06.12.1950
Sameinað þing: 23. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 198 í D-deild Alþingistíðinda. (4055)

85. mál, dagskrárfé útvarpsins

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Á nú að fara að búa til nýja nefnd? — Sbr. till. á þskj. 137.

Ég hef litla trú á því, að það leiði til mikils árangurs í því að spara. Það var hér sett á stofn sparnaðarnefnd fyrir skömmu, og var töluverðu skilað af álitsgerðum, en framkvæmdin var lítil til sparnaðar í sambandi við till. nefndarinnar. — Ég tel þó ástæðu til að rannsaka rekstur ríkisstofnana, en ég hygg, að ríkisstj. eigi að vinna að því sjálf, með einhverri aðstoð þá, ef hún telur þess þörf. Ef hins vegar á að skipa þriggja manna nefnd, finnst mér skynsamlegri till. frá hv. minni hl. allshn.

Ég er á móti því að fyrirskipa ríkisstj. að skipa nýja nefnd, og í trausti þess, að ríkisstj. framkvæmi þetta sjálf, leyfi ég mér að leggja til, að till. verði vísað til ríkisstj.