06.12.1950
Sameinað þing: 23. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 198 í D-deild Alþingistíðinda. (4057)

85. mál, dagskrárfé útvarpsins

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir orð hæstv. landbrh., að Alþingi verði að gæta að sér að taka ekki einstakar stofnanir út, það er með því verið að fella þann dóm, að það sé fyrst og fremst sú stofnun, sem þurfi að taka til rannsóknar, og áður en slíkur dómur er kveðinn upp, þarf að taka til athugunar, hvort ekki sé víðar meiri ástæða til slíkrar rannsóknar en þar. Ég ætla ekki á þessu stigi málsins að ræða frekar um ríkisútvarpið, en mín persónulega skoðun er, að það sé alveg merkilegt, hve vel hefur tekizt að láta þá stofnun skila ágóða, en hins vegar stendur þar auðvitað margt til bóta. Og vilji menn tryggja fé til dagskrár útvarpsins, þá er ekki nóg að setja nefnd og brynja hana í pólitískum klíkuskap, þannig að hún velji menn einungis eftir pólitískum skoðunum þeirra, en ekki þá menn, sem þjóðin helzt vill hlusta á. Nei, það eru oftast valdir menn, sem flytja leiðinlega fyrirlestra um leiðinlegt efni, sem enginn nennir að hlusta á. En það hefur komið fram álit frá minni hl. allshn., að svo framarlega sem skipuð verði rannsókn í einstökum stofnunum, þá verði hún jafnframt látin ganga yfir allar ríkisstofnanir, og ég held, að það væri engin vanþörf á að láta slíka rannsókn fara fram á sumum ríkisstofnunum, og ég ætla að minnast á eina sérstaka stofnun, af því að það hefur verið kveðinn upp svo ákveðinn dómur um hana af þeim manni, sem bezt ætti til að þekkja, formanni fjvn. Þessi stofnun er sú dýrasta stofnun, sem ríkið hefur nokkurn tíma sett, þ. e. fjárhagsráð.

Fjárhagsráð er að því leyti ólík stofnun ríkisútvarpinu og landssímanum, að þar eru ekki sérstakir embættismenn, sem settir eru ævilangt, heldur n., sem sett er af ríkisstjórninni, og þegar l. um fjárhagsráð voru sett, voru þau ákvæði tilskilin, að ríkisstj. gæti skipt um menn eftir vild sinni. Þetta fjárhagsráð, sem kostar yfir 4 millj., á að vinna samkvæmt l. sem þýðingarmesta stofnun þjóðarinnar í viðskipta- og fjármálum. Og það eru lagðir skattar á þjóðina til að standa undir þessu bákni, sem á að halda uppi sparnaði og skynsamlegri fjármálameðferð. Þetta ráð hefur átt að gera áætlanir og útreikninga um innflutning og útflutning og er ætlað að vera leiðarljós Alþingis um afgreiðslu fjárl. Þessi áætlun og úthlutun gjaldeyrisins eftir óhlutdrægum og réttlátum reglum hefur verið það mark, sem fjárhagsráði var sett af Alþingi. Nú hefur þetta ráð setið í 3 ár, og nú hefur verið kveðinn upp yfir því sá dómur af þeim manni, sem bezt ætti til að þekkja af þeim mönnum, sem að því stóðu, og sem bezta aðstöðu ætti að hafa til að vita, um hvað hann er að tala. Hv. þm. Barð., form. fjvn., sá maður, sem af stjórnarflokkunum nýtur mests trausts í fjármálum og er valinn form. í þýðingarmestu n. þingsins, lýsti því yfir í gær, að þær áætlanir, sem fjárhagsráð sendi frá sér, séu sama sem marklaust plagg, og hann heldur áfram: „Guði sé lof, að við fáum engar áætlanir frá þessari stofnun.“ Með öðrum orðum, allt það, sem þessi stofnun sendir frá sér, er ekki annað en markleysa, sem enginn tekur mark á, ekki einu sinni þeir menn, sem mests trausts njóta hjá hæstv. ríkisstjórn. Hvað skal segja um starfsemi ríkisstofnunar sem þessarar? Er ekki þörf á að láta rannsaka starfsemi þessa ráðs, sem er svo marklaust, að forustumaður Alþingis í fjármálum segir: „Guði sé lof, að við fáum engar áætlanir frá þessari stofnun?“ Með öðrum orðum, það lítur út fyrir, að þarna séu menn að leika sér að því að eyða 4 millj. í það að semja till., sem enga þýðingu hafa fyrir þjóðina, og sjálfur þm. Barð. sagði orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: „Mig gat aldrei dreymt um, að það yrði svona slæmt.“ Ráð, sem kostar 4 millj., sem hefur velferð fjölda manna í höndum sér, en er þannig, að hv. þm. Barð., form. fjvn., segir: „Mig gat aldrei dreymt um, að það yrði svona slæmt.“ Það hefur margt verið sagt um ríkisútvarpið, en svona dómur hefur aldrei verið kveðinn upp um það. En það er ekki nóg með það. Form. fjvn., ein af máttarstoðum ríkisstj., maður, sem ætlar henni ekkert nema gott í starfi hennar fyrir heill almennings, sem þykist viss um góðan vilja hennar til að afstýra því versta í fari þess, hann segir: „Ríkisstjórnin hefur bókstaflega ekkert ráðið við fjárhagsráð.“ Með öðrum orðum, það er ríkisstofnun, sem er svo slæm, að hv. þm. Barð. gat ekki grunað, að hún væri svona slæm, og ríkisstj. hefur reynt að lagfæra hana, en hún hefur ekkert ráðið við hana, — ríkisstj. hefur bókstaflega gefizt upp, fjárhagsráð er bara eins og ótemja, sem gengur lausbeizluð. Ég held, að ef Alþingi vill fara að láta rannsóknir fara fram á rekstri ríkisstofnana, þá væri nú aldeilis ástæða til að koma hér til hjálpar, þegar um er að ræða þá stofnun, sem ríkisstj. ræður ekkert við, en hefur þó rétt til að setja alla af, þar sem ekki er um að ræða fasta embættismenn. Ég held, að þarna væri nú ástæða til fyrir Alþingi að hlaupa undir bagga með ríkisstj., þegar þar við bætist svo, að um er að ræða stofnun, sem ríkisstj. ræður ekkert við. Ég held því, þegar þarna er um að ræða langdýrustu stofnun þjóðarinnar, sem er svo dýr, að hæstv. fjmrh. kinokar sér við að setja hana inn á fjárl., heldur ætlar að geyma það þangað til á milli 2. og 3. umr. að sleppa þessari ótemju hér inn í þingið, þá held ég, að þarna væri nú aldeilis ástæða til að koma til hjálpar. Þetta var sem sé annar höfuðþátturinn í starfi þessarar langdýrustu stofnunar þjóðarinnar, og hann var skv. ummælum hv. þm. Barð. markleysa. En hinn, hver er hann? Jú, það er úthlutun gjaldeyrisins, skipulagning þjóðarteknanna, að hún hafi nóg af öllum nauðsynjum. Og hvernig hefur svo þessi úthlutun gengið, sem á að fylgja réttlætinu, sem á að sjá um, að ekki sé gengið á rétt neytendanna, þar sem hagsmunir þjóðarinnar eiga að sitja í fyrirrúmi? Hvernig háttar til þar? Jú, hv. þm. Barð., form. fjvn., hefur upplýst það fyrir okkur, að það hafi setið og samið um það eftir pólitískum línum, hverjir eigi að fá gjaldeyrinn. Hann þekkir, til hvers fjárhagsráð er sett, og fáir hafa lagt á sig meira starf til að fá innsýn í málefni þess, hann veit, eftir hvaða reglum úthlutun gjaldeyrisins fer fram, og hann hefur þann stóra kost að vera ekki myrkur í máli, hann hlífir ekki flokksbræðrum sínum frekar en öðrum, þegar hann veit, að hann fer með rétt mál. Því er það opinbert leyndarmál, ef leyndarmál skyldi kalla, að gjaldeyrinum er úthlutað eftir sérstökum samningi milli stjórnarflokkanna. Framsókn lagði sinn stóra skerf til baráttunnar fyrir rétti neytendanna, þegar svo Framsókn samdi við Sjálfstfl. um ríkisstjórn, er ekki minnzt á þetta atriði. Vilhjálmur Þór sagði bara: „Við Björn skulum sjá um þetta.“ Það er því vitanlegt, að það var þegar í upphafi um það samið milli þeirra Björns Ólafssonar og Vilhjálms Þór, eins voldugasta mannsins innan Framsfl., hvaða höfuðlínum skyldi fylgt í þessu efni; þessu var þegar í upphafi slegið föstu, og síðan hefur fjárhagsráð setið og samið um það eftir pólitískum línum, hverjir skuli hljóta gjaldeyrinn. Með öðrum orðum, réttur neytendanna var aðeins falleg leiktjöld, en að tjaldabaki var um það samið, hverjir skyldu fá gjaldeyrinn. Og eftir hvaða reglum fara þessar veitingar svo fram? Í öllu falli ekki eftir réttlætinu, heldur eftir pólitískum línum í þeim einstöku úthlutunarnefndum stjórnmálaflokkanna. Í stuttu máli, annar þátturinn í aðgerðum fjárhagsráðs var markleysa, en hinn var spilling. Og svo rammt kveður að þessu, að sjálfur form. fjvn. upplýsir þessa hluti eins og nokkuð, sem liggi í augum uppi, og svo rammt slær samvizkan þá menn, sem að þessu standa, að fjmrh. kinokar sér við að setja þetta ráð inn á fjárl., fyrr en í síðustu lög. Og svo á að fara að taka hinar og þessar menningarstofnanir út til rannsóknar af hálfu ríkisvaldsins, en þessi dýrasta stofnun þjóðarinnar, fjárhagsráð, á að sleppa, ein dýrasta stofnun þjóðarinnar á að halda áfram að vera óbeizluð, engin rannsókn á þar að fara fram, hún á ekki að vera með. Ég held, að ef á að fara að taka einhvern eldhúsdag um starfsemi ríkisstofnana, þá sé bezt að byrja ofan frá og taka þær dýrustu fyrst. Ég er ekki með þessu að segja, að ekki séu fleiri ríkisstofnanir, sem þurfi rannsóknar við. En ef á að taka eina frá, en snerta ekki við þeirri stofnun, sem að dómi form. fjvn. er svo slæm, að hann hafði aldrei dreymt um slíkt, ef á að taka eina frá, en skilja þessa stofnun eftir, þá er verið að innleiða ranglæti; ef til vill er það sprottið af einhverju pólitísku hatri eða einhverju slíku. Í öllu falli er það alveg rétt, að allir alþm. verða að gera sér það alveg ljóst, hvaða ábyrgð felst í því að taka þannig eina stofnun út úr. Ég álít þess vegna, svo framarlega sem á að skipa nokkra n. í sambandi við þetta mál, sem ég hef satt að segja hverfandi litla trú á að fenginni reynslu, að það sé tvímælalaust réttlætismál, að n. fái það verkefni að athuga fjármál og rekstur ríkisstofnana yfirleitt.