24.10.1950
Sameinað þing: 8. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 178 í D-deild Alþingistíðinda. (4035)

25. mál, friðun rjúpu

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég heyri sagt, að meiri hl. n. leggi mikið upp úr því, að ríkisstj. geri sér far um að virða vilja Alþingis. Ég virði nú reyndar vilja Alþingis mikils líka. En ég vil aðeins benda á, að ríkisstj. hefur hvað eftir annað virt vilja Alþingis að vettugi, og gæti ég nefnt dúsín mála því til sönnunar. En þetta var nú útúrdúr.

Það hefur verið bent á það, að mun meira sé af rjúpunni í haust en undanfarin haust. Að vísu er erfitt að dæma þetta nú á haustin, því að þá er rjúpan engan veginn staðbundinn fugl. En það er annað þessu til sönnunar. Þó að rjúpan sé ekki staðbundin á haustin, er hún mjög staðbundin um varptímann, þannig að hún verpir á sömu svæðum. Og ef nú í sumar verpa 12 rjúpur þar, sem í fyrra verptu 5, er það ljóst, að henni er að fjölga.

Allir, sem ferðazt hafa um varplönd rjúpunnar á vorin, kannast við það, að þá reynir hún að leiða athygli vegfarandans frá afkvæmunum með því að fljúga á undan komumanninum. Þannig flýgur hún einnig á undan bílum, sem aka gegnum varplönd hennar, og það eru dæmi þess, að rjúpur hafa flogið það nærri bíl, að þær hafi horfið sjónum þeirra, sem sitja í framsætinu, og bílstjórar hafa snarstanzað til þess að aka ekki yfir rjúpur á veginum. Með því að taka eftir þessu hef ég haft glöggt yfirlit yfir, hvað mikið væri af rjúpunni hverju sinni meðfram vegunum á Austurlandi. Og ég get lýst því yfir, að í vor var mun meira af rjúpu en undanfarið, og sömu sögu segja þeir, sem farið hafa um varplönd hennar s. l. vor. Að sömu niðurstöðu hafa þeir komizt, sem hafa það að venju að telja rjúpuhreiður, sem finnast í landareigninni á vorin, eins og gert er t. d. á einum bæ í Axarfirði.

En þegar hv. frsm. n. telur, að sveiflukenningin sé algerlega ný, þá fer hann rangt með; það er langt síðan hún kom fyrst fram. Og þegar hann vill yfirfæra hana á fleiri dýrategundir, svo sem fiska sjávarins, þá held ég að hann sé kominn fram með alveg ný vísindi. (Forseti: Má ég spyrja hv. þm., hvað hann ætlar að halda langa ræðu? Ég hef áhuga á, að málið verði afgr. á þessum fundi.) — Þar sem séð er, að rjúpunni hefur fjölgað undanfarið þrátt fyrir ný skotvopn og aukna skotfimi, tel ég rétt að sjá, hvort hún fylgi ekki sömu náttúrulögmálum og frændfuglar hennar á Norðurlöndum. Legg ég því til, að hún sé látin ófriðuð, svo að úr því fáist skorið.

Þegar um þetta mál var fjallað hér síðast, var ég á móti tillgr. Hins vegar var till. í heild einróma samþ. með 27 atkv., en 24 þm. voru fjarstaddir, svo að meiri hl. var mjög lítill, ég sat þá hjá.