15.11.1950
Sameinað þing: 13. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 239 í D-deild Alþingistíðinda. (4111)

78. mál, vélbátaflotinn

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Ég sé ekki fært að ræða nú um gengislækkun né áhrif hennar frekar en þeir aðrir, sem hér hafa tekið til máls um þessa þáltill., sem fyrir liggur. En ég get þó ekki látið hjá líða að benda á, að það skilst mér ætti að vera nokkuð augljóst mál, að eins og okkar utanlandsviðskiptum hefur verið háttað, að flutt er inn á ári fyrir um 100 millj. kr. meira en út, þá sjá allir, hver útkoman er af gengislækkuninni á þessu ári. Það þarf ekki að eyða neinum orðum að því. Hins vegar er skylt að játa, að ýmsar sérstakar orsakir aðrar en gengislækkunin valda þessum halla. En þjóð, sem flytur meira út en inn, er beinn hagur að því að breyta genginu eins og gert var hér á síðasta vetri.

En ástæðan til þess, að ég kvaddi mér hljóðs, var, að mér komu undirtektir hæstv. sjútvmrh. undir þessa litlu þáltill. nokkuð einkennilega fyrir. Mér fannst hæstv. ráðh. vera óánægður með það, að þáltill. hefði verið flutt, og sumpart með það, hvernig málið er flutt, og telja, að í raun og veru væri ástæðulaust að vera nú að þessu brokki, því að hann væri búinn að skipa þrjá ágæta menn til þess að athuga þessi mál, og því gætu menn verið alveg rólegir. Ég er hæstv. sjútvmrh. alveg ósammála um þetta atriði. Ég álít, að þessi þáltill. hafi verið flutt jafnvel heldur síðar en vera ætti og að hún hafi verið flutt af ríkri þörf, og að það, sem hæstv. sjútvmrh. hefur gert í þessu máli til þessa, sé minna en ætlazt hefði mátt til af honum.

Ég tók svo eftir, að hæstv. ráðh. segði í fyrri ræðu sinni um þetta mál: Það er kannske örðugast við það að etja, þ. e. a. s. hvernig á að koma vélbátaflotanum til veiða eftir áramótin, þeirra vandamála, sem framundan eru. — Síðar í ræðu sinni segir hann: Ég er ekki á þessu stigi málsins reiðubúinn til að benda á leiðir til þess að tryggja þetta. — Þannig er ástandið í þessum efnum, það er að hans dómi stærsta vandamálið, sem framundan er, svo stórt, að hann er ekki við því búinn á þessu stigi málsins að benda á eða segja til um það, hvaða leiðir eru líklegar. Svo finnst hæstv. ráðh. furðulegt og óviðfelldið, að hér skuli vera borin fram till. um það, að Alþ. nefni til 5 menn, sem séu til viðtals við útgerðarmenn um þessi mál. Ríkisstj. hefur lagt fram fyrir skömmu frv. til heildaruppgjörs og skuldaskila fyrir vélbátaútveginn til þess að fá botn í þessa miklu skuldaflækju og ábyrgðaflækju, sem myndazt hefur vegna hallarekstrar útvegsins síðustu árin. Ég hygg, að það sé alveg rétt hjá hæstv. ríkisstj., að þessum málum sé svo komið, að nauðsynlegt sé að gera eitthvað slíkt, án þess að ég segi, að ég sé samþykkur hverju atriði í þessu frv., en það er augljóst mál, að svo aðkallandi og rík nauðsyn sem kann að vera til að gera þessa hluti, þá er alveg þýðingarlaust að hugsa sér slíkt, nema samtímis séu gerðar ráðstafanir til þess að vélbátarnir gangi til fiskjar og haldi áfram veiðum. Það er stærsta vandamálið framundan, sem hæstv. ráðh. finnst svo stórt vandamál, að hann segist á þessu stigi ekki vera fær um að benda á neina sérstaka leið. En hvernig hefur hann hugsað sér að létta af sér þessum vanda og fela fiskábyrgðarnefnd að taka við þessa? Ég hef enga trú á, að hún á viku eða hálfum mánuði finni leið, sem ráðh. eða útgerðarmenn hafa ekki komið auga á. Það virðist augljóst, að þessi mál verða ekki leyst, svo að viðhlítandi sé og vélbátaflotinn fari á veiðar, á annan veg en þann, að það komi til kasta Alþ. með einum hætti eða öðrum. Einmitt með það fyrir augum verður að telja eðlilegt, að ásamt ríkisstj. og sjútvmrh., sem fyrst og fremst mun athuga þetta mál, sé einnig skipuð n. af þingsins hálfu, þegar mönnum er kunnugt, hvernig málið er vaxið og hvernig hægt er að bæta úr vandanum.

Þetta er ég ekki að segja til ámælis fyrir þá ágætu menn, sem sæti eiga í fiskábyrgðarnefnd, en þeir hafa ekki þá sömu aðstöðu, þeir eru starfsmenn útgerðarmannasamtakanna eða útvegsmanna og líta á það sjónarmið og bera fram ýmislegt, sem líklegt er frá sjónarmiði þessara manna. En ef málið kemur hingað, þá verður þingið að taka lokaákvörðun í þessum efnum, og þá er æskilegt, að ekki einasta ríkisstj. sjálf, heldur einnig af hálfu þingsins séu valdir menn til viðræðna um þessa hluti.

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri, ég er fullkomlega sammála hv. 1. flm. um, að eðlilegt sé, að málinu sé frestað og vísað til n. En ég vildi um leið mælast til þess við hv. n., sem fær málið til athugunar, að hraða afgreiðslu, því ég lít svo á, eins og hæstv. sjútvmrh., að þetta sé í rauninni, eftir að togaraverkfallið er leyst, stærsta vandamálið, sem framundan er, og viðurkenning liggur fyrir um það frá hæstv. ráðh., að hann á þessu stigi geti ekki ákveðið neina leið, og því fyrr sem málið er tekið til athugunar af réttum aðilum, því betra.