01.11.1950
Sameinað þing: 10. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 229 í D-deild Alþingistíðinda. (4090)

42. mál, réttarrannsókn á togaraslysum

Flm. (Steingrímur Aðalsteinsson):

Herra forseti. Þáltill. sú, sem hér liggur fyrir á þskj. 73, er samhljóða þáltill., sem ég flutti á síðasta þingi. Þeirri till. var þá vísað til allshn. Sþ. þann 8. febrúar. Þótt undarlegt megi virðast, þá virtust hv. alþm. ekki hafa áhuga fyrir málinu. Till. lá hjá nefndinni í 3 mánuði án þess hún tæki hana til afgreiðslu, en loks í þinglokin, eða þann 12. maí, tók hún málið til meðferðar, en aðeins til að leita umsagnar nokkurra aðila. Dráttur þessi varð til þess, að svör höfðu ekki borizt áður en þingi lauk, og var málið því ekki afgr. á því þingi.

Ég álit þetta mál svo alvarlegt, að full ástæða sé til þess, að Alþingi láti það til sín taka. En því hef ég flutt þetta mál á ný, að ég vonast til þess, að það fái skjóta afgreiðslu nú og að sú afgreiðsla megi verða til þess, að ráðstafanir verði gerðar til að draga úr slysahættunni við sjósóknina.

Efni till. er í stuttu máli það, að ætlazt er til, að fram fari réttarrannsókn á — slysum þeim, sem orðið hafa á íslenzku togurunum frá ársbyrjun 1948, eða frá þeim tíma, er allir nýsköpunartogararnir voru teknir til starfa, því að svo virðist sem þessir nýju togarar, sem ættu raunar að skapa skipshöfnunum aukið öryggi, hafi fjölgað mjög tölu slysatilfella. Í till. er ætlazt til, að rannsakað verði, hve tíð þessi slys hafa verið og hverjar séu höfuðorsakir þeirra, og á grundvelli þessara rannsókna og með hliðsjón af löggjöf annarra þjóða um þetta efni láti ríkisstj. útbúa löggjöf, eða raunar breytingu á sjómannalögunum, og verði þar svo um hnútana búið, að komið verði í veg fyrir, að þessi tíðu slys eigi sér stað. Mér sýnist þetta heppilegasta aðferðin til þess að komast að orsök þessara slysa og hvernig megi koma í veg fyrir, að þau endurtaki sig.

Ég sé ekki ástæðu til að rifja hér upp þau slys, sem orðið hafa á togurunum. Ég kom með nokkur dæmi þeirra á síðasta þingi, og engin tilraun hefur verið gerð af hv. alþm. til að vefengja, að þau slys hefðu átt sér stað. Sú upptalning var þó auðvitað ekki tæmandi, en sýndi þó fram á, hvernig ástatt er í þessum málum. Ég vil vænta þess, að hv. alþm. líti á þetta mál í fullri alvöru og séu því samþykkir, að allt verði gert, sem unnt er, til að koma í veg fyrir þessi slys. Ég vænti enn fremur, að sú hv. nefnd, sem fær málið til meðferðar, taki það til alvarlegrar athugunar og gangi eftir umsögnum frá þeim aðilum, sem hlut eiga að máli, og skili svo málinu til Alþingis svo fljótt, að kostur verði á að afgreiða það á þessu þingi. — Ég legg svo til, að málinu verði að umr. lokinni vísað til hv. allshn.