10.12.1950
Neðri deild: 33. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 118 í B-deild Alþingistíðinda. (400)

24. mál, aðstoð til bænda á óþurrkasvæðunum

Emil Jónsson:

Herra forseti. Ég get ekki látið hjá liða að segja nokkur orð um þetta vandamál. Mér virðist hæstv. landbrh. svara þessu nokkuð öðruvísi en ég hefði ætlazt til, þegar hann sagði, að sér þætti furðulegt, að þegar kæmi hér á Alþ. fram till. um aðstoð við landbúnaðinn, þyrfti alltaf að hnýta við till. um eitthvað annað. Ég held, að þetta sé ekki rétt. Ég held, að oft hafi verið bornar fram till. um aðstoð við bændur, án þess að nokkrum slíkum till. væri hnýtt aftan við, og ég hef sjálfur verið með að greiða þeim atkvæði. En þegar tvö tilfelli ber að á sama tíma undir líkum kringumstæðum, finnst mér, að báðir aðilar eigi að hafa jafngreiðan aðgang að ríkissjóði og ríkisstjórn, og það á ekki að mismuna landsfólkinu á þann hátt að veita einum, en synja öðrum. Framlög til landbúnaðar hefur oft verið hægt að veita án þess, að nokkuð hafi verið við þau bundið, og ég sé ekki eftir því.

Hæstv. ráðh. sagði, — og það fannst mér pósitívt í hans ræðu, — að það væri ekki ætlazt til, að þeim bændum væri veittur styrkur, sem hefðu 80% af meðalheyfeng eða þaðan af meira. Það gefur upplýsingar um, hverjum eigi að veita styrkinn. Ég spurði, hvort hæstv. ríkisstj. hefði gert sér grein fyrir, hvort nokkrar breytingar hefðu orðið frá því að skýrslan var gerð og þangað til nú.

Hv. þm. N-Þ. sagði, að það væri rétt, sem í blaðagreininni stæði, en hann gæti ekki dæmt um nema hluta af því svæði, sem tekið væri til meðferðar. Eins vildi hann segja, að ekki væri rétt með farið af blaðamönnum, og kann það að hafa við eitthvað að styðjast. En blaðamaðurinn segir fortakslaust, að þetta sé ástandið á þessu svæði, áður hafi þeir átt 2/3 heyfengs og verið styrkhæfir, en að þessu tímabili loknu hafi allir verið búnir að fá meðalheyfeng. Þetta virðist mér breyta nokkru. Hann segir líka, að ástand þessa heyfengs hafi ekki verið slæmt, það hafi alveg verið sæmilega gott.

Hæstv. ráðh. segir samt sem aðalsvar við minni spurningu, að eftir þeim upplýsingum, sem hann hafi getað fengið, þá væri hjálpin sanngjörn og mætti ekki vera minni. Það má vel vera, að þetta sé rétt, en ég verð að segja, að mér finnst þetta svar ekki nægilega ýtarlegt og gæti verið nákvæmara. Það gæti verið, að það langaði fleiri þingmenn en mig til að fá nákvæmari upplýsingar en þetta. Að vísu sagði hæstv. ráðh., að þarna væri ekki nema um 41/2 millj. að ræða, sem skipt væri milli óteljandi manna. Ég held nú, að það mætti vel koma tölu á þá, sem þarna koma til greina, það kæmi lítið í hlut, ef þeir væru óteljandi. En hvað um það. 11/2 millj. er þó nokkuð fé á okkar mælikvarða, sérstaklega þegar við bætast 3 millj. sem lán. — Það, sem ég fór fram á áðan, var aðeins að fá svar við þeirri spurningu, hvort hæstv. ríkisstj. hafi gert sér grein fyrir þeim mun, sem var á hjálparþörfinni í september og eins og hún var orðin í októbermánaðarlok, eftir að blíðviðriskaflinn kom. Ég hef það fyrir satt, að þetta hafi breytt mjög miklu víða á svæðinu.

Ég fór sjálfur um þetta svæði í september og veit vel, hvernig þetta leit út. Ég talaði við marga og sá líka sjálfur, að ástandið var ljótt, en ég hef líka heyrt, að úr þessu hafi rætzt mjög verulega, sem betur fer. Hefur hæstv. ríkisstj. gert sér grein fyrir þessum mun, og ef hún hefur gert sér grein fyrir honum, getur hún þá ekki stutt hina, sem hafa óneitanlega þörf á aðstoð?

Ég skal ekkert fara út í að ræða um fjárframlög til landbúnaðarins og annarra stétta, það er nóg verkefni út af fyrir sig. En væri það rætt, þá hefði ég ýmsar upplýsingar fram að færa um, hvað hefði farið til landbúnaðarins og hvað til annarra stétta. Því var tíðum haldið fram, og því er haldið fram, að fjárframlög til landbúnaðarins væru minni en til annarra atvinnugreina. Þetta er ekki rétt. Fjárframlög eru meiri til bændastéttarinnar en flestra annarra. Nú er hvorki staður né stund til að deila um þetta, en ég vil benda á, að það, sem veitt hefur verið af hálfu hins opinbera í sambandi við síldveiðarnar og aflabrest á fiskveiðum, hefur ekki komið verkamönnum í landi að gagni, þeir hafa jafnt gengið atvinnulausir fyrir því, og enginn hefur stutt þá, hvorki hið opinbera né aðrir, og það eru þeir, sem verst standa. Þeir, sem kauptryggingu hafa fengið með aðstoð ríkissjóðs, hafa fengið aðstoð, hinir hafa bókstaflega ekkert fengið, og þeirra hlutur er kannske verstur af öllum.

Ég get nú látið máli mínu um þetta lokið. Ég býst kannske við, að hæstv. ríkisstj. eigi erfitt með að svara spurningu minni, en það vitnast síðar, og ég haga þá afstöðu minni til málsins eftir því. En mér hefði þó fundizt eðlilegra, þegar um er að ræða mál, sem kostar ríkissjóð þetta mikið, að nánari skýrsla hefði fylgt en kom frá hæstv. ráðh.