18.10.1950
Sameinað þing: 6. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 164 í D-deild Alþingistíðinda. (4014)

25. mál, friðun rjúpu

Viðskmrh. (Björn Ólafsson) :

Herra forseti. Ég vil benda hv. þm. A-Húnv. á það, að hér er ekkert hættumál á ferðinni eða mál, sem kynni að valda þjóðarbresti. Það, sem hér er um að ræða, er það, hvort halla beri sér að vísindunum eða brjóstvitinu. Hv. þm. A-Húnv. kveður sig ekki vilja hafa vísindi að nokkru í þessu máli, og ég deili ekki um það, hvort álit þeirra eða hans er rétt.

Það hefur komið í ljós við athugun erlendis, að fjöldi tegunda af hænsnaættinni hefur hagað sér svipað og rjúpan hér á landi. Hvort þarna er um að ræða pest eða eitthvert náttúrulögmál, skal ég láta ósagt. Þó hefur rannsókn leitt í ljós, að hérlendis væri um svipað lögmál að ræða og annars staðar. Það er vafalaust rétt, að rjúpan féll mjög í harðindunum 1918, en hins vegar efast ég um, að sú staðhæfing sé rétt, að rjúpnastofninn hafi ekki náð sér á þeim 30 árum, sem liðin eru síðan. Og ég tel ólíklegt, að harðindin 1918 eigi þátt í því, hvernig rjúpnastofninn hagar sér nú.

Annars er ástæðulaust að ræða þetta mál fram og aftur, og mér virðist liggja ljóst fyrir, hvort við eigum að reyna að fá úr því skorið á sem öruggastan hátt eða láta brjóstvitið ráða. Ég vildi láta vísindin skera þar úr og legg því til, að rjúpan verði ófriðuð næstu 3 árin, en það getur aldrei gert rjúpnastofninum neitt.