28.02.1951
Sameinað þing: 48. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 257 í D-deild Alþingistíðinda. (4145)

111. mál, sjóveðskröfur síldveiðisjómanna

Áki Jakobsson:

Ég vil benda á, að höfuðatriðið í till. á þskj. 202, sem ég flyt ásamt 2 öðrum þm., er það, að greiðslur sjóveðskrafna séu slitnar úr tengslum við skuldaskilin á þeirri forsendu, að þarna sé um kaupgreiðslur að ræða til sjómanna. Þess vegna er ósanngjarnt og óréttlátt að draga þá eftir þessu skuldauppgjöri. Í öðru lagi er það byggt á þeirri forsendu, að það geti ekki haft nein truflandi áhrif á skuldaskilin, þó að sjóveðskröfurnar séu leystar út fyrr, — hvort sem ríkissjóður fengi lán til að gera það eða hann legði fram peninga, þá getur hann fengið sjóveðsréttinn fráskilinn og gert það gildandi eftir því sem við á, og þá getur ríkissjóður og hver sá, sem reiknar kröfuna, gert hana gilda við skipið, sem er vísað úr skuldaskilum, og þá er hægt að framvísa henni. En þá fengist það, að sjómönnum er ekki haldið eins í vandræðum og gert hefur verið, og það er höfuðtilgangurinn, að fá þessa lausn og koma sjómönnum út úr þessu. En eins og till. er flutt hér í nál. meiri hl. á þskj. 716, þá er því alveg snúið við, þar sem segir, „að innköllun skulda í sambandi við skuldaskil bátaútvegsins og uppgjöri verði hraðað svo sem frekast er unnt og handbært verði nauðsynlegt fé til þess að greiða viðurkenndar sjóveðskröfur jafnskjótt og uppgjör liggur fyrir hjá stjórn skuldaskilasjóðsins“. — Þetta er almenn áskorun um að hraða uppgjöri, og ég býst ekki við, að það þurfi að skora á ríkisstj. til að hraða skuldaskilum, því ég býst við, að skilanefnd muni hafa áhuga fyrir að hraða þessu. Það er geysilegt verk, sem þarna er fyrir hendi hjá skilan., og mér er tjáð, að litlar líkur séu til þess, að hún muni ljúka skuldaskilum fyrir 1. júlí, þó mikið væri unnið í þessu. Hins vegar er engin ástæða til þess að bíða eftir þessum skuldaskilum, heldur á einmitt að leysa út sjóveðskröfurnar og gera það þannig, að sjómenn fái sitt, af því að skuldaskilin geta gengið sinn gang fyrir því. Brtt. hv. þm. Ísaf. gerbreytir þessari till. og breyt. á að vera almenn áskorun til skuldaskilasjóðs um að hraða skuldaskilum, og það verður ákveðin till. um kröfulýsingar Alþ. um það, hvenær þetta eigi að borga. Þegar sannanlegar kröfur er fram komnar, þá eru vitanlega líkur til, að ríkisstj. geri nauðsynlegar fjárhagslegar ráðstafanir til þess að skuldaskilan. geti leyst út þessar kröfur, þannig breytist till. meiri hl. við brtt. hv. þm. Ísaf. og verður þá svipuð að efni til því, sem var í upphaflegu till. Nú er það svo, að ekki verður frestað innköllun skuldanna, það er misskilningur í áliti meiri hl. Það hefur verið kallað eftir kröfulýsingum með auglýsingu í Lögbirtingablaðinu að viðlögðum kröfumissi, sem kallað er, alveg eins og gert er þegar um þrotabú er að ræða, og ég veit ekki til, að þær auglýsingar hafi verið framlengdar. En hins vegar eru þau tilfelli, að margir sjómenn hafa ekki lýst kröfum sinum samkv. þessari auglýsingu, en það stafar kannske af því, að menn eru hingað og þangað um landið og fylgjast ekki svo með því, þó birt sé auglýsing í Lögbirtingablaðinu, en hins vegar missa þeir ekki kröfuna, þó að þeir lýsi ekki samkv. lagafyrirmælum, vegna þess að þeir eru veðhafar. Það er það, sem gerir, að þeir hafa ekki fengið nógu mikið aðhald. En það var birt auglýsing fyrir jólin frá hlutatryggingasjóði á þann veg, að hver ólögfróður maður hlaut að skilja hana svo, að það ætti að borga út. kaupið, svo var það upplýst, að þetta var misskilningur. En þessi auglýsing sýnir, hvernig hægt er að ná þessum kröfum inn og fá yfirlit á skömmum tíma, með því að auglýsa, að ríkissjóður og skilan. greiði sjóveðskröfur sjómanna, og þess vegna eiga þeir að leggja fram sannanir fyrir sínum kröfum, þá er ég viss um, að kröfurnar kæmu svo að segja alveg. Það er þetta, sem þarf að gera, og þetta vakti fyrir okkur flm. með því að fela ríkisstj. að gera nú þegar ráðstafanir til þess að innleysa sjóveðskröfur sjómanna. Það er hægt að gefa út auglýsingu um kröfurnar og þá er vitað, að þær skila sér, og ég er sannfærður um, að ef tekið er upp, þetta ráð, þá mundi það verka þannig, að starf skilan. væri gert einfaldara og léttara, en það er mjög erfitt verkefni, sem hún hefur með höndum. Ég held þess vegna, að það sé bezt að samþ. þessa till. óbreytta eins og hún er á þskj. 202.

Hv. þm. Barð. talaði um, að hv. 5. landsk. (ÁS) hefði ranglega skýrt frá viðburðum í fjvn. Ég var ekki á fundi í fjvn. og veit ekki, hvernig orð féllu þar, en ég sé af brtt. 716, að eins og hún er, þá er hún sama og að fella till. á þskj. 202. Hins vegar gerbreytir það efni till., ef till. hv. þm. Ísaf. yrði samþ., en eins og till. er á þskj. 716, þá er það sama og að fella till., svo mér finnst, að hv. 5. landsk. hafi ekki farið fjarri sannleikanum, að meiri hl. vildi fella till., og það er hreinlegra að fella hana en að samþ. svona áskorun, af því það er vitað, að skilan. hefur ekki staðið sig illa, heldur þvert á móti. Hún hefur hamrað á útgerðarmönnum um að fá upplýsingar og hefur reynt allt, sem hún hefur getað, til að hraða skuldaskilum. Ég tel því óþarft að samþ. áskorun til skuldaskilan. um að hún hraði sínum störfum, því hún hefur ekki gefið tilefni til þess. En það þarf að létta undir störf hennar með því að fá eins glöggt yfirlit yfir sjóveðskröfurnar, sem n. hefur fengið til meðferðar, eins og hægt er, það mundi gera allt starf hennar miklu léttara. Ég mælist því til, að þessi brtt. meiri hl. verði felld. Þó vil ég lýsa því yfir, að ég mun verða með brtt. hv. þm. Ísaf. við hana, en ég tel æskilegast að samþ. till. á þskj. 202 óbreytta.