18.10.1950
Sameinað þing: 6. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í D-deild Alþingistíðinda. (4013)

25. mál, friðun rjúpu

Flm. (Jón Pálmason) :

Herra forseti. Út af þeim skýringum, sem fram hafa komið frá hæstv. menntmrh., þykir mér ástæða til að fara nokkru nánar út í þetta mál.

Varðandi þær mótbárur, sem hæstv. ráðh. kom með snertandi lagaákvæðið um friðun rjúpunnar, þá var það ljóst fyrir okkur flm. og allshn. á síðasta þingi, hvernig l. væru, að það yrði að fyrirskipa þessa friðun á hverju ári með auglýsingu, því að það er ekki hægt að gera það nema til eins árs í senn án þess að breyta l. Það var sameiginlegt álit þeirra aðila, sem um málið fjölluðu á síðasta þingi, að það séu engin vandkvæði á því, og ég bjóst við, að þetta yrði gert á þann hátt, að það yrði auglýst fyrir 15. þ. m., að rjúpan væri alfriðuð þetta ár, og þannig yrði framfylgt þessari ákvörðun Alþ., því að ég vil vekja athygli á því, að þessi till., sem samþ. var 19. apríl, er ekki áskorun, hún er fyrirmæli Alþ., sem ég veit ekki dæmi til áður að hafi verið snúizt gegn af neinni ríkisstj., eins og hér á sér stað. Um þessa hlið málsins, lagahliðina, sé ég ekki ástæðu til að fara fleiri orðum, því að ég vænti þess, að hæstv. ráðh. geti fallizt á það, að þetta geti orðið framkvæmt á þann hátt, að það skuli auglýst á hverju ári, að rjúpan sé friðuð eins og fyrirmæli Alþ. hljóða um.

En þá er það þessi kenning, að það eigi sér stað sveiflur, sem veiðin hafi ekki áhrif á. En ég tel hvergi neinar líkur fyrir því, að þessi 8–10 ára sveiflukenning geti staðizt. Við sveitakarlarnir erum að vísu ófróðari um nagdýravísindi en þeir, sem kenna sig við vísindin. En þeir hinir sömu verða að vara sig á því, að þótt við séum ekki fróðir á borð við þá um erlend nagdýr, þá höfum við reynsluna til að styðjast við, og ekki aðeins okkar reynslu, heldur og kynslóðanna. Nú vitum við, að rjúpunni fjölgar aðeins á einn veg. Hún eykur kyn sitt og það mjög ört. Hver rjúpa á venjulega 12 egg. Hins vegar fækkar rjúpunni af ýmsum orsökum. Hún er mjög ofsóttur fugl, því að það er vandalítið að veiða hana, þar eð hún er mjög gæf, eins og þeir vita, sem hafa dvalið í sveit. Mér er ljóst, að með hinum hvelllitlu byssum hafa menn nú síðari árin getað skotið heila hópa, án þess að þeir hafi flogið upp, og er það öðruvísi en áður var, er hinir háu hvellir fældu rjúpurnar á brott. Og það er hlægileg vitleysa að halda því fram, að það hefði engin áhrif á rjúpnastofninn, ef allar rjúpur yrðu skotnar, sem menn ná til, og ef hundruð manna þyrptust upp um fjöll og firnindi í þeim eina tilgangi að drepa allar sjáanlegar rjúpur. Það er engin afsökun fyrir að halda slíku fram, þótt nokkrir menn leyfi sér að kalla þetta vísindamennsku.

En rjúpan á fleiri óvini en manninn. Bæði refir og ránfuglar drepa hana í stórum stíl. En það er mál, sem við getum ekki haft nein áhrif á, önnur en þau að leitast við að eyða slíkum rándýrum. Að undanteknum veiðunum álít ég höfuðástæðuna fyrir því, hvernig farið hefur með rjúpuna hér á landi, þá, að í harðindunum 1918–20 hrundi hún niður úr bjargræðisskorti. Að minnsta kosti var það svo norðanlands, en hefur máske verið eitthvað skárra hér syðra. Ég er þeirrar skoðunar og hef þar talsvert við að styðjast, að íslenzki rjúpnastofninn hafi aldrei náð sér eftir þau harðindi, þótt hann hafi að vísu vaxið nokkuð. En til allrar hamingju hefur verið svo viturlega á málunum haldið, að rjúpan hefur verið friðuð hér á landi annað slagið, og hefur sú ráðstöfun bjargað henni.

Ég verð að segja, að ég finn engin rök í ályktun þeirri, sem okkur var send, er bendi til þess, að sveiflukenningin geti staðizt. Það ættu að vera einhverjar ástæður fyrir því, að rjúpunni fjölgaði og fækkaði með 10 ára millibili. Er það máske hugsanlegt, að hún verði ófrjó á 10 ára fresti? Ef því væri haldið fram, þá væri fenginn grundvöllur fyrir frekari umræðu um málið. En á þetta er ekki minnzt. Eða er máske um pest að ræða, sem gengur með vissu millibili? Að því hafa engin rök verið færð, enda ósennilegt, að sveitamenn hefðu ekki orðið varir við, ef um slíkt hefði verið að ræða. En ef svo væri, þá væri þar og grundvöllur, sem hægt væri að ræða málið á. Í þriðja lagi er hugsanlegt, og ég játa, að sumum hefur flogið sá möguleiki í hug, að rjúpan væri orðin farfugl, að hún færi og kæmi aftur með nokkurra ára millibili. Máske hefur hún þá farið til Grænlands, er hún hvarf eftir harðindin miklu. Að þessu hafa þó engin rök verið færð. Sú vísindamennska, sem svo er kölluð og beitt hefur verið í þessu máli, hefur ekki gefið neitt svar við framangreindum möguleikum og ekki tilfært neitt þessara atriða sér til styrktar. Ég finn engin rök sveiflukenningunni til staðfestingar, og mér þykir undarlegt, að menntmrh. skuli gleypa við henni. — Ég vænti þess svo, að hv. þm. láti þessa kenningu ekki snúa sér.