28.02.1951
Sameinað þing: 48. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 253 í D-deild Alþingistíðinda. (4142)

111. mál, sjóveðskröfur síldveiðisjómanna

Frsm. minni hl. (Ásmundur Sigurðsson) :

Herra forseti. Ég vildi byrja á að drepa lítillega á það, sem kom fram í ræðu hv. frsm. meiri hl. og kemur einnig fram í nál. meiri hl. á þskj. 716, að ég hefði verið ósanngjarn að gefa út nál. í ósamræmi við gerðir fundar fjvn.

Þessari till. var vísað til fjvn. 8. jan. s. l. og tekin fyrir á fundi þann 16., og virtust þá allir sammála um að senda hana til umsagnar til stjórnar skuldaskilasjóðs og til Alþýðusambands Íslands með óskum um svör svo fljótt sem unnt væri, eins og hv. frsm. tók fram. Þau komu svo 20. jan., og þrem dögum síðar, eða 23. jan., voru þau lesin upp á fundi fjvn. og tekin fyrir. Ég óskaði þá eftir því, að till. yrði borin upp, og það var gert og till. felld. Að vísu lét meiri hl. n. svo um mælt, að þetta væri ekki fullnaðarafgreiðsla á till. Ég beið nú með að skila mínu nál. til 7. febr., og var þá komið fram yfir þann tíma, sem hv. meiri hl. vildi bíða til með að afgreiða till. Ég skilaði því áliti mínu þá, og miðað við það, að n. hafði fellt till. hálfum mánuði fyrr og ekkert gert í því síðar, þá voru ekki horfur á, að meiri hl. ætlaði að gera málinu frekari skil. Þann 14. febr., eða 7 dögum eftir að ég skilaði mínu áliti, virtist svo komið fyrir hv. meiri hl. n., að honum þætti nú, að við svo búið mætti ekki lengur standa, og að ekki væri heppilegt að láta till. liggja þannig afgreidda, og þá var það sem óskað var eftir því, að ég leiðrétti mín ummæli. Ég spurðist þá fyrir um það, hvernig ætti að afgreiða till., en ég fékk engin svör, og þá taldi ég rétt að bíða með að leiðrétta ummæli mín, þar til sæist, hver afgreiðslan yrði. Þann 15. febr. var till. aftur tekin fyrir af meiri hl. n., og var eftirfarandi bókað um þá afgreiðslu, með leyfi hæstv. forseta:

„Þar sem nú nýlega hefur verið samin löggjöf um skuldaskilasjóð og honum meðal annars ætlað að leysa þetta verkefni, leggur meiri hl. n. til, að till. verði afgr. með rökst. dagskrá.“ — Þetta er bókað 15. febr., eða 8 dögum eftir að ég skilaði mínu áliti. Ég verð að segja það, að það eitt að vísa málinu frá er visst form á að fella það. En svo skeður það merkilega, að meiri hl. n. breytir afstöðu sinni til málsins, og í nál., sem hann gaf út 19. febr., leggur hann til, að till. verði samþ. með nokkrum breyt., og það er þá ekki hægt að segja annað en það hafi verið erfitt að fylgjast með afstöðu meiri hl. í málinu. Þrátt fyrir þetta gaf ég út nýtt nál. ásamt hv. 6. landsk., þar sem við orðuðum afstöðu meiri hl. þannig, að hann vildi afgreiða till. í öðru formi, því að við vissum ekki nema meiri hl. breytti enn afstöðu sinni til málsins, svo undarleg sem meðferð hans hafði verið á því fram til þessa. En ég vil benda á, að það er ekki mikill eðlismunur á því að samþ. þessa brtt. og að fella þáltill. Ástæðan til þess, að ég óskaði eftir því, að till. yrði afgr. fyrr frá n., var sú, að þá lá fyrir yfirlýsing frá stjórnarflokkunum um það, að þingi færi brátt að ljúka og það helzt í janúarlokin. Það var því ekki mikill tími til stefnu, og það leit út fyrir þá, að verið væri að draga afgreiðslu hennar svo, að hún næði ekki fram að ganga á þessu þingi. Í sambandi við afgreiðslu meiri hl. vildi ég benda á, að hún er þess eðlis, að hún mun sáralítið flýta fyrir lausn þessa máls, sem nauðsynlegt er að hraða sem mest, vegna þess að fjöldi síldveiðisjómanna hefur enn ekki fengið kaup sitt greitt að fullu fyrir síðustu 3 árin. Hv. frsm. meiri hl. hélt því fram, að þar sem innkomnar kröfur sjómanna væru ekki í samræmi við reikninga útgerðarmanna, þá væri sjálfsagt að bíða til 1. júlí með að greiða þær, ef allar kröfurnar skyldu vera komnar inn þá, og það væri ekkert því til fyrirstöðu, að sjómenn gætu lýst kröfum sínum. Ég vil benda á, að það hefur áður verið svipað mál fyrir Alþ., og það tók þá ekki nema stuttan tíma að safna kröfum sem þessum, og ætti það ekki að þurfa að taka lengri tíma nú, og ég sé ekki neina ástæðu til þess að geyma að greiða mönnum kröfur sínar, þangað til búið er að safna öllum þeim kröfum, sem búast má við að komi inn einhvern tíma.

Að síðustu vildi ég svo svara hv. frsm. meiri hl. í sambandi við spurningu hans um fylgiskjal II, en hann sagðist ekki skilja, hvers vegna ég hefði blandað því inn í þetta mál. Hann kom þó með skýringuna sjálfur og gaf svarið, er þann sagði, að aðrir sjómenn gætu farið eins að og þessi viðkomandi aðili. Þetta er einmitt ástæðan til þess, að ég birti skjalið, til þess að sýna, að aðrir sjómenn hefðu getað farið að eins og þarna var gert. Þetta fylgiskjal er innlegg til sönnunar því, að það hefur verið gengið á rétt sjómanna með því að draga lausn þessara mála.