29.11.1950
Sameinað þing: 19. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 225 í D-deild Alþingistíðinda. (4083)

15. mál, atvinnuaukning í kaupstöðun og kauptúnum

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að atvinnuástand hefur á þessu hausti verið mjög erfitt í kaupstöðum og kauptúnum. Aflabrestur á síldveiðum í 6. skiptið í röð hefur haft mjög örlagaríkar afleiðingar fyrir almenning í þessum byggðarlögum, en því miður er þetta svo, að þetta ástand er ekkert einsdæmi, því að þannig hefur það einnig verið undanfarin haust. Og það er ekki ofmælt, að 2–3 síðustu árin hefur verið mjög þröngt fyrir dyrum hjá þessu sama fólki, sem nú á erfiðast, og því erfiðara sem þetta er 6. árið í röð, sem síldin bregzt. Það er út af fyrir sig góðra gjalda vert, að till. skuli koma fram um það, að hér þurfi aðstoð að koma til, en það vekur þó athygli manna, að undanfarin haust, þegar ástandið hefur verið sízt betra en nú, þá hafa engar till. hliðstæðar þessari komið fram. Þá hafa engar till. verið fluttar hér á Alþingi hliðstæðar þessari. Þá hefur ekki verið rætt mikið um það, hvernig bæta mætti afkomu fólksins í þessum byggðarlögum. Og þó staðhæfi ég um þann landshluta, þar sem ég er kunnugastur, eða við Ísafjarðardjúp, að atvinnuástandið þar hefur ekki verið verra á þessu hausti en undanfarin haust. Og það er ekki rétt, sem hér hefur verið upplýst af þessum hv. þm., að bókstaflega öll útgerð væri stöðvuð og hraðfrystihúsin væru óstarfrækt.

Áður en ég fer út í að ræða þetta nánar, vil ég vekja athygli á því, að það er ekkert nýtt, að við borð liggi, að útvegurinn stöðvist. Það hefur þvert á móti undanfarið verið eitt stærsta verkefni, sem legið hefur fyrir hverju þingi, að koma í veg fyrir, að bátaflotinn stöðvaðist. Þetta vita allir hv. þm. Og þetta hefur tekizt. Flotinn hefur jafnan lagt úr höfn, og hraðfrystihús og önnur atvinnutæki hafa verið starfrækt. Ég vil nú láta þá von í ljós, að enn muni finnast leið til að leysa þennan vanda, sem nú steðjar að þessum atvinnuvegi. En þar á aflabresturinn höfuðsökina og markaðstregðan og aðrar slíkar óviðráðanlegar ástæður. Og svo ég minnist á atvinnuástandið við Ísafjarðardjúp, þá er það staðreynd, að undanfarin haust hefur það ekki verið glæsilegt, og þó jafnan rætzt úr, og það er engu verra nú en verið hefur. Eftir upplýsingum, sem oddvitar í sjávarþorpum við Ísafjarðardjúp hafa látið mér í té, þá hófust haustróðrar að þessu sinni á venjulegum tíma í öllum þorpum þar um slóðir, eða um miðjan október. Í Bolungavík ganga þannig 7 skip til veiða nú, og eru þau aðeins tveimur færri en á s. l. haustvertíð. Þar hafa verið frystir um 4000 pakkar af fiski nú, en ekkert í fyrra. Og auk þess, sem bátafloti þorpsins hefur aflað, er búið að verka þarna 125 tonn af karfa, sem Ísafjarðarbátar hafa lagt þar inn. Mér er tjáð, að atvinnuástandið í Bolungavík sé þannig ekki verra en um þetta leyti í fyrra. Atvinnan er mikil við aflann, þó hún sé minni en áður við byggingarframkvæmdir. — Þetta var um Bolungavík. Þá er Súðavík. Þar hafa 3 bátar róið á þessari haustvertíð. Það er einum færra en í fyrra. Frystihúsin hafa starfað þar óslitið, og annað þeirra hefur tekið til flökunar um 50 tonn af karfa, sem þar hefur verið lagður inn af bátum frá Ísafirði. Þá eru einnig gerðir út í Hnífsdal þrír bátar; það er einum færra en í fyrra. En bátar þaðan og frá Bolungavík hafa stundað síldveiðar hér í Faxaflóa. (FJ: Hvað hafa þeir haft upp úr því ?) Allir bátarnir, sem farið hafa suður, hafa fengið sæmilegan afla og ekki orðið tap á útgerðinni nema e. t. v. á einum bát. Hraðfrystihúsið í Hnífsdal hefur einnig verið starfrækt og tekið til flökunar um 80 tonn af karfa frá Ísafirði. Þá eru gerðir út á Ísafirði 7 bátar auk togarans, og bæði frystihúsin eru starfandi. Það er rétt, sem hv. þm. Ísaf. sagði, að stærri bátarnir ganga ekki, nema Njarðarbátarnir, og ég held ég fari rétt með það, að enginn af bátum hv. þm., eða Samvinnufélags Ísfirðinga, sé í gangi. En smærri bátarnir, sem einstaklingar reka, eru hins vegar gerðir út. Þetta eru engin svigurmæli í garð hv. þm.; það er vitað, að útgerð hans hefur orðið hart úti á síldveiðum undanfarið, og er það honum til afsökunar.

Þetta er þá heildarmyndin af útveginum eins og nú er ástatt um hann við Ísafjarðardjúp. Það er gert út með svipuðum hætti og undanfarið. Hins vegar hefur afli verið tregur, og afkoma manna er því erfið.

Þannig hafa sjómenn á nokkrum stöðum horfið frá fastri kauptryggingu til að auðvelda það að halda togurunum úti. Hæstv. forsrh. minntist á það áðan, að á nokkrum stöðum í Vestur-Ísafjarðarsýslu væri þessum málum mjög svipað háttað og áður, t. d. á Súgandafirði og á Flateyri, og svo mundi vera víðar.

Ég er nú ekki að rekja þetta hér vegna þess, að ég vilji sannfæra hv. þm. um, að í þessum efnum sé allt í lagi og við getum því snúið okkur rólega til veggjar án þess að hafast nokkuð að. En ég álít samt, að Alþingi eigi kröfu á því að fá að vita það, sem rétt er í þessu máli, og því hef ég komið fram með þessar upplýsingar nú. Og ég vil benda þeim hv. þm. á það, sem dökkast vilja mála atvinnuástandið á vegginn, að það getur orðið tvíeggjað vopn að auglýsa um land allt, að ákveðinn landshluti sé að leggjast í auðn og örbirgð og menn reisi þar helzt ekki lengur höfuðið frá koddanum. Og það er a. m. k. ekki sterkur grundvöllur undir trú löggjafans á framtíð þess landshluta; en sú trú er nauðsynleg forsenda þess, að hann láti miklar fjárveitingar af hendi rakna til framkvæmda á hverjum stað. Þetta vildi ég láta koma fram, jafnframt því, að ég legg ríka áherzlu á það, að leitazt verði við að bæta úr örðugleikum þess fólks, er þennan landshluta byggir. En það, sem mestu máli skiptir í því sambandi, er það, hvað lagt er til, að gert sé, og hvaða skilning við höfum á sjálfu eðli þess vanda, sem við er að stríða. Og ég verð því miður að segja, að enda þótt ég virði viðleitni hv. þm. Ísaf. í þessu efni, þá hafa mér orðið það vonbrigði, að engar ábendingar skuli hafa komið frá honum um það, hvað gera skyldi, annað en að skipa nýja 5 manna nefnd í málið. Það getur verið góðra gjalda vert; en við höfum sannarlega nóg af nefndum í þessu landi, og að mínu áliti of mikið, því að margar þeirra vinna lítið til gagns fyrir þjóðina. Hitt er mest um vert, að bent sé á úrræði og það gæti þá a. m. k. orðið til leiðbeiningar fyrir þá nefnd, sem fjalla kynni um mál:ð. (Rödd úr þingsal: Það lítur nú ekki út fyrir, að það sé ætlun hv. þm., að n. verði skipuð.) — Ég kem nú að því síðar. En annars vil ég nota tækifærið til að lýsa því hér yfir, að ég hef ekki trú á, að skipun nefnda sé neitt allsherjarúrræði, þegar vanda þarf að leysa. Og ég óska hv. þm. Ísaf. til hamingju með þá bjartsýni, sem lýsir sér í þeirri trú hans að halda, að nefndarskipun sé einhver lausn á umræddu máli. Nei. Það, sem mestu skiptir, er að benda á leiðir til úrbóta. Og það, sem mér hefur heyrzt, að fólk fyrir vestan hefði einkum í huga í því sambandi, það er, að hraðað verði því, að hlutatryggingarsjóður geti tekið til starfa eins og lög standa nú til. Þann sjóð þarf að efla, svo að hann megi gegna því hlutverki fyrir útveginn, sem honum er ætlað. Því miður hefur þannig til tekizt, að þá fyrst er farið að mynda þennan sjóð, þegar útvegurinn er mjög aðþrengdur orðinn. Fyrir 6 árum stóð ég að flutningi frv. um þetta efni, og þá hefði útgerðin verið þess umkomin að byggja upp sjóðinn. En þá var þeim ráðum ekki hlýtt, og þetta er nú fyrst orðið að lögum, — nema eitt þorp á Vestfjörðum, Bolungavík, hefur starfrækt slíkan sjóð, eingöngu fyrir sig, s. l. 12 ár; en hann hefur nú verið lagður niður við tilkomu hinnar almennu löggjafar um slíkan sjóð. En ég vil leyfa mér að beina þeim tilmælum til hæstv. ríkisstj., að hún stuðli sem unnt er að eflingu sjóðsins, þar sem ég tel þar um að ræða eitt hið brýnasta hagsmunamál fyrir útgerðina.

Þá er lækkun útgerðarkostnaðarins annað atriðið, sem menn ræða um og telja brýna nauðsyn. Það er of langt mál að ræða hér nú, en margir útvegsmenn telja mikla möguleika á því. — Loks er svo hið stóra mál, hvernig markaðs- og verðlagsmálum útvegsins verði komið í betra horf og sá vandi leystur, er þar hefur steðjað að. Við getum auðvitað samþ. till. hv. þm. Ísaf. um hallærisframlag hliðstætt óþurrkahjálpinni. En það leysir ekki vandann sjálfan, heldur aðeins örfárra manna og fjölskyldna. Og hitt skiptir meira máli, hvernig hægt er að tryggja sjómönnum og útvegsmönnum það verð fyrir framleiðslu sína, sem þeir þurfa að fá til þess að geta lifað. Heildarsamtök útvegsmanna fjalla nú um þetta vandamál í samráði við hæstv. ríkisstjórn. Þeir hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum af gengislækkuninni, sem ekki hefur orðið að því liði, sem til var ætlazt; en þar koma til þær óviðráðanlegu ástæður, að markaðirnir hafa glatazt. Þar er gengisbreytingunni ekki um að kenna. Og hvorki í mínu kjördæmi né hv. þm. Ísaf. mundu nú hundruð manna hafa atvinnu af karfaveiðunum t. d., ef gengisbreytingin hefði ekki verið gerð. Þetta veit hv. þm. eins vel og ég, enda þótt hann segi allt annað og haldi því fram, að gengislækkunin hafi eyðilagt afkomu þessa fólks. — Sannleikurinn er hins vegar sá, að útvegurinn á í erfiðleikum og þrengingum þrátt fyrir gengislækkunina, en ekki vegna hennar.

Ég sé ekki ástæðu til að lengja mál mitt frekar. Ég vil aðeins skýra frá því, að ég og fleiri stuðningsmenn hæstv. ríkisstj., sem erum fulltrúar útvegsbyggðarlaga í landinu, höfum rætt við hana um þessi mál í heild, og mér er það ánægja að geta skýrt frá því, að hjá hæstv. ríkisstj. er fullur skilningur ríkjandi á nauðsyn þess að tryggja rekstur útvegsins. Það er vandamálið, sem við stöndum nú andspænis, að tryggja þennan aðalútflutningsatvinnuveg þjóðarinnar. En það vandamál er ekki nýtt. Með gengisbreytingunni reyndum við að leysa þennan vanda; en þær forsendur brustu, sem til þurfti, að hún kæmi að fullu gagni, enda þótt hún væri útveginum mikil hjálp. En ég vænti þess; að hæstv. ríkisstj. í samráði við þá fulltrúa útvegsmanna, er nú sitja fundi um þetta mál, muni finna hér hina æskilegustu leið til bjargar, og að af þessum umræðum spretti nýir möguleikar til að sjá þessum atvinnuvegi borgið á komandi vetri.

Ég vil svo lýsa yfir fylgi mínu við hina rökst. dagskrá, í trausti þess, að heppileg leið verði fundin til að leysa vandræði þess fólks, sem hefur orðið hart úti á s. l. ári vegna aflabrests og annarra örðugleika, sem að því hafa steðjað.