29.11.1950
Sameinað þing: 19. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 220 í D-deild Alþingistíðinda. (4080)

15. mál, atvinnuaukning í kaupstöðun og kauptúnum

Frsm. meiri hl. (Jörundur Brynjólfsson):

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fara mörgum orðum um mál þetta, sem hér liggur fyrir; það koma fram í áliti meiri hl. allshn. þær ástæður, sem valda því, að meiri hl. kaus að afgreiða málið með rökst. dagskrá. Hæstv. ríkisstj. hafði málið til athugunar og setti sérstaka menn til að athuga atvinnuástand og atvinnuhorfur víðs vegar um land. Ég held, að þetta geti ekki orðið eða komið að gagni, nema með samstarfi við forráðamenn kauptúna og bæja sem hafa mesta þekkingu í þessum efnum. Í umr. þeim, sem hér urðu, þegar mál þetta var flutt, kom einnig fram frá ríkisstj., að hún mundi halda áfram athugunum í þessum efnum til að geta hafizt handa um liðveizlu þar, sem þess væri þörf. Og þó að haldið verði áfram athugunum í þessum efnum, þá verður að fela það sérstökum mönnum, sem ráðuneytið telur, að hafi mesta kunnugleika og þekkingu, og hlýtur sú athugun að fara fram í samráði og samvinnu við forráðamenn kaupstaðanna og kauptúnanna. Ef einhvers staðar þarf svo sérstaks liðsinnis, þá verður slíkt varla gert með öðru móti en hið opinbera hlutist til um það. Ég held því eftir eðli þessa máls, að því sé bezt borgið með því, að sömu mennirnir hafi þetta með höndum og skipaðir voru af ráðuneytinu, og öruggast, að sú tilhögun sé höfð. Þetta skilst mér, að sé höfuðatriðið í meðferð þessa máls. Ég hef ekki trú á, og mæli þar einnig fyrir hönd meiri hl. allshn., að þetta geti gengið hagkvæmara fyrir á annan hátt. Í áliti því, sem liggur fyrir, er gert ráð fyrir, að ríkisstj. skipi þessa menn, en ætlazt er til, að A. S. Í. tilnefni tvo menn og Vinnuveitendasamband Íslands tvo og einn er skipaður af ráðuneytinu án tilnefningar. Ég efast ekki um, að þessir aðilar mundu vanda val þessara manna, en að þeir hefðu meiri kunnugleika í þessum efnum en menn þeir, sem ráðuneytið hefur látið vinna að þessum málum, því hef ég ekki trú á, og auk þess er opin leið fyrir þá aðila, sem að þessum athugunum vinna, að leita til Alþýðusambandsins og Vinnuveitendasambandsins til að heyra tillögur þeirra og álit. Það er því aðalatriðið, að vel takist til um það, sem gera þarf, og ég held, að því sé ekki síður borgið með þeirri tilhögun, sem meiri hl. allshn. leggur til á þskj. 168. — Ég sé svo ekki þörf á að taka fleira fram í þessu efni.