22.11.1950
Sameinað þing: 17. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 191 í D-deild Alþingistíðinda. (4046)

85. mál, dagskrárfé útvarpsins

Flm. (Gylfi Þ. Gíslason) :

Herra forseti. Ég leyfi mér að benda á það nú í upphafi máls míns, að í till., sem fyrir liggur, er ekki farið fram á, að afnotagjöld ríkisútvarpsins hækki. Sú stefna, sem við flm. viljum marka í þessu máli, er í því fólgin að draga úr almennum rekstrarkostnaði útvarpsins, til þess að hægt sé að auka fjárveitingu til dagskrárinnar að óbreyttum tekjum útvarpsins. Mér hefur skilizt, að hæstv. menntmrh. hafi í aðalatriðum fallizt á þessa stefnu, þar sem hann hefur skýrt frá því, að hann hafi tilkynnt útvarpsstjóra, að ef hægt væri að spara á almennum rekstrarkostnaði stofnunarinnar, þá skyldi hann leggja til, að því fé yrði varið til þess að auka dagskrárefnið. Hitt sagði ég að væri algerlega augljóst, að það fé, sem er ætlað að verja til dagskrárinnar á næsta ári samkv. fjárl., ein millj. kr., er allt of lítið. Því hefur enginn treyst sér til að andmæla. Um það eru allir í útvarpsráði sammála og allir, sem þessu máli hafa kynnzt. Þessa upphæð þarf einhvern veginn að auka. Og það er stefna okkar að ganga úr skugga um það, hvort ekki sé hægt að gera það með því að draga úr rekstrarkostnaðinum. En sé það ekki hægt, verður að hækka afnotagjöldin, þótt ég taki undir það, að slíkt sé neyðarúrræði, og ætti að reyna að komast hjá því, ef unnt er. Þá andmælti hæstv. menntmrh. því, sem stendur í grg. till., að hlutdeild dagskrárinnar í heildartekjum útvarpsins hefði farið minnkandi undanfarið. Ég átti hér við yfirstandandi ár, og sé miðað við þá lækkun, sem hæstv. ráðh. hefur gert, þá er hlutur dagskrárinnar lægri en árin 1948 og 1949, enda kom það fram í tölum hæstv. ráðh. Mig furðaði satt að segja á því, þegar hæstv. ráðh. sagði, að hin almenna gagnrýni mín á rekstrarkostnað útvarpsins ætti ekki rétt á sér. (Viðskmrh.: Ég sagði það ekki.) Hvað sagði þá hæstv. ráðh.? Ég held mig hafa tekið rétt eftir þessu, og þannig skrifaði ég orð hans hjá mér, og ég verð að spyrja: Hvar er nú sparnaðarviðleitni hæstv. ráðh. og hæstv. ríkisstj. yfir höfuð? Í framsöguræðu minni áðan nefndi ég nokkur dæmi um rekstrarkostnað útvarpsins og skal nú bæta þar við. Árlegur innheimtukostnaður er 470 þús. kr. Það kostar sem sagt 470 þús. kr. að innheimta 3.5 millj. króna í afnotagjöldum, eða um það bil 13% af allri upphæðinni. Þó er verulegur hluti útvarpsnotenda hér í Reykjavík. Við þessa innheimtu vinna 14 manns. Telur hæstv. ráðh., að hér sé ekki ástæða til gagnrýni? Ríkisútvarpið hefur greitt til Stefs fyrir flutningsrétt, mestmegnis af erlendum tónverkum, 360 þús. kr. frá því, er Stef var stofnað í september 1947. Er þetta ekki atriði, sem ástæða er til að gagnrýna? Skýrt hefur verið frá því, að greiðslur fyrir aukavinnu hjá útvarpinu hafi numið 265 þús. kr. árið 1949. Skyldi ekki vera hægt að spara eitthvað á þessum lið? Aðalliðir dagskrárinnar eru, eins og kunnugt er, tónlist, erindi og leikrit. Árskostnaður við tónlistarflutning er 650 þús. kr., við erindaflutning 150 þús. kr. og við leikritaflutning 130 þús. kr., og þá mætti spyrja, fyrst 150 þús. kr. eru greiddar fyrir öll erindi, sem flutt eru yfir árið: Er ekki eðlilegt að gagnrýna það, að innheimta á 3.5 millj. skuli kosta 4–10, þús.? Ég sagði, að árlegur kostnaður við leikritaflutning væri 130 þús. kr. Það er svipuð upphæð og fer í bifreiðakostnað, ferðakostnað og risnu útvarpsins. Mundi ekki margur fagna því, ef flutt væru tvö leikrit fyrir eitt í hverri viku, en þessi kostnaður sparaður?

Eftir sem áður væri þó hægt að ferðast eitthvað og halda uppi sæmilegri risnu, og ég verð að segja, að mig undrar það mjög, ef hæstv. menntmrh. telur, að gagnrýni á þessa hluti eigi ekki rétt á sér. Þegar 150 þús. kr. eru greiddar fyrir öll erindi, sem flutt eru yfir árið, skyldi þá ekki mega komast af með minna en 165 þús. kr. fyrir að útvega þessi erindi, en kostnaður við skrifstofu dagskrár er 165 þús. kr.? Ég verð enn að segja, að ég vona, að ég hafi tekið skakkt eftir hjá hæstv. ráðh. og að hann hafi ekki viljað gera þennan málstað að sínum. Ég vona, að hann hafi ekki sagt, að gagnrýni mín eigi ekki rétt á sér, en hafi hann sagt það, þá spyr ég, hvort hann sé með því að taka upp almenna vörn fyrir fjárstjórn útvarpsins. Undanfarið hefur útvarpsstjóri orðið fyrir harðri gagnrýni af hálfu skrifstofustjóra útvarpsráðs m. a. fyrir fjárstjórn sína. Getur það verið, að ummæli hæstv. ráðh. megi skilja svo, að hann sé hér að taka málstað annars aðilans, áður en rannsókn hefur farið fram og niðurstöður eru fengnar?

Ég þarf að svara tveim atriðum í ræðu hv. þm. Barð. Hann spurði, hver væri tilætlun okkar flm. með þessari till., hvort það væri t. d. ætlunin að borga hærri laun eða að gera dagskrána fjölbreyttari. Þessu er fljótsvarað. Tilgangurinn er auðvitað sá að gera dagskrána fjölbreyttari, betri og vandaðri en verið hefur og hægt er að gera með aðeins einnar millj. króna framlagi. Þá sagði hv. þm. Barð., að ástæða væri til að athuga rekstur og fjárreiður fleiri stofnana en útvarpsins, og rétt er það. En hann nefndi háskólann sérstaklega og gat um aukagreiðslur til kennara þar. Hann vék að einu atriði, en þó ekki skýrt, svo að margir gætu fengið af þessum ummælum ámæli, ef málið væri ekki upplýst. Ég þóttist strax skilja, að hann ætti við aukagreiðslur til prófessors Nielsar Dungals, enda mun svo vera, en prófessor Dungal fær aukagreiðslu fyrir að kenna námsgrein, sem ekki heyrir undir hans embætti, sem sé réttarlæknisfræði. Ég skal geta þess, að ágreiningur hefur verið um það í háskólanum, hvort þessar aukagreiðslur ættu rétt á sér, og ég hygg, að hv. þm. Barð. sé það kunnugt, að rektor háskólans hefur talið, að þetta ætti ekki að greiða, svo að hér er ekki um að ræða neina óspilunarsemi hjá forráðamanni stofnunarinnar. Greiðslan mun hafa verið ákveðin af menntmrn. Þá gat hv. þm. Barð. þess, að 60 krónur væru greiddar á tímann í aukakennslu, og væri þetta miklum mun hærra en í nokkrum öðrum skóla. Það mun vera rétt, að við verkfræðideild er þetta greitt til aukakennara, sem eru viðurkenndir sérfræðingar og þurfa að búa sig mjög rækilega undir kennsluna, þar eð þeir kenna ekki það sama ár eftir ár, eins og kennarar við flesta aðra skóla. En til fastakennara háskólans er ekkert borgað fyrir aukakennslu, og held ég, að háskólinn sé þar alger undantekning frá öllum öðrum skólum í landinu. Ég hef annazt aukakennslu í lagadeild, og hefur aldrei hvarflað að mér að fara fram á aukagreiðslu fyrir það, og sama er að segja um prófessora í lagadeild, sem annast aukakennslu í viðskiptadeild, en þegar leitað er til manna, sem eru ekki fastir kennarar skólans, svo sem starfsmanna í stjórnarráðinu til að kenna þjóðarétt og löggiltra endurskoðenda til að kenna sína sérgrein, þá verður auðvitað að greiða þeim þá kennslu. Sé eitthvað hægt að spara í rekstri háskólans, þá skal ekki standa á mér að styðja viðleitni í þá átt.