15.11.1950
Sameinað þing: 13. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 242 í D-deild Alþingistíðinda. (4113)

78. mál, vélbátaflotinn

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Það virðist hafa orðið aðalatriði þessara umr., hvort heppilegra mundi vera að fela fiskábyrgðarnefnd, en í henni eiga sæti 3 menn gagnkunnugir málum útvegsins, að undirbúa lausn á vandamálum bátaútvegsins eða skipa þingnefnd til að fjalla um það mál. Ég held, að deilur um þetta séu á nokkrum misskilningi byggðar. Sannleikurinn er sá, að málið, sem hér liggur fyrir, er tvíþætt: Annars vegar þarf að gera athugun — hreina tekniska, fræðilega athugun — á væntanlegri afkomu bátaútvegsins á næstu vertíð, þ. e. a. s. athugun á því fyrst og fremst, hver áhrif gengislækkunin og verðbreytingar erlendis hafa haft á afkomu bátaflotans. Hér er um að ræða tekniskt vandamál, fræðilegt vandamál, sem hægt er að leysa úr þannig, að ekki verði um deilt, ef nógu samvizkusamlega er að farið og nógu góðar upplýsingar eru fyrir hendi. — Hitt er svo annað mál, að finna leið til þess að rétta bátaútveginum þá hjálparhönd, sem rannsóknirnar kynnu að leiða í ljós, að hann þyrfti á að halda. Það er fyrst og fremst pólitískt vandamál. Þarna þarf að finna leið til þess að afla bátaútveginum nýrra tekna, annaðhvort með greiðslum úr ríkissjóði, sem afla þyrfti fjár til með nýjum sköttum eða tollum, eða með till. um endurskipulagningu á rekstri hans eða þá með nýrri gengisbreytingu. Þarna er m. ö. o. um að ræða hrein pólitísk atriði, sem Alþ. hlýtur auðvitað að taka endanlega ákvörðun um.

Ég er sammála hæstv. sjútvmrh., þegar hann segir, að það sé vafamál, að þingnefnd skipuð pólitískum fulltrúum sé mjög heppileg til þess að leysa hið fyrra verkefni. En vafalaust er líka hitt, að fiskábyrgðarnefndin getur engan veginn verið fær um að leysa síðara vandamálið, og væntanlega ætlast enginn. til þess af henni. Með því er engri rýrð kastað á þá ágætu menn, sem þar eiga sæti og eru kunnugir högum útvegsins, en það getur ekki verið þeirra hlutverk að leysa endanlega það pólitíska vandamál, sem hér er á ferðinni. Ég átti þátt í athugunum í sambandi við bátaflotann 1946–47 og aftur 1949 og útreikningum varðandi hag hans og afkomu og er því dálítið kunnugur vinnubrögðum á þessu sviði. Ég treysti auðvitað þeim mönnum, sem eru í fiskábyrgðarnefnd, fullkomlega til þess að leysa slík störf af hendi, enda liggja fyrir mikil gögn, sem nota má. En þrátt fyrir þetta er engu síður jafnframt því nauðsynlegt, að hinir pólitísku aðilar fái þetta mál sem allra fyrst í sínar hendur, og þá er spurningin, hvort ríkisstj. hugsar sér að fjalla um það sjálf eða með trúnaðarmönnum úr sínum flokkum eða hvort hún hyggst láta þingið í heild hafa afskipti af þessu. Þetta tvennt getur komið til greina: Ætlar ríkisstj. að undirbúa nauðsynlega lausn málsins með sínum eigin trúnaðarmönnum, eða hyggst hún láta þá flokka, sem standa utan ríkisstj., fylgjast með í þessu máli og eiga einhvern þátt í því að undirbúa þá pólitísku lausn, sem verður að grípa til? — Ég tek undir það, sem hv. 4. þm. Reykv. sagði, að miklu heppilegra væri að halda þessu máli á grundvelli þingsins sem heildar, og ég tel einmitt, að slík n., eins og sú, sem farið er fram á í þessari till., sé heppileg leið að því marki. Mér finnst heppilegt, að þingið sem heild komist sem fyrst inn í málið jafnhliða störfum fiskábyrgðarnefndar. Ég hygg, að það mundi auðvelda afgreiðslu málsins mjög, þegar til endanlegra kasta þingsins kemur, að í slíkri n. ættu fulltrúar sæti bæði frá stjórnarflokkunum og stjórnarandstöðunni. — Hér er geysimikið vandamál á ferðinni, mál, sem mjög mikið er undir komið að leysist vei. Alþfl. hefur enga löngun til að gera þetta mál að meira deiluefni en óhjákvæmilegt er og eðlilegt er að það verði, þannig að af þeim sökum er ekki ástæða fyrir ríkisstj. að forðast stjórnarandstöðuna. Ég hygg, að lausn þessa máls mundi verða betur undirbúin, ef þannig væri að farið, að þingið sem heild og flokkar þingsins fengju sem fyrst tækifæri til að starfa að því og fylgjast með teknískum störfum fiskábyrgðarnefndar og byrja sem allra fyrst að ræða þær pólitísku ráðstafanir, sem verður að gera til þess að bæta úr þeim vanda, sem bátaútvegsins bíður á næstu vetrarvertíð.