18.10.1950
Sameinað þing: 6. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 217 í D-deild Alþingistíðinda. (4075)

15. mál, atvinnuaukning í kaupstöðun og kauptúnum

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í sambandi við þessa þáltill., sem flutt er af 6 þm. Alþfl. á þskj. 15. Hv. 1. flm., hv. 4. þm. Reykv., hefur nú mælt fyrir till., sem að sjálfsögðu fer til nefndar og verður athuguð þar, og verður þá um leið athugað, hvaða leiðir verði farnar í þessu máli.

Hv. 1. flm. lét orð falla um það, að ríkisstj. hefði verið aðgerðalítil í þessum málum, og virtist mér hann hafa búizt við, að þegar væri búið að leggja fram till. á Alþ. varðandi þessi mál. Það er vitað, að á vissum stöðum munu vera vandræði framundan, og verður þó að segja, að það hafa ekki komið köll frá mjög mörgum stöðum til félmrn., sem mundi þó vera hinn rétti vettvangur að snúa sér til í þessum efnum. Ég neita ekki, að þau hafi komið frá einstöku stöðum, en almennt hefur það ekki verið, og skal ég taka það fram sem mína skoðun, að það getur nú dálítið orkað tvímælis að beinlínis bjóða sveitarfélögum fyrir fram uppá ákveðna aðstoð, það sé eðlilegra, að beiðni komi frá þeim, þegar um sérstaka erfiðleika er að ræða hjá þeim. Það er náttúrlega sjálfsagt að taka allt slíkt til athugunar, og ég vil að sjálfsögðu lofa því fyrir hönd ríkisstj., að hún athugi þetta mál með þeirri n., sem fær það til meðferðar.

Hv. 1. flm. sagði eitthvað á þá lund, að þegar gengisbreytingin hefði verið knúin fram, eins og hann orðaði það, þá hefði það að umsögn ríkisstj. verið tilgangur þessarar löggjafar að tryggja öllum næga atvinnu. Ég held, að þetta sé nú ekki alveg rétt með farið hjá þeim þm., sem viðhafði þessi ummæli, en hitt er alveg rétt, að ástandið í atvinnumálum var þá þannig, að hefði ekki sú ráðstöfun verið gerð, hefði skapazt þannig ástand í þessu landi, að ein fimm manna nefnd eins og þessi hefði lítið gert, það er áreiðanlegt, og þetta veit ég, að hv. 4. þm. Reykv. skilur ákaflega vel, enda mun hann hafa skilið þá vel, að ekki var um nein önnur úrræði að ræða en fara þessa leið. Hitt er allt annað mál, að það hafa steðjað að erfiðleikar í atvinnumálunum varðandi aflabrögð og markaðsmöguleika, sem hafa gert það að verkum, að það, sem vannst með gengisbreytingunni til hagsbóta fyrir aðalatvinnuvegi landsins, hefur að sumu leyti vegið salt, en vitanlega hefðu erfiðleikarnir orðið margfalt meiri, ef þessar ráðstafanir hefðu ekki verið gerðar. Þess vegna undrast ég nú ummæli hv. 4. þm. Reykv., því að ég hygg, að hann hafi verið sá af stjórnarandstöðunni, sem skildi bezt, hve nauðsynlegt var að gera þessar ráðstafanir einmitt í fyrra.

Hv. þm. fór að blanda hér inn í öðru máli að ástæðulausu, þ. e. að til stæði að leggja niður vinnumiðlunarskrifstofuna, og vitnaði þar í ummæli í ræðu hæstv. fjmrh. við 1. umr. fjárl. fyrir fáum dögum. Ég tel ekki rétt að draga það mál inn í þessar umr., og hv. þm. veit ekki, hvernig hugsað er að hafa þetta skipulag framvegis. Hitt viðurkenndi þm., að víða hefðu þessi lög að undanförnu ekki komið að neinn gagni, eða að ekki hefði orðið verulegt gagn að þeim. Hins vegar lagði hann áherzlu á það, að með vaxandi erfiðleikum í atvinnumálunum gæti svo farið, að meiri þörf yrði fyrir slíkt framvegis. Ég vil benda hv. þm. á að láta umr. um þetta mál bíða, því að hann veit ekkert, hvernig það skipulag er hugsað.

Það voru sérstaklega þessi atriði, sem ég vildi leyfa mér að taka fram í sambandi við þetta mál. Hv. þm. nefndi það einnig, að ekki hefðu verið látin koma til framkvæmda ákvæði um atvinnuleysisstyrk í tryggingal., sem mér skildist á hv. 1. flm., að misráðið hefði verið. Ég skal ekkert fara út í það mál á þessu stigi, en ég skal taka það greinilega fram, að ég álít, að grípa verði til flestra ráða annarra í þjóðfélaginu, áður en gengið sé inn á þá braut. Og mig uggir það, að ýmislegt mundi valda svo miklum erfiðleikum einmitt í sambandi við almannatryggingal. og þá ekki sízt aðstoð við ýmis sveitarfélög og greiðslur til þeirra, og getur verið fleira gott en að færa verkefni þeirra mikið út á ný svið.

Ég vil ekki hafa þessi orð fleiri og læt því máli mínu lokið.