12.12.1950
Neðri deild: 37. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 128 í B-deild Alþingistíðinda. (414)

24. mál, aðstoð til bænda á óþurrkasvæðunum

Stefán Jóh. Stefánsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í sambandi við ræðu hæstv. landbrh. Hann sagði, að úthlutunin hefði ekki verið miðuð við vissar línur á landi, heldur miðuð við það tjón, sem viðkomandi aðilar hefðu orðið fyrir. Nú veit ég ekki, hvort rannsókn var látin fara fram vestan Vaðlaheiðar eða hvort tjón bænda í Eyjafirði nemur ekki 20% af heyfeng á vissum svæðum, en ég hef fullkomna ástæðu til að ætla, að svo sé. En aftur á móti er í brbl. dregin ákveðin lína á landi, og þar er Vaðlaheiði ómótmælanleg merkjalína milli Norður- og Austurlands þar sem Árneshreppur í Strandasýslu og Grunnavíkurhreppur í Norður-Ísafjarðarsýslu eru einu hrepparnir vestan Vaðlaheiðar, sem aðstoð fá, öðrum er ekki heimilt skv. l. þessum að veita hjálp. — Út af framkvæmd aðstoðarinnar og varðandi bjargráðasjóð, þá held ég, að það hefði mátt láta hann úthluta þessum styrk, enda þótt hann ætti ekkert fé til, en láta ekki brbl. grípa hér inn á svið Alþingis. Hann hefði getað gert þetta þannig, að ríkissjóður stæði á bak við, og það hefði ég talið eðlilegt eftir gangi málsins.