12.12.1950
Neðri deild: 37. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í B-deild Alþingistíðinda. (409)

24. mál, aðstoð til bænda á óþurrkasvæðunum

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls sagði ég nokkur orð og taldi þá óeðlilegt að hnýta við frv. till., sem þá var ljóst, að fram mundu koma, af því að ég taldi þær um óskylt mál. Ég skýrði þá frá því, að ríkisstj. hefði látið athuga atvinnuástandið á þeim stöðum, þar sem helzt var kvartað um atvinnuleysi, og vissum við vel, að ástandið var alvarlegt víða. Nú hefur hv. þm. Ísaf. beint til mín spurningum um það, hvort ríkisstj. muni láta fara fram frekari rannsókn þessara mála, og þá í samráði við þm. viðkomandi kjördæma og sveitarstjórnir, og hvort ríkisstj. vilji að þeirri athugun lokinni taka málið til meðferðar í samráði við þm. þessara héraða. Út af þessu vil ég segja það, að ég mun láta fara fram slíka athugun, sem hv. þm. Ísaf. talaði um, og skoða ég það sem beint framhald af þeim rannsóknum, sem ríkisstj. hefur þegar hafið. Mér þykir og eðlilegt, að niðurstöður þeirra rannsókna verði ræddar við þm. hlutaðeigandi kjördæma, áður en til aðgerða kemur. Ég tel eðlilegt, að athugun eins og þessi beinist ekki eingöngu að ástandinu eins og það er í dag, heldur og að því, hvernig það hefur verið undanfarin ár, svo að sjá megi, hve munurinn er mikill. — Sé ég svo ekki ástæðu til að ræða þetta frekar, en vænti þess, að hv. þm. Ísaf. megi una við þessi svör.