12.12.1950
Neðri deild: 37. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 123 í B-deild Alþingistíðinda. (408)

24. mál, aðstoð til bænda á óþurrkasvæðunum

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Ég sé, að hér hefur verið tekin á dagskrá till. mín, sem felld var við 2. umr., og lítur út fyrir, að hv. þm. Mýr. hafi haldið, að hún væri enn til umr., þótt svo sé ekki. Ég ætla ekki að svara hv. þm. Mýr. nema að litlu leyti. Hann varð fyrir því óhappi að láta fjúka hér á Alþingi athugasemd, sem mér kom á óvart, því að hún lýsir ekki hans rétta innræti, því að hann er kunnur að mannkostum og öllu góðu. Ég virði ræðu hans til vorkunnar, en ég vil geta þess, að þegar mest er rætt um meting milli landbúnaðar og sjávarútvegs, þá mætti segja, að aðstoðin vegna aflabrests á síldveiðum og framlögin vegna sauðfjárveikivarna væru sambærileg. Raunar er aðstoðin við síldveiðiflotann aðeins lítill hluti af því fé, sem farið hefur til sauðfjárveikivarna, og tel ég það fé ekki eftir, þótt margt af því muni hafa farið forgörðum og margt í tilraunaskyni. Á síðastliðnum áramótum nam heildarframlag til sauðfjárveikivarna 34–36 millj. kr., og veit ég ekki, að þetta sé talið til skuldar hjá þeim, sem fengið hafa. Á sama tíma nam aðstoðin vegna aflabrests á síldveiðum 18 millj. kr., og það er enn talið til skuldar, og reynist erfitt að fá hæstv. ríkisstj. til að gefa það eftir. — Hv. þm. Mýr. talaði hér um andstæðinga þessa frv., og veit ég ekki, hverjir það eru, en hafi hann þar átt við mig, þá vil ég biðja hann að benda á eitthvert orð, sem ég hef látið falla í þá átt, að ég væri andvígur málinu. Ég hef einmitt haldið því fram, að þessi aðstoð væri bæði drengileg og nauðsynleg. Ég benti hins vegar á í þessu sambandi, að víða væri atvinnuleysi, sem úr þyrfti að bæta, og vissi ég ekki, að það ætti að vera þessu frv, til trafala, þótt reynt yrði að bæta úr neyð annarra manna samtímis.

Hv. þm. Mýr. talaði um það, að ef bændur hefðu þurft að skera niður, þá hefðu þeir getað borðað kjötsúpu upp á hvern dag í vetur og jafnvel fram á sumar. Ég ímynda mér, að margir atvinnuleysingjar, sem hvergi fá neitt að gera, þættust hafa góðan kost, ef þeir hefðu kjötsúpu á borðinu daglega, og segi ég þetta ekki af því, að ég álíti eitthvað æskilegt, að bændur séu neyddir til niðurskurðar, heldur styð ég það, að unnið sé að því að koma í veg fyrir slíka ógæfu. — Hv. þm. Mýr. sagði enn fremur, að ef þeir nú yrðu að skera niður, þá mundu þeir jafnvel á næsta ári komast á framfæri annarra. Ég er nú ekki viss um, að þeir gætu ekki unnið fyrir sér á annan hátt, en eigi að síður hef ég lýst fylgi mínu við þá viðleitni að koma í veg fyrir, að þeir flosni upp vegna óþurrkanna, en þegar talað er um, að það sé sárt að lenda á annarra framfæri, þá er það ekki síður sárt fyrir það fólk, sem nú er atvinnulaust, að lenda á framfæri annarra, en til þess að koma í veg fyrir það stefndi brtt. mín, sem felld var við 2. umr. Hún var ekki um óarðbæran atvinnurekstur, heldur til þess að koma útgerðinni af stað, sem er sem stendur stöðvuð vegna sjóveða. — Hv þm. Mýr. seildist svo langt til að koma óorði á Ísfirðinga, að hann sagði, að þeir hefðu ekki notað togarann í allt sumar. (BA: Mikinn hluta sumars.) Hvað kallar hv. þm. sumar? Ég veit ekki betur en Ísborg hafi verið á síldveiðum í sumar allt fram í september, og svo leyfir hv. þm. sér að fullyrða, að togarinn hafi ekki verið notaður mikinn hluta sumars. Ég skal ekki deila frekar við hv. þm. Mýr. Ég virði honum til vorkunnar, að hann viðhafði ummæli, sem eru langt frá því að lýsa hans rétta innræti, og ætti hann að taka ummæli sín aftur. Og ekki þurfti hann mín vegna að hafa þau orð, sem hann gerði, því að ég hef aldrei ætlað honum svo illt, að hann vildi skera atvinnuleysingja á Íslandi.

Ég mun ekki flytja frekari brtt. við þetta frv., en vil nú freista þess að fara aðra leið, ef verða mætti til að bæta úr því hörmulega ástandi í atvinnumálum ýmissa staða, sem ég hef margoft bent á. En ég vil nú leyfa mér að spyrja hæstv. forsrh., hvort hann mundi ekki fáanlegur til þess, í samráði við þm. þeirra kjördæma, þar sem atvinnuleysið er sýnilega mest, og í samráði við viðkomandi sveitarstjórnir, að láta fara fram athugun þessara mála, og þá væntanlega að þeirri athugun lokinni að hafa viðræður við þm. kjördæmanna og viðkomandi sveitarstjórnir um það, hvernig úr hinu alvarlega ástandi megi bæta. Ef ég fengi jákvæð svör við þessari málaleitan, mundi ég ekki flytja frekari brtt. við frv., meðfram af því, að sýnt er, að þær muni ekki hafa meirihlutafylgi að fagna hér í hv. d., en í staðinn vil ég reyna þessa síðari leið, ef verða mætti til þess að fá fram jákvæðar aðgerðir af hálfu hæstv. ríkisstj.