15.11.1950
Sameinað þing: 13. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 233 í D-deild Alþingistíðinda. (4105)

78. mál, vélbátaflotinn

Atvmrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Eins og segir í fylgiskjali, sem fylgir með þessari till., þá hefur L. Í. Ú. á fulltrúaráðsfundi sínum gert ályktun um það að mælast til þess, að Alþ. og ríkisstj. velji menn til að starfa að því ásamt mönnum frá L. Í. Ú. að finna lausn á vandamálum vélbátaflotans fyrir næstu vetrarvertíð. Hv. 1. flm. þessarar till. segist hafa flutt hana vegna þess, að hann hafi haft litla von um, að ríkisstj. mundi hafast nokkuð að í málinu. Mér kemur þetta undarlega fyrir sjónir, og enda þótt ég telji það ekki höfuðskilyrði, vil ég þó segja það, sem ég veit sannast og réttast í málinu. Hv. þm. kom að máli við mig hér í d. og spurði mig um það, hvort ég hefði ekki lesið till. þá, sem Landssambandið hefði samþ., og hvað ríkisstj. mundi hafast að í því efni. Ég sagði honum, að mér hefði borizt þessi till., en hún hefði farið til ríkisstj. og málið yrði því væntanlega tekið fyrir á ríkisstjórnarfundi, þegar því yrði við komið, og yrði þá borið fram af forsrh., sem að sjálfsögðu hefði frumkvæði að því að hreyfa till., sem stílaðar væru til ríkisstj. En ég sagði hv. þm., að ég hefði uppástungur, og sagði honum, hverjar þær væru. Á næsta fundi ríkisstj. hreyfði ég þessu, og hæstv. forsrh. sagði við mig, að hann hefði lesið þessa till., en ekki sérstaklega athugað, að hún væri til ríkisstj., en sagðist gera ráð fyrir, að ég mundi sjá þessu farborða. Ég sagði þá við hæstv. forsrh., að ég mundi gera að till. minni, að n. sú, sem hv. þm. gat um og skipuð er fiskimálastjóra, form. síldarútvegsn. og einum kunnum útvegsmanni, sem lengi hefur starfað fyrir ríkisstj., athugaði þetta mál fyrir hönd ríkisstj. með fulltrúum Landssambandsins. Á þessa till. mína féllst ríkisstj. og taldi hyggilegt að láta þessa kunnugu menn fjalla um málið og taldi það líklegra til jákvæðrar niðurstöðu heldur en þó að þingnefnd, valin með hliðsjón af pólitík, færi að fjalla um málið. Það þekkja allir, ekki sízt hv. þm. Ísaf., að það hættir stundum við því, að menn fari að gera boð og yfirboð og láta skína í sem ríkastan áhuga, sem menn hafa ævinlega fyrir þeirri stétt, sem hlut á að máli. Þess vegna varð ég dálítið hissa, þegar 2 dögum seinna var útbýtt þessari till. hér á Alþ., og ef ég þekkti ekki þennan vin minn eins vel og ég þekki hann, þá mundi ég segja, að þetta væri hinn forni fjandi og hér væri hv. þm. að nota þær upplýsingar, sem ég gaf honum, til þess að vera með yfirboð. Þess vegna gleður það mig, að hv. þm. telur, að málið sé sæmilega á vegi statt í bili, og ég tel fyrir mitt leyti, að það sé komið í hendur þeirra kunnugustu manna, sem um er að ræða og hafa alla aðstöðu til að fylgjast með því, sem er að gerast, a. m. k. þeir, sem eru meðlimir Landssambandsins, eins og hv. þm., og við, sem erum í ríkisstj., munum einnig fylgjast með því, sem gerist, svo að ef ekki fást nein úrræði á þeim vettvangi, þá er hægt að taka málið í hvaða formi sem er. Hins vegar vil ég segja það í tilefni af þessari till., án þess að ræða þetta mál, að ég tel, að þetta sérstaka mál, sem þessi till. fjallar um, það verði kannske einna örðugast viðfangs af því, sem stjórnarvöld landsins þurfa við að etja á næstunni, og allar skynsamlegar till., sem fram koma, og öll þau heilræði, sem fram verða borin, verða áreiðanlega þakksamlega þegin af ríkisstj., því að henni er ljóst, að þörf er góðra manna, sem eru kunnugir og vel viti bornir, til að glíma við þennan vanda, og er óhætt að segja, að það sé óvíst, hvort ágætir eiginleikar nægja til.

Ég hef áður látið orð um það falla, að deilan um kaupgjald á togurum væri þjóðarböl. Það er sorglegt, að slíkir atburðir skuli þurfa að gerast, ekki sízt þegar svo háttar til sem nú er, að flest leggst á eitt um það að gera þjóðarbúskapinn örðugan, og þegar fjárhag þjóðarinnar er þannig komið, að það er eiginlega rétt lýsing, að ef Ísland nyti ekki góðs af Marshallfé, þá er það slíkt eymdaratvinnuárferði, að varla væri afkomu auðið nema með opinberum styrk þjóða, sem þó eru sízt færari um það heldur en Bandaríkin. Það er sorglegt, þegar atvinnuárferðið er svona og slíkar stöðvanir sem hið langa togaraverkfall þurfa að eiga sér stað. En ég verð hins vegar, gagnstætt því, að játa, að hér verður við raunverulegan vanda að etja, sem er allt annars eðlis og við ekki ráðum yfir nema að takmörkuðu leyti og ég er ekki reiðubúinn á þessu stigi til þess að benda á, með hverjum hætti sé hægt að leysa.