12.12.1950
Neðri deild: 37. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 129 í B-deild Alþingistíðinda. (415)

24. mál, aðstoð til bænda á óþurrkasvæðunum

Atvmrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Ég hef ekki tekið þátt í þessum umr., en ég vil aðeins staðfesta það, sem þeir forsrh. og landbrh. hafa sagt hér áður, og upplýsa það, að innan ríkisstj. var enginn ágreiningur um þessi mál. Með vaxandi óhug horfðu menn fram á komandi vetur, uggandi um það, að bændur yrðu til þess neyddir að skera bústofn sinn stórlega niður. Og ríkisstj. sendi menn til þess að rannsaka ástandið á þessum svæðum, og ég hygg, að niðurstöður þessara rannsókna verði ekki vefengdar. Það var sýnilegt, að það var bráð neyð fyrir dyrum, og það var ekki mikill tími til stefnu. Og það er misskilningur hjá hv. 8. landsk., að það hefði nægt að gefa bændum loforð um hjálp, — það voru seinustu forvöð til þess að þessi hjálp kæmi að notum. Bændur áttu ekki nema 2/3 af heyfeng sínum, og 1–2 dögum síðar urðu þeir að vita, hvað þeir gætu sett á af búpeningi sínum. Annars var hætta á, að þeir skæru niður eða settu svo og svo mikið af fénaði sínum á guð og gaddinn, sem hefði svo komið þeim í koll síðar. Eftir slíkan vetur var hætta á, að þeir yfirgæfu jarðir sínar og flyttust burt í von um einhver lífsskilyrði annars staðar, og það veit ég, að er á móti vilja alls Alþingis. Það er því sýnt, að þessi hjálp mátti ekki koma seinna, ef að gagni átti að koma, og það er því úr lausu lofti gripið að deila á ríkisstj. fyrir aðgerðir hennar í þessu máli, og ég vil taka það fram, að stj. stóð einhuga í þessu máli, og ef menn vilja ásaka einhverja aðila hennar, þá er þeim óhætt að ásaka hana alla. — Hvað því viðkemur, að þörf sé á hjálp til handa sjávarútveginum, þá er það mál þegar komið á nokkurn rekspöl og þegar fyrir hendi áætlanir um 20 millj. kr. aðstoð honum til handa, og ég vona, að sú hjálp geti orðið sem happadrýgst. — Ég hef nú nokkuð rakið sögu þessa máls. Það er öllum mönnum ljóst, að hér mátti engu muna, og ég vil taka það fram, að í þessu máli stóð ríkisstj. öll einhuga, og ég held, að það, sem við gerðum, hafi ekki verið annað en það, sem sannfæringin og skyldan bauð okkur.