18.10.1950
Sameinað þing: 6. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 159 í D-deild Alþingistíðinda. (4011)

25. mál, friðun rjúpu

Flm. (Jón Pálmason) :

Herra forseti. Eins. og hv. alþm. hafa tekið eftir, höfum við hv. þm. Mýr. leyft okkur að flytja till. á þskj. 26, en hún er ítrekun á þeirri till., sem samþ. var hér á hv. Alþ. s. l. vor, um friðun rjúpu næstu 5 ár. Sú þál., sem samþ. var hér 19. apríl s. l., er á þessa leið: „Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að alfriða rjúpu fyrir skotum til 31. des: 1955.“ Nú gerði ég ráð fyrir, að þetta mál færi til afgreiðslu til hæstv. dómsmrn., því að mér hefði fundizt eðlilegra, að friðunarlögin heyrðu undir það rn., en nú hefur það ekki orðið, heldur hefur þetta hjá ríkisstj. verið falið menntmrn., og flestum hv. þm. hefur borizt bréf frá menntmrh., dags. 20. f. m., þar sem vitnað er í grg., sem því bréfi fylgir, frá dr. Finni Guðmundssyni, þar sem aðalatriðið er það, að það hafi engin áhrif, þótt skotnar séu jafnvel allar þær rjúpur, sem til næst, því að þeim fjölgi eftir sem áður á yfirnáttúrlegan hátt að manni virðist. Þessi kenning var kunnug öllum hv. þm. á síðasta þingi, því að það kom fram í blöðum, og ég varð ekki var við, að neinn hv. þm. tæki þessa kenningu alvarlega þá, enda var till. okkar samþ. alveg samhljóða á þinginu, og allshn., sem hafði þetta mál til meðferðar, afgreiddi það á þá leið, sem raun varð á. Nú má segja, að það hafi bætzt við síðan, að rjúpunni hafi fjölgað mikið síðan í fyrra. Um þetta er það að segja, að það vita allir menn, að það eru fleiri rjúpur á haustin en á vorin, því að venjulega er það svo, að hver rjúpuhjón koma upp 12 ungum, ef þeir verða ekki fyrir neinu slysi. Hitt er ósannað og ósannanlegt, að rjúpur séu nú fleiri en þær voru á s. l. hausti og síðustu haust, því þó að rjúpunni hafi fækkað á síðasta tímabili eða undanfarin ár, þá eru þó það margar rjúpur til, að ekki er hægt að telja þær, og það mundi vera óframkvæmanlegt verk að segja um það með vissu, hvenær þeim fjölgar, svo að verulega muni um. En það er kannske ekki óeðlilegt, þó að margir haldi nú, að rjúpunni hafi mjög fjölgað frá því, sem var á síðastl. hausti og síðastliðnum haustum, vegna þess að það ber meira á henni nú, en ástæðan er sú, að það harðnar fyrr að nú en undanfarin haust, og þess vegna hefur rjúpan leitað meira niður til byggða en var á s. l. ári.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða mikið um þetta að svo stöddu, en vænti þess, að hv. alþm. séu sömu skoðunar og þeir voru á síðasta þingi og vilji þess vegna endurnýja og ítreka þá till., hvað þetta snertir, sem þá var samþ. Ég skal þess vegna láta máli mínu lokið að sinni.