13.12.1950
Sameinað þing: 25. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 210 í D-deild Alþingistíðinda. (4066)

85. mál, dagskrárfé útvarpsins

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Ég átti ekki kost á að vera viðstaddur fyrri umr. þessa máls. En af því ég á sæti í útvarpsráði, leyfi ég mér að gera hér nokkrar aths.

Vil ég þá fyrst segja það, að ég er samþykkur því atriði till. að athuga, hvort ekki væri hægt að verja meiru af fé útvarpsins í útvarpsefni en nú er gert. Það er og hefur lengi verið mín skoðun, að til útvarpsefnis sé varið allt of litlu af heildartekjunum. Er það meginorsök þess, að almenningi finnst mörgu vera ábótavant um dagskrárefni. Ég vildi skýra frá því, hver hefur verið heildardagskrárkostnaður s. l. 4 ár :

1947 ............. 687559 kr.

1948 ............. 947838 —

1949 ............ 1370963 —

og mun verða fyrir árið 1950 1.1 millj. Í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir 1 millj. kr. til dagskrárfjárins. Menntmrh. hefur flutt brtt. um, að dagskrárféð hækki um 200 þús. kr., og er ástæða fyrir útvarpið að fagna þeirri till. Ég hef oft rætt um, að útvarpið hefði of lítið fé til umráða til dagskrárefnis, og oft er leitað til fyrirlesara og listamanna að gera eitthvað, en ekki eru tök á að borga þeim nógu vel. Útvarpsráð verður að halda að sér höndum með að taka upp þætti, sem það hefur áhuga á.

Það er athugavert, að brtt. menntmrh. byggist á því, að einn tekjuliður útvarpsins verði hækkaður, en ekki komið til ríkisins og beðið um það. Ég álít, að bezt sé að hækka dagskrárféð frá því, sem nú er. Ég hygg, að til þess að gera dagskrána vel úr garði og veita hlustendum sæmilega dagskrá, þyrfti útvarpið um 1800 þús. kr. á ári.

Það hlýtur að vera ljóst, að útvarpið á að leggja kapp á, að sem stærstur hluti tekna þess gangi til dagskrárinnar. Útvarpið er eitt áhrifamesta menningartæki þjóðarinnar, sem veitir fjölbreytta skemmtun og fræðslu. Ef sparað er til dagskrárinnar, bitnar það ekki aðeins á þeim, sem eyða mestu fé í skemmtanir, heldur þeim, sem heima sitja og hlusta á útvarpið. Það er aldrei meiri þörf en á erfiðum tímum, að vandað sé til dagskrár útvarpsins. Ég vænti, að hv. þm. séu sammála því.

Um till. að öðru leyti vil ég segja það, að ég er ekki hrifinn af skipun nýrra nefnda; við göngum of langt í því að trúa á nefndir. Ég tel óþarft að setja sérstaka nefnd til þess að athuga fjárreiður útvarpsins, en er fylgjandi ýtarlegri athugun á fjárreiðunum og jafnframt að athugað sé, hvort ekki sé unnt að verja meira fé til dagskrár og þjónustu við hlustendur. Ég vakti athygli á þessu fyrir 3 árum, og æðsti ráðamaður stofnunarinnar rökstuddi réttmæti þeirrar röksemdafærslu. Mig stingur í augu sá mikli munur, sem er á framlagi til útvarpsefnis og framkvæmdastjórnar útvarpsins. Ríkisstj. ætti að eiga þess kost að ræða þetta, án þess að ný nefnd sé skipuð í málinu. Ég er fylgjandi því, að athugun fari fram, en læt afskiptalaust, á hvern hátt hún fer fram. Kjarni málsins er, að útvarpið þarf að fá meira fé til þessara hluta.