22.11.1950
Sameinað þing: 17. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 191 í D-deild Alþingistíðinda. (4045)

85. mál, dagskrárfé útvarpsins

Viðskmrh. (Björn Ólafsson) :

Út af yfirvinnu- og aukavinnugreiðslu til útvarpsstjóra ætla ég að taka fram, að ég gerði fyrirspurn út af skrá frá útvarpinu til ráðuneytisins í sambandi við samningu fjárl., hvers vegna þessi aukavinna væri greidd. Og það var gefin sú skýring, að útvarpsstjóra hefði verið heimilað á stríðsárunum af þáverandi ráðh. að taka 1500 kr. fyrir sumt í starfi hans, sem þá gerðist, og að bréfið hefði verið stílað þannig, að hann skyldi halda þessari aukavinnu þangað til öðruvísi yrði ákveðið. Svo geri ég ráð fyrir, að þetta bréf hafi gleymzt. Þannig hefur þetta verið látið haldast þegjandi og hljóðalaust, þangað til farið var að rekast í þessu nú. En þannig er þessi 1500 kr. aukagreiðsla til komin.

Um eftirvinnu í stofnunum, sem hv. þm. Barð. var að tala um, má segja, að einmitt það, sem hann gat um síðast, liggur til grundvallar fyrir þessu öllu, að samkv. reglugerðum eiga starfsmenn stofnana heimting á launauppbótum. En meðan slíkum reglugerðum er ekki breytt, standa stofnanir — ekki sízt stofnanir eins og landssíminn, sem þarf að láta gera við símalínur og inna þetta og hitt af hendi á nótt sem degi, — berskjaldaðar fyrir því að greiða aukavinnu. Og ég hygg, að samkv. þessum reglugerðum fái þeir, sem hv. þm. kallaði hátt setta menn í stofnunum, sama rétt til að fá greidda aukavinnu eins og aðrir starfsmenn. Ef á að koma í veg fyrir þetta, sýnist mér því leiðin vera að breyta reglugerðum. En á meðan svona stendur hefur landssíminn tekið þá stefnu að semja fast við hvern starfsmann yfir árið fyrir aukavinnu. Og settur póst- og símamálastjóri fullyrti við mig í morgun, að þessi stefna þeirra hefði sparað landssímanum stórfé í aukavinnu.