónarveg til n. í viðkvæmu slysavarnarmáli. Og hún neitaði. Hv. formaður fjvn. sagði, að þeir hefðu aldrei litið á þetta mál smáum augum. Ég veit sannarlega ekki, hvernig hv. formaður getur sagt þetta, þar sem eftir hans eigin lýsingu vildu þeir ekki gera sig að dómara og ekki leggja fram 200 þús. kr. á ári í 3–4 ár — og eftir að vitað var, að n. sat á till. Það skiptir ekki máli, hvort það voru margir dagar eða fáir, tillagan var lögð nægilega snemma fyrir þing 1950. Hún var komin í hendur n. nægilega snemma til þess, að afstöðu mætti taka til hennar. En n. settist á till. Það hefur hingað til ekki verið talið að líta stórt á mál að setjast á það. Þá skeði það, að Alþingi tók málið í sínar hendur og lagði fyrir, að þetta verk skyldi framkvæma. Ég skal ekki tala langt mál um það, að það var framkvæmdavaldið, sem hefur svíkizt undan merkjum í þessu efni. Annaðhvort hefur hér verið frá upphafi um að ræða vörn gegn slysum, vörn gegn ægilegri hættu, eða ekki. Ef um hættu er að ræða, sem ég fullyrði, að hver heilvita maður hefði átt að sjá, þá er ekki viðeigandi að vera að metast um, hvar eigi að taka þessar 700 þús. kr. til að standast þennan kostnað. Formaður fjvn. hélt fram, að engin þjónusta skipa væri möguleg, ef þessar stengur væru teknar úr stað. Er honum ekki kunnugt, að mikið af þessari þjónustu er þegar komið á stuttbylgjur? Ég hef aldrei heyrt á verkfræðingum landssímans, að þjónusta þessarar stöðvar væri óhjákvæmileg. Það er stöð á Gufunesi og á Rjúpnahæðinni, Vestmannaeyjastöðin, og það eru margar leiðir til að koma skilaboðum, þó að þessi stöð verði lögð niður. Enda er landssíminn hættur að halda fram, að hún megi ekki missa sig. Á fundinum, sem hv. formaður fjvn. var á og skoraði á mig að birta nú niðurstöður af, er einmitt lýst yfir af verkfræðingi landssímans, að hann álíti, að stengurnar eigi að hverfa burt. En úr því að hv. þm. var að skora á mig, þá er bezt — þó að það sé mér viðkvæmt mál —, að ég segi, hvað þar gerðist. Að minni till. er í fjvn. haldinn fundur 7. febr. og allir nm. mættir. Þá gerðist þetta:

„62. fundur fjvn. var haldinn á venjulegum stað miðvikudaginn 7. febr. 1951 kl. 10 f. h. Allir nm. voru mættir. Þetta gerðist: 1) Hjá n. mættu formaður flugráðs ásamt tveimur öðrum meðlimum flugráðs, þeim Erni Johnson og Bergi Gíslasyni, og enn fremur Þorsteini Jónssyni flugmanni. Auk þess mætti fyrir hönd póst- og símamálastjóra Gunnlaugur Briem verkfræðingur.

Formaður n. lagði þá spurningu fyrir flugrásmennina og flugmanninn, hvort slys það, er varð 31. janúar s. l., er flugvélin Glitfaxi fórst, stafaði að þeirra áliti af því, að loftskeytastangirnar á Melunum hefðu ekki verið fjarlægðar, en sá orðrómur hefði borizt út um bæinn, og var meðal annars Þorsteinn Jónsson flugmaður borinn fyrir honum.

Allir aðspurðir neituðu að fullyrða nokkuð um það atriði, en kváðu hins vegar, að lendingarskilyrði fyrir flugvélina hefðu í þetta skipti verið miklu betri, ef stangirnar hefðu ekki verið við flugvöllinn, þar sem flugvélin hefði þá getað notað vitann á Seltjarnarnesi, þótt hann sé enn ekki fullgerður, og einnig hin sterku leiðarljós, sem sett eru upp í sambandi við hann, en þessi öryggistæki er ekki hægt að nota, fyrr en stangirnar hafa verið fluttar.

Flugráð og verkfræðingur landssímans voru sammála um það, að nauðsynlegt væri að flytja stangirnar, og töldu, að hægt væri að framkvæma það verk án verulegra útgjalda fyrir ríkissjóð.“

Það gefur auga leið, að fávizkulegt er að ætlast til, að menn fullyrði nokkuð um slys, sem enginn veit, hvernig að höndum hefur borið. Hitt er annað mál, að það er það sterkt að orði komizt af öllum aðspurðum, að slíkt ætti að vera nægileg ábending til þess, að fjvn. hefði sleppt öllum bollaleggingum um samkomulag milli símans og flugráðs og öllum bænarskrám um að stuðla að því, að þessir menn kæmu sér saman, heldur lagzt fast á, að ríkisstj. léti framkvæma þetta verk við fyrsta tækifæri, þar eð ekki er heldur um meiri fjárhæð að ræða. Við þetta bætist svo, að ég hef síðan átt tal við Þorstein Jónsson flugmann, sem er alreyndastur í þessu fagi af öllum, sem hér eru nálægt. Hann sagði, að hann hafi tekið miklu sterkar til orða á nefndarfundinum en þarna sé bókað. Ég ætla ekki að fara að hafa yfir, hvað hann sagði, að hann hefði sagt. En ég tel þó nægilega sterkt tekið til orða af þeim öllum, sem aðspurðir voru, þegar þeir lýstu yfir, að stangirnar hefðu torveldað lendingu í þetta sinn og að ekki hafi verið hægt að nota þau öryggistæki, sem fyrir voru, út af þessum farartálma.

Ég ætla svo, hæstv. forseti, ekki að eyða öllu meiri tíma til að ræða þetta mál. Það fer sem fara vill með mína brtt. Mér hefur verið bent á það af formanni fjvn., að ég væri að spila einhverjum fjármunum úr höndum ríkisstj. Ég held það sé þvert á móti. Og yfir höfuð er í þessu máli næsta lítilmótlegt að vera að tönnlast á því, hvort flugráð, landssími eða ríkissjóður ættu að standa undir þessum kostnaði. Ég skal taka fram, að ég geri ekki kröfu til þess, að á þessu verki verði snert þegar í stað, enda mun lífshætta að fást við það í slíkri ótíð sem nú er. Í minni till. er farið fram á, að þetta verði gert þegar veður leyfa, en verði ekki látið undan falla. Ég hef ekki verið að bera sérstakt vantraust á ríkisstj. í sambandi við þetta mál. En ég vek athygli á yfirlýsingu hæstv. flugmálaráðh. s. l. haust. Þessar till. — þ. e. úrlausnartill., sagði hann, — eru í athugun, og verður því flýtt eins og hægt er að komast að endanlegri niðurstöðu. Þetta var fyrirheit ráðh. í haust. Og hvað eru margir mánuðir liðnir síðan? Í svo smávægilegu framkvæmdaatriði hefur enn ekki orðið niðurstaða, eftir því sem hann segir, því að hann lýsti yfir, að það væri enn eitthvað að yfirvinna í þessu máli. Þess vegna virðist mér eðlilegt í beinu framhaldi af yfirlýstum vilja Alþ., sem kom fram við afgreiðslu málsins 1950, að endurtaka bara þá skipun til ríkisstj., sem Alþ. þá gaf, umbúðalaust og án þess að halda málinu sem átakamáli milli flugráðs og landssímans. Í þessu liggur það, sem ber á milli mín og fjvn. Formaður fjvn. sagði, að ég hefði gert þetta meðan ég var flugmálaráðh. Það voru kannske tveir mánuðir. Ég verð að segja, að ég var alls ekki kominn svo inn í málið, að ég hefði getað úrskurðað þetta þá, enda hafði ég ekki fjárráðin þá. Ég sneri mér til formanns fjvn. og fékk viðtökur þær, sem ljóst er orðið. En nú þarf ekki að láta þetta mál fá slíka meðferð. Og þó að flugráð og landssími vilji ota sínum tota, þá verður að krefjast, að þeir, sem eru í ráðherrastólum og eru yfir þessa herra settir, taki sína afstöðu. Þangað vil ég beina málinu brotalaust og umbúðalaust.