13.12.1950
Sameinað þing: 25. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 211 í D-deild Alþingistíðinda. (4067)

85. mál, dagskrárfé útvarpsins

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Þm. Ísaf. lét orð falla út af till. minni og hélt því fram, að ég hefði ekki lesið framkomna till. Víst hef ég lesið hana. Tillagan er um að fela ríkisstj. að skipa þriggja manna nefnd til að athuga fjárreiður útvarpsins. Báðir nefndarhlutar eru sammála um, að ríkisstj. skipi þessa nefnd, en ég tel ástæðulaust að gefa ríkisstj. fyrirskipun um að skipa þessa nefnd. Hv. 2. landsk. telur, að lítill munur sé á, hvort ríkisstj. skipi nefndina eða sjái um málið á annan hátt. Ég hef áður gert grein fyrir því, að ég hef litla trú á nefndarskipunum. Þó ástæða sé til að rannsaka rekstur útvarpsins, þá er einnig ástæða til að athuga rekstur annarra ríkisfyrirtækja, ef á að koma á sparnaði í rekstri ríkisstofnana yfirleitt. Ef málinu er vísað til ríkisstj., hefur hún á valdi sínu að fela sínum starfsmönnum þessa athugun. Ég hefði betur getað skilið afstöðu nefndarinnar, ef hún hefði lagt til, að Alþingi kysi þriggja manna nefnd til að athuga málið.