12.12.1950
Neðri deild: 37. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í B-deild Alþingistíðinda. (410)

24. mál, aðstoð til bænda á óþurrkasvæðunum

Bjarni Ásgeirsson:

Herra forseti. Hv. þm. Ísaf. sagðist nú ætla að grípa til annarra ráða en áður til þess að fá réttingu mála sinna, og álit ég það alveg rétt af honum, og hefði hann átt að gera það þegar í upphafi, því að þá hefði hann ef til vill losnað við að setja þann blæ á málflutning sinn, sem verið hefur og gefið hefur til kynna öðrum þræði, að hann vildi setja fótinn fyrir þetta mál. Viðvíkjandi því, að Ísfirðingar hafi ekki viljað nota þá guðs og manna gjöf, sem togari þeirra er, þá veit hv. þm., að það var með miklum eftirgangsmunum, að ríkisstj. fékk Ísfirðinga til þess að nota skipið sér og sínum til framdráttar, á sama tíma og þeir kröfðust opinberra atvinnubóta á staðnum, og var þó öllum ljóst, einkum eftir að togari Akurnesinga hóf veiðar, hve geysimikil uppgrip það voru að nota slíkan togara.

Hv. þm. Ísaf. hélt því fram, að ég hefði kastað fram ógætilegum orðum, sem ég ætti helzt að taka aftur. En ég verð að segja, að hv. þm. Ísaf. setti málið svo upp, að ekki var hægt að svara því öðruvísi en ég gerði, og mundi ég alltaf svara því þannig, ef málið væri sett upp á þann veg, sem hv. þm. og blað hans, Alþfl., gerðu, en bæði hv. þm. og blaðið met ég mikils, og var ég satt að segja undrandi á málflutningi þeirra. Hins vegar undraðist ég síður, þótt Þjóðviljinn beitti slíkum málflutningi, því að því blaði þykir jafnan gómsætast það efni, sem sótt er lengst niður í sorpið.