22.11.1950
Sameinað þing: 17. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 186 í D-deild Alþingistíðinda. (4041)

85. mál, dagskrárfé útvarpsins

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Það er nú aðallega vegna ummæla hæstv. ráðh. í sambandi við þetta mál, sem ég vildi segja hér nokkur orð. Hann sagði hér áðan, að hann hefði lýst yfir við útvarpsráð, skildist mér, að ef hægt væri að spara á aukavinnu eitthvað, þá mætti nota það fé, sem sparaðist, til að auka dagskrárféð. Skildi ég þetta rétt? Ef svo er, skilst mér, að hæstv. ráðh. hafi bundið hendur fjvn. um að gera tilraun til að skera niður neitt af þessum útgjöldum. Mér þykir ákaflega leitt, ef hæstv. ráðh. hefur virkilega, án þess að ræða við fjvn., ákveðið, að svo framarlega sem hægt væri að spara á aukakostnaði við útvarpið, sem er um 300 þús. kr., þá sé því fé ráðstafað án vilja og vitundar fjvn. Og ég verð að segja, að ég veit ekki, til hvers fjvn. á að sitja dag og nótt yfir þessum málum, sem varða fjárl., og pæla gegnum öll gögn til þess að kynna sér þetta, et svo ætti gersamlega að binda hendur nefndarinnar — og það án þess að hún sé nokkuð látin vita um. Ég vænti, að hæstv. ráðh. hafi ekki bundið þetta mál svo, að hann ræði ekki við fjvn. áður en það nær fram að ganga.

Í sambandi við þetta vil ég benda hæstv. ráðh. á, að það er ekki aðeins þessi stofnun, útvarpið, sem greidd er aukavinna við. Landssíminn greiðir fyrir aukavinnu yfir 200 þús. kr. á ári. (Viðskmrh.: Það er stærri stofnun.) Og mér skilst, að sumir af þeim liðum sé umsamin aukavinna til ýmissa hæst launuðu embættismannanna við símann. Og ég vildi, að hæstv. ráðh. gerði einhverja samninga um það, að ef hægt væri að spara þar á aukavinnu, þá yrði því fé varið til einhvers annars.

Hins vegar get ég sagt hv. flm. þessarar þáltill., að það eru miklu fleiri stofnanir en þessar tvær. sem greitt hafa stórar fjárhæðir fyrir aukavinnu. Og fjöldamargir af þeim mönnum, sem við þær starfa, hafa komið til fjvn., til þess að ræða þetta atriði við hana, og hafa kvartað sáran undan því að þurfa að hafa um þetta núverandi kerfi og telja það stafa frá reglugerð, sem flokkur hv. flm. þessarar þáltill. ómögulega vildi afnema á þeim tíma, sem hann hafði aðstöðu til að breyta henni. Ég hef m. a. átt tal um þetta við forstjóra landssímans, og hann taldi nauðsyn á að breyta þessari reglugerð, til þess að koma á í þessum efnum hagkvæmari skipan. Og forstjóri veðurstofunnar hefur kvartað undan því við fjvn. og sagt, að ómögulegt væri að breyta þessu í sambandi við aukavinnuna, fyrr en reglugerðinni væri breytt þannig, að hægt væri að krefjast sanngjarnrar vinnu af mönnum, sem taka full laun, án þess að borga þeim yfirvinnu sem eftirvinnu og næturvinnu með stórfé. Ég veit einnig, að í þeirri stofnun, sem hv. 1. flm. starfar í, háskólanum, eru einnig ýmsir póstar, sem fullkomlega eru þess virði að vera athugaðir gaumgæfilega og gefa ekki síður tilefni til þess en það atriði, sem hann ræddi um hér. Margt í ríkisstofnunum hvílir miklu fremur á forustumönnum stofnananna en á ráðh. á hverjum tíma. Okkur er ljóst, eftir baráttu í öll þessi ár við þessa menn, að það er fyrst og fremst undir mönnunum komið, sem ráða í stofnununum, hvernig reksturinn er. Og í sumum stofnunum ríkir ekki þessi andi, að flest skuli teljast aukavinna.

Úr því að ég er staðinn upp, vil ég spyrja flm.: Liggur sú hugsun á bak við hjá flm., að ef dagskrárféð er aukið, skuli nota það til þess að bæta dagskrána, gera hana betur úr garði en nú? Eða liggur á bak við að auka laun þeirra, sem vinna við hana, þ. e. greiða meira fyrir sömu dagskrá og nú er? Ég vil gjarnan heyra, fyrir hvoru málinu hv. flm. eru að berjast.

Ekki er farið rétt með þegar sagt er, að niðurskurð sé verið að fremja á dagskránni. Samkvæmt fjárl. á yfirstandandi ári er dagskráin 1100 þús. kr., en skv. frv. er hún aðeins ein millj. kr. En þá eru fluttar á annan lið 160 þús. kr. til greiðslu fyrir höfundarrétt, sem var innifalið í upphæðinni á núgildandi fjárl. Svo að ef á að bera saman þessar tvær upphæðir, þá eru veittar nú 1160 þús. kr. í dagskrána á móti 1100 þús. kr. á yfirstandandi ári, svo að ekki hefur verið gengið á hlut dagskrárinnar á þann hátt, sem hv. flm. taldi í sinni ræðu.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða þetta frv. meir efnislega á þessu stigi. Mér þótti rétt að láta þessar aths. koma fram. Og ég endurtek, að ég harma, ef ráðh. gerir þannig samninga á bak við fjvn. meðan hún situr og er að reyna að vinna að því í samráði við ríkisstj. að ljúka afgreiðslu fjárl. og það á þann hátt, að ekki verði óhagstæðari jöfnuður en þegar frv. var sent til n.