15.11.1950
Sameinað þing: 13. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 239 í D-deild Alþingistíðinda. (4110)

78. mál, vélbátaflotinn

Atvmrh. (Ólafur Thors) :

Herra forseti. Ég ætla ekki að halda áfram að karpa um þetta litla, sem okkur ber á milli, hv. þm. Ísaf. og mér. Ég vona, að þeir, sem áhuga hafa fyrir þeirri málsmeðferð, sem um hefur verið að ræða, hafi séð báðar hliðar. Og enda þótt ég viðurkenni, að ekki sé illa varið tíma þingsins í að ræða um, hver áhrif gengislækkunin hefur á afkomu sjávarútvegsins, þá skal ég heldur ekki a. m. k. stofna til þess að þessu sinni. En ég teldi vel þess vert, að við hv. þm. Ísaf. og ég, sem ber talsverða ábyrgð á gengisfellingunni, fengjum nú þó ekki væri nema tvo til þrjá klukkutíma hvor að tala í áheyrn alþjóðar um málið, og þá væri til einhvers að vinna. Hér eru menn, sem þekkja málið. Hins vegar hefur þetta mál svo mikla þýðingu, að það væri til þess vinnandi fyrir hv. þm. Ísaf. og mig líka að fá að skýra fyrir þjóðinni hvora hliðina á málinu, báðir tveir, sem góðir vinir sjávarútvegsins og kunnugir hagsmunum sjávarútvegsins og þess vegna líklegir til þess að geta fundið sannleikann sameiginlega, eða a. m. k. bent á svo margar hliðar málsins, að almenningur gæti dæmt á milli um það, hvort gengisfellingin hefur verið bölvun eða það eina ráð, sem fyrir lá til þess að rétta við hag útvegsins, — enda þótt vegna ills árferðis lögin um gengisfellinguna og ráðstafanir í því sambandi hafi enn þá ekki komið að tilætluðum notum.