22.11.1950
Sameinað þing: 17. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 194 í D-deild Alþingistíðinda. (4047)

85. mál, dagskrárfé útvarpsins

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson) :

Herra forseti. Ég skal ekki mikið lengja þessar umr., en mér virðist sem þær hafi að þessu aðeins snúizt um hlut þeirrar till., sem hér er til umr. Ég ætla ekki að svara fyrir hæstv. menntmrh., til þess er hann einfær, en sem áheyrandi að umr. verð ég að segja það út af ummælum hv. 1. flm., að hæstv. menntmrh. mun hafa sagt, að gagnrýni flm. á afskipti hæstv. ráðh. af dagskrá útvarpsins ætti ekki rétt á sér, en mun þar ekki hafa átt við hina almennu gagnrýni hans á fjárstjórn útvarpsins. En till., sem hér er til umr., er um skipun rannsóknarnefndar til að athuga fjármál og rekstur útvarpsins, og það hefði átt að vera aðalumræðuefnið, hvort ástæða væri til slíkrar rannsóknar. Virtist mér hv. 1. flm. gera nokkra grein fyrir því, að ástæða kynni að vera til þess. Það er t. d. ákaflega há hundraðstala af tekjum útvarpsins, sem fer í innheimtukostnað, og eins voru það fleiri liðir, sem hv. flm. benti á, sem virðast vera óeðlilega háir. Mér dettur ekki í hug að halda því fram, að hér sé um eitthvað refsivert að ræða, en það, sem fram hefur komið í umr., bendir til þess, að ástæða sé til að samþ. till. um að skipa sérstaka nefnd til að athuga rekstur útvarpsins. En þá er spurningin, hvort ekki væri allt eins eðlilegt, að það væri eftir stjórnarskránni sett til þess sérstök þingnefnd, eða hvort menn vilja, að ríkisstj. skipi menn til þessa starfa, en ég vildi vekja athygli á þessu, sem er aðalefni till., því að sú rannsókn, sem nú hefur verið fyrirskipuð, kemur ekki til með að fjalla um þessa hlið málsins nema að litlu leyti. Að vísu er eftir beiðni hæstv. menntmrh. almennt til orða tekið, og svo virðist sem rannsóknin gæti orðið allvíðtæk, en hvað sem segja má um útvarpið og fjáreyðslur hjá því, sem að vísu eru allmiklar, þá er það aðeins örlítill hluti þeirra, sem getur komið til mála, að varði við refsilög. Sú rannsókn, sem sakadómara hefur nú verið fyrirskipað að gera, kemur því til með að varða aðeins örlítið brot af þessu. Þess vegna er það, að ef mönnum virðast fjáreyðslur útvarpsins óeðlilegar, þá þarf að rannsaka það mál með öðrum hætti en nú er búið að efna til, og hvað sem menn annars kunna að álita um ásakanir skrifstofustjóra útvarpsráðs, þá þóttu till. hans um nýja skipun innheimtunnar athyglisverðar og líklegar til að geta sparað um ½ millj. króna, og það er atriði, sem ekki er hægt að horfa framhjá. En þó að menn fallizt á þessa skoðun hans, segir það ekkert um það, hvort menn viðurkenni aðra gagnrýni hans, fyrir svo utan þær ásakanir hans, sem varða refsivert athæfi. Umr. hafa hér að mestu snúizt um það, hvað miklu fé hafi verið varið og skuli verja í dagskrána, en um það er seinni hluti till., sem er nánast afleiðing, eða jafnvel aukaatriði í till. Aðalatriðið er, hvort Alþingi sjái ástæðu til að skipa rannsóknarnefnd, og tel ég það að ýmsu leyti eðlilegt, og verði þá annaðhvort farin sú leið, sem bent er á, í till., eða að skipuð verði þar til þingnefnd, eins og heimilt er samkv. stjórnarskránni.

Út af ummælum hv. form. fjvn. um aukaborgun til útvarpsstjóra, þá er þar, eins og hann tók fram, fremur um meginstefnu að ræða en það, hve upphæðin var há. Hæstv. menntmrh. gat þess, að þær aukagreiðslur hefðu byrjað á stríðsárunum vegna aukinna starfa og síðan gleymzt. Ég var nokkra mánuði í fyrra ráðh. útvarpsmála, og vissi ég þá ekkert um þessar greiðslur, enda er illmögulegt fyrir ráðh., sem situr stuttan tíma, að kynna sér allt slíkt rækilega, og eins er með núv. hæstv. menntmrh., sem aðeins hefur verið ráðh. þessara mála nokkra mánuði. En í sambandi við þetta vil ég vekja athygli á því, að í hinum almennu launalögum frá 1945, 37. gr., segir, að um leið og 1. þessi öðlist gildi, skuli niður falla greiðslur fyrir öll aukastörf, svo að þessi greiðsla hefði átt að hætta þegar við gildistöku þeirra laga, og mjög er hæpið, að forstjóri geti tekið við slíkri greiðslu án þess að láta yfirboðara sinn vita. Lagaákvæðið er þýðingarlaust, ef það tekur ekki til atvika sem þessa.